131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Notkun risabora við jarðgangagerð.

292. mál
[18:23]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði áðan, annars vegar þakka fyrirspyrjanda fyrir að taka málið upp og hins vegar ráðherra fyrir svörin sem hann gaf vegna þess að það er auðvitað nýtt fyrir okkur á Íslandi að hafa slíka risabora hér að störfum og er ánægjulegt að fylgjast með þeim mikla gangi sem er við boranir fyrir austan.

Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra út í það hvort meiri sparnaður geti hugsanlega skapast af þessu þar sem menn eru ekki að sprengja og það hefur ekki þau áhrif að sprungur myndast í veggjum og ekki þarf að teina þá eins mikið upp. Getur verið að meiri sparnaður leynist í því þegar búið er að heilbora bergið og það verði miklu betra, sem það að sjálfsögðu verður, og það skili sér kannski í minni kostnaði?

Ég vil svo líka taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að það er í tísku hjá mönnum að tala illa um jarðgangaframkvæmdir. Því miður er það svo og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst sú umræða sem sem hv. þingmaður hóf hér ólíkt gáfulegri og betri en arfavitlaus ályktun framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi.