131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Vatnajökulsþjóðgarður.

121. mál
[15:42]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir þessar ágætu umræður þó að auðvitað hafi komið fram í umræðunni að ólík sjónarmið ríkja varðandi þessi efni. Ég ítreka að það kom skýrt fram í máli mínu að mat á verndargildi Langasjávar liggur ekki fyrir og það er auðvitað nauðsynlegt að slíkt mat fari fram áður en hægt er að taka nokkrar ákvarðanir.

Eins er líka ljóst að við samþykktum náttúruverndaráætlun í þinginu síðasta vor til næstu fimm ára og það er gríðarlega mikið verkefni fram undan að koma þeirri áætlun í framkvæmd. Það liggur fyrir að mikil áhersla er á náttúruverndarmálin, bæði náttúruverndaráætlun og þjóðgarðamálin sem við þurfum að framfylgja á næstu árum.