131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Æfingaaksturssvæði.

257. mál
[18:04]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spyr hvað líði áformum um gerð æfingaaksturssvæðis á suðvesturhorni landsins.

Í ræðu minni þann 12. júlí síðastliðinn kynnti ég aðgerðaáætlun samgönguráðuneytisins vegna umferðaröryggismála undir yfirskriftinni Breytum þessu. Þar greindi ég m.a. frá því að hafin er vinna við að skoða útfærslu á reglugerð vegna svokallaðrar ökugerðishugmyndar, þ.e. ökugerði er sérstakt æfingasvæði þar sem nemendur öðlast t.d. skilning á hversu bjargarlausir þeir eru í hálku, eins og menn þekkja, ef ekið er hraðar en aðstæður leyfa. Þessum hálkubrautum er ekki ætlað að kenna fólki að bregðast við þegar bíll rennur í hálku heldur að aka skynsamlega við erfiðar aðstæður og koma þannig í veg fyrir að slíkar aðstæður komi upp yfir höfuð.

Í ráðuneytinu hefur farið fram undirbúningur og frekara mat á reglugerð um ökugerði. Í þeirri vinnu hefur verið leitað upplýsinga um rannsóknir á þessu sviði. Í rannsóknum fræðimanna á sviði aksturskennslu á Norðurlöndum kemur fram að helsti vandinn við aksturskennslu á æfingasvæðum felst í því að nemendur telja sig auka hæfni sína verulega í hálkuakstri á námskeiðunum. Af þeim sökum ofmeta ungir ökumenn getu sína til að stýra ökutæki í hálku eftir kennslu. Í skýrslu frá Noregi er því m.a. haldið fram að slysum í hálku hjá ungum karlmönnum sem höfðu fengið kennslu á hálkubraut hafi fjölgað um 23% miðað við samanburðarhópa.

Nýlega birtist grein í fagtímariti á sviði umferðaröryggismála þar sem gerð er grein fyrir áhrifum kennslu í ökugerði á slysatíðni ungra ökumanna í Finnlandi. Þar kemur fram að kennslan virðist ekki hafa nein áhrif á slysatíðni ungra ökumanna í Finnlandi, hvorki til fjölgunar slysa né fækkunar.

Nágrannar okkar Svíar breyttu námskrám fyrir aksturskennslu í ökugerði árið 1999 með það að markmiði að leggja áherslu á aukið innsæi nemenda gagnvart áhættu í umferðinni. Sérfræðingar í Svíþjóð framkvæmdu viðhorfskönnun eftir breytinguna og þar kemur fram að enn telja tæp 50% nemenda að markmið æfinganna sé að auka hæfni þeirra í hálkuakstri.

Í ljósi nýrra upplýsinga um aksturskennslu í ökugerði lagði ég til að hægt yrði á innleiðingu á aksturskennslu í ökugerði, og vísaði þá m.a. til þessara upplýsinga sem ég greindi hér frá fyrr, og leitað frekari upplýsinga um áhrif kennslunnar á umferðaröryggi, sérstaklega eftir innleiðingu nýrrar námskrár í Svíþjóð. Mikilvægt er að árangur af kennslu í ökugerði skili sér í fækkun slysa og óhappa. Þess er vænst að fjallað verði um aksturskennslu í ökugerði á fundi Umferðarráðs í desember næstkomandi og í framhaldi af þeirri umfjöllun mun ég taka ákvörðun um næstu skref. Það hefur verið skýr vilji minn og skýr vilji þeirra sem hafa fjallað um þetta fyrir ráðuneytið að vinna að þessari útfærslu og vinna að því að koma upp þessum akstursgerðum í samstarfi við ekki síst ökukennara.

Það hefur komið fram á fundum með fulltrúum ökukennara að þeir hafa trú á mikilvægi þjálfunar ungra ökumanna í ökugerði og leggja áherslu á að komið verði upp slíkri aðstöðu. Ráðuneytið mun hafa álit þeirra, þ.e. ökukennara, Umferðarráðs og Umferðarstofu til hliðsjónar þegar ákvörðun verður tekin um með hvaða hætti reglur um ökugerði verði settar.

Ég legg áherslu á það, herra forseti, að við leitum allra leiða til þess að þjálfun ungra ökumanna sé sem best. Það er mat margra, og þess vegna var farið af stað og þessi markmið sett inn í þá áætlun sem ég greindi frá áðan af hálfu samgönguráðuneytisins, að koma eigi því til leiðar að ökukennarar fái slíka aðstöðu til þess að þjálfa unga ökumenn betur. Ég tel að allar séu líkur á því að (Forseti hringir.) því verði hrint í framkvæmd fyrr en síðar að koma upp þessu ökugerði.