131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Æfingaaksturssvæði.

257. mál
[18:09]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja hæstv. samgönguráðherra til að taka svolítið stór skref í þessu máli og stíga ögn þyngra til jarðar en hann gaf til kynna í svari sínu af því að þó svo að ökukennslu hérlendis hafi farið fram á síðustu árum og áratugum þá er henni stórkostlega ábótavant. Það helgast ekki síst af skorti á slíkum æfingasvæðum og hins vegar því hve ólík akstursskilyrðin eru hérna eftir árstímum og hve vegakerfið hérna er misgott og aðstæður þar oft verulega erfiðar á vetrum. Aksturshæfni ökunema fer því oft eftir því hvenær árs hann lærir á bíl. Því þarf mjög nauðsynlega að koma upp slíkum æfingasvæðum á suðvesturhorninu og víðar þannig að tryggja megi ákveðna samræmingu í þessu og auka verulega aksturshæfni ungra ökumanna og þar með öryggi og ábyrgð í umferðinni enda gefur slysatíðni ungra ökumanna og sérstaklega karlmanna til kynna hve verulega þessum málum er ábótavant. Ég skora aftur á hæstv. ráðherra að stíga nú þungt til jarðar í þessu máli.