131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Notkun risabora við jarðgangagerð.

292. mál
[18:18]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hilmari Gunnlaugssyni fyrir þessa fyrirspurn. Því miður gafst ekki nægilega mikill tími til að fara rækilega ofan í athugun á þessu máli sem hér er brotið upp með fyrirspurn.

Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður: „Er notkun risabora, eins og þeirra sem notaðir eru við gerð aðveituganga í tengslum við Kárahnjúkavirkjun, möguleg við gerð jarðganga fyrir bílaumferð?“

Svar mitt er svohljóðandi: Risaborvélar eins og þær sem notaðar eru við Kárahnjúkavirkjun eru víða notaðar við gerð vegganga og þá sérstaklega við gerð lengri vegganga en hefðbundinn bor og sprengitækni er þó mun algengari þegar um veggöng er að ræða.

Í annan stað er spurt: „Hver má ætla að kostnaður sé við slíka jarðgangagerð á hvern kílómetra?“

Svar mitt er svohljóðandi: Kostnaður við slíka jarðgangagerð á hvern kílómetra er háður þversniði og lengd ganga ásamt þeim jarðfræðilegu aðstæðum sem búast má við á jarðgangaleiðinni og því er erfitt að bera þetta saman. Almennt er þó kostnaður svipaður að talið er og við sprengd göng en verktíminn er yfirleitt mun styttri þegar um þessi stóru og afkastamiklu tæki er að ræða.

Í þriðja lagi er spurt: „Hver er áætlaður meðaltalskostnaður á hvern kílómetra jarðganga fyrir bílaumferð sem unnið er að núna og eru fyrirhuguð?“

Svar mitt er svohljóðandi: Áætlaður meðaltalskostnaður þeirra jarðganga sem nú er unnið að er 650–800 millj. kr. á kílómetra en það er m.a. háð gangalengd. Í þeim tölum er meðtalinn allur kostnaður, m.a. undirbúningur og vega- og skálagerð utan ganga, þ.e. 650–800 millj. kr. á hvern kílómetra.

Í fjórða lagi er spurt: „Liggja fyrir upplýsingar um hvor aðferðin er fljótlegri og ef svo er, hversu tímafrek hvor aðferðin um sig er?“

Eins og segir að ofan er mun fljótlegra að nota svonefnda heilborun við sjálfa gangagerðina. Reikna má með að með hefðbundinni aðferð sé unnt að grafa allt að 2,5 km á ári með hverjum jarðgangaflokki en oft er grafið frá báðum endum og má miða við að göng lengist um 4,5–5 km á ári. Reikna má með að ein risaborvél afkasti meiru en þessu eða um 150 metrum á viku og 5–7 km á ári. Það er þó alveg háð aðstæðum á hverjum stað.

Einnig tekur nokkuð langan tíma að setja slíkar vélar saman í verkbyrjun og undirbúa þær aðstæður sem þessi búnaður þarf að hafa. Þar eð gangagerðin sjálf tekur ekki nema ríflega helming verktímans og forvinna, eftirvinna í göngum og vega- og skálagerð utan ganga tekur jafnlangan tíma í báðum tilfellum, þá er ekki hægt að reikna með að heildarverktími styttist nema um e.t.v. 25% miðað við eina borvél borið saman við tvo sprengiflokka þannig að það er um 25% skemmri tími sem þetta tæki. En ég vil undirstrika það sem kom fram hjá mér fyrr að sá búnaður sem notaður er í Kárahnjúkavirkjun er fyrst og fremst hagstæður í lengri göngum.