131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Gjafsókn.

167. mál
[18:38]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir nokkuð greinargott svar hans. En eins og ráðherrann gerði réttilega grein fyrir í ræðu sinni er erfitt að henda reiður á upptalningu á slíkum tölum en það liggur þá skýrar fyrir þegar hægt er að lesa í þingskjölum ræðu hæstv. dómsmálaráðherra.

Hins vegar hefði ég viljað fá heldur skýrar fram hjá hæstv. ráðherra það sem hann talaði um að lægi fyrir í skriflegu svari frá honum um svipaðar upplýsingar vegna þess að það eina sem ég hef fundið af gögnum um þetta, og hef verið að leita ásamt fleirum vegna þessa frumvarps, er svar við þessari fyrirspurn frá síðasta þingi, sem var 170. mál, en það laut fyrst og fremst að fjölda málanna, en það er krónutalan, sundurliðaður kostnaður sem ég er fyrst og fremst að inna ráðherrann eftir með þessari fyrirspurn.

En ástæðan fyrir því að spurt er er sú að með frumvarpinu sem ráðherra hefur mælt fyrir og er til meðferðar í allsherjarnefnd er gengið úr frá því að fella út þann hluta b-liðarins sem varðar „almenna þýðingu“ fyrir umsækjanda. Það sem við veltum fyrir okkur í allsherjarnefnd og kom líka fram hér þegar ráðherra mælti fyrir málinu og í umræðunni var spurningin hvað væri unnið með því, hverju það skilaði ríkissjóði að fella það ákvæði út.

Ef ég skildi svar ráðherrans rétt voru það fjögur mál þar sem gjafsókn var veitt á grundvelli þessa liðar og upp í 22 þegar mest var en það skiptir svo sem ekki öllu. Í rauninni stendur eftir, eins og ég skil svarið, það sem kom fram á fundi með fulltrúa dómsmálaráðuneytisins hjá allsherjarnefnd að sparnaðurinn gæti numið 10–15 milljónum árlega, en hins vegar er það bagalegt að ekki er hægt að fá nánari upplýsingar (Forseti hringir.) frá gjafsóknanefnd um hvernig kostnaðurinn er sundurliðaður.