131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Þjónustugjöld á náttúruverndarsvæðum.

221. mál
[15:44]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Í úttekt OECD frá árinu 2001 á stöðu og þróun umhverfismála á Íslandi bendir stofnunin á að vegna mikillar aukningar í ferðaþjónustu á Íslandi sé þörf á að setja hemil á það álag á náttúru landsins sem því fylgir, þ.e. þörf er fyrir auknar fjárveitingar til uppbyggingar á betri aðstöðu og þörf á fleiri eftirlitsmönnum á viðkvæmustu ferðamannasvæðunum.

Engum blandast hugur um að þetta er rétt lýsing á stöðu mála hér á landi og þrátt fyrir aukinn skilning og auknar fjárveitingar í málaflokkinn á síðustu árum dugar það ekki til. Víða má sjá gróðurskemmdir og álagsmerki á landinu af manna völdum sem hægt væri að koma í veg fyrir með ýmsum ráðstöfunum.

Í skýrslu OECD eru einnig lagðar fram ýmsar tillögur sem geta stuðlað að auknum árangri Íslendinga á sviði umhverfismála. Þar er m.a. lagt til að fjölgað verði landvörðum á náttúruverndarsvæðum og fjármagn til náttúruverndar aukið, t.d. með því að beita nytjagreiðslureglum í ferðaþjónustu og með gjaldtöku af ferðamönnum á friðuðum svæðum.

Ástæða þess að ég tek þetta mál upp nú á hinu háa Alþingi er að nú er kominn nýr umhverfisráðherra. Hvatningin til að taka þetta mál upp hér og nú var frétt sem birtist nýlega í Morgunblaðinu þar sem sagt var frá niðurstöðu meistararitgerðar Maríu Reynisdóttur en hún kannaði vilja ferðamanna til að greiða gjald á ferðamannastöðum. María notaði viðurkennda aðferðafræði sem kölluð er skilyrt verðmætamat og felst í að gefnar eru tilteknar forsendur áður en fólk svarar hinni eiginlegu spurningu um hvort það sé tilbúið að greiða fyrir aðgang. Forsendurnar eru að gjaldið yrði notað til að vernda náttúruna, til uppbyggingar á svæðunum og þriðja forsendan að fjármagn væri ekki nægilegt í dag.

Að mati Maríu gefur athugun hennar betri mynd af vilja ferðamanna en þær athuganir sem hingað til hafa verið gerðar. Að gefnum þessum forsendum svöruðu 90% ferðamanna sem tóku þátt í athuguninni því játandi að þeir væru tilbúnir til að borga sig inn. Í sömu frétt var viðtal við formann Samtaka ferðaþjónustunnar sem sagði að fara yrði varlega í gjaldtöku á ferðamannastöðum en hann bætti jafnframt við að yrðu fjármunirnir nýttir til uppbyggingar á svæðunum væri gjaldtakan mjög jákvæð.

Í ljósi þessa varpa ég þeirri fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að tekin verði upp þjónustugjöld á náttúruverndarsvæðum, samanber heimild í 32. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.