131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Gjafsókn.

167. mál
[18:33]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Það er erfitt að svara þessu nákvæmlega vegna þess að það eru miklar töflur sem fylgja ef menn vilja fá svörin mjög nákvæm, enda hef ég líka svarað skriflega svipuðu efni og þau gögn eru öll tiltæk og líka gögn sem skýra betur það sem ég flyt hér munnlega.

Fyrst er spurt: „Hvernig hefur kostnaður ríkissjóðs við gjafsókn þróast árin 1998–2003?“

Svarið er: Árið 1998 var kostnaður ríkisins vegna gjafsóknar rétt rúmar 37 millj. kr., á síðasta ári var þessi kostnaður rétt tæplega 110 millj. kr. Útgjöld ríkisins vegna gjafsóknar hafa því hækkað umtalsvert á síðustu árum eins og þessar tölu bera með sér sem eru á verðlagi hvors árs um sig. Hækkunin milli ára á þessu tímabili hefur verið frá tæpum 9% upp í ríflega 30%, en þess má geta að á milli áranna 1997 og 1998 hækkuðu útgjöld vegna gjafsóknar um 44,6% milli ára.

Í öðru lagi er spurt: „Hvernig er þróunin miðað við fjölda mála fyrir dómstólum á sama tíma?“

Svarið er: Heildarfjöldi innkominna dómsmála hjá héraðsdómstólum var árið 1998 15.459 mál, árið 2003 var þessi tala komin upp í 35.861 mál. Það ber að hafa í huga að í þessum tölum hafa sama vægi einfalt áritunarmál og munnlega flutt einkamál en mikill munur er á umfangi slíkra mála. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að munnlega flutt mál hjá héraðsdómstólum voru 1.068 árið 1998 en 1.371 árið 2003.

Í þriðja lagi er spurt: „Hvernig skiptist kostnaður á milli gjafsóknar skv. a-lið og b-lið 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991?“

Og í fjórða lagi er spurt: „ Hvernig skiptist kostnaður við gjafsókn skv. b-lið 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála eftir því hvort byggt er á að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði einkahagi umsækjanda?“

Hvað þessar spurningar varðar liggja þessar upplýsingar ekki fyrir í dómsmálaráðuneytinu eða hjá gjafsóknanefnd en kostnaður vegna gjafsóknar er ekki sundurliðaður annars vegar vegna a-liðar og hins vegar b-liðar 1. mgr. 126. gr. einkamálalaga fremur en milli einstakra liða undir b-lið og ógerningur er að finna þetta út nákvæmlega. Sundurliðun er hins vegar milli svokallaðrar lögbundinnar gjafsóknar og gjafsóknar á grundvelli einkamálalaga.

Þróun kostnaðar vegna lögbundinna gjafsókna frá árinu 1998 er þannig að árið 1998 var heildarkostnaður um 6,5 millj. kr. en um 11,5 millj. kr. árið 2003 eða rétt um 10% af heildarútgjöldum vegna gjafsókna það ár.

Það má hins vegar fara nokkuð nærri um kostnaðarskiptingu á milli framangreindra a- og b-liða 1. mgr. 126. gr. einkamálalaganna með því að bera saman fjölda veittra gjafsókna eftir hvorum lið fyrir sig.

Eins og fram kemur í svari mínu við fyrirspurn um það efni fyrr á þessu þingi er gjafsókn mjög sjaldan veitt á grundvelli b-liðar. Til dæmis var þetta hlutfall árið 1998 með þeim hætti að gjafsókn var í 131 tilfelli veitt á grundvelli a-liðar það ár, fjórum sinnum á grundvelli b-liðar og tólf sinnum á grundvelli a- og b-liðar sameiginlega.

Sambærilegar tölur fyrir árið 2002 eru að 226 sinnum mælti gjafsóknanefnd með gjafsókn á grundvelli a-liðar, 22 sinnum á grundvelli b-liðar og sjö sinnum á grundvelli a- og b-liðar sameiginlega. Það má því ætla að útgjöld vegna gjafsókna á grundvelli b-liðar nemi samkvæmt þessu um 5–15% af heildarútgjöldum vegna gjafsóknar á ári hverju.

Þetta er það sem ég ætla að segja um þetta með vísan til þessarar fyrirspurnar, en þar sem hv. fyrirspyrjandi vék að því frumvarpi sem nú liggur fyrir, og ég veit að allsherjarnefnd er að fjalla um, þá er það frumvarp, eins og ég sagði í umræðu um það þegar ég lagði það fram við 1. umr. um málið, flutt með það að meginmarkmiði að tryggja að þeir fjármunir sem eru til ráðstöfunar vegna gjafsóknar renni til þeirra sem ekki hafa fjárhagslega burði til að fara í mál að öðrum kosti en að þeir fái gjafsókn. Það er meginmarkmið þess frumvarps að tryggja að þeir fjármunir, sem eru takmarkaðir eins og allir fjármunir eru almennt séð, nýtist þeim sem þurfa á gjafsókn að halda vegna þess hvernig fjárhag þeirra er háttað.