131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Notkun risabora við jarðgangagerð.

292. mál
[18:26]

Fyrirspyrjandi (Hilmar Gunnlaugsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra kærlega fyrir að koma upp og svara fyrirspurn minni og lýsi yfir ánægju minni með þau svör miðað við þann skamma tíma sem óneitanlega var skammtaður þar sem þetta er síðasti dagur minn á þingi og verið var að leitast við að gefa mér færi á að fylgja fyrirspurninni eftir.

Að mörgu leyti má segja að svarið komi ekki á óvart. Það liggur svo sem fyrir að kostnaður og tími sem fer í að setja þessa risabora upp og taka þá niður er mikill og þess vegna átti maður von á að það væru einkum við lengri göng sem gæti verið hagkvæmt að nota þessa risabora. Þó er rétt að halda því til haga að einn þeirra þriggja bora sem nú eru uppi á hálendinu kom hingað úr verki að mér skilst í New York sem voru 6 km löng göng.

Ég fagna þeim viðbrögðum sem hér hafa komið fram og vek athygli á því að málið snýst ekki um eitt ákveðið kjördæmi heldur er um að ræða mál sem ætti að vera hægt að horfa á á landsvísu og því vil ég taka undir það sem kom fram áðan hjá hv. þingmanni Norðausturkjördæmis, Einari Má Sigurðarsyni, að menn geri áætlun til lengri tíma og hafi meira undir.

Ég ítreka þakkir fyrir góða umræðu og góð svör.