131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Notkun risabora við jarðgangagerð.

292. mál
[18:27]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Eðlilega velta hv. þingmenn fyrir sér hvort hægt sé að finna leiðir til að sú mannvirkjagerð sem jarðgöng eru geti orðið sem hagkvæmust og ódýrust. En ég held að það hafi komið í ljós út af fyrir sig þegar jarðgöng voru boðin út á sínum tíma milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar að þá sáu menn ekki fyrir sér þennan möguleika því að heilborun og allur sá búnaður sem þar er á ferðinni, og er nýtt núna við Kárahnjúka, er auðvitað þekkt til margra ára víða í heiminum og verktakar sem hafa velt fyrir sér jarðgangagerð þekkja þá möguleika sem það skapar. Ég á ekki von á eins og kaupin gerast á eyrinni núna að þau jarðgöng sem verða á næstunni á dagskrá skapi skilyrði til að nýta þessa tækni. Þó skal ég svo sem ekki fullyrða neitt um það á þessu stigi. Vonandi er sá möguleiki fyrir hendi en það er fátt sem bendir til þess eins og málin standa. Aðalatriðið er að verktakarnir leggi sig fram um að finna leiðir sem eru hagkvæmar og eigi möguleika á því að fá þau verk sem fyrir liggur að verði farið í á sviði jarðganga á næstu árum.

Ég held að það sé afar mikilvægt að þingmenn velti þessu fyrir sér og því fagna ég þessari fyrirspurn og þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að fá tækifæri til að svara þessu hér og nú.