131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Styrking efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

281. mál
[18:56]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Svar mitt við fyrri fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda er einfalt. Ég tel að það sé rétt að efnahagsbrotadeildin eflist og styrkist til að takast á við flóknari brot en við höfum áður þekkt og lúta starfssviði hennar. En við skulum minnast þess að efnahagsbrotadeildin er ein fjögurra eftirlitsaðila sem hafa fengið ný og stærri verkefni vegna breytinga á sviði viðskipta og aukinna umsvifa í efnahagslífinu. Hinar eru Samkeppnisstofnun þar sem starfsmenn eru fleiri en 20 og fær hún tæplega 160 millj. kr. á ári, Fjármálaeftirlitið þar sem starfsmenn eru fleiri en 30 og fjárveiting í ár tæplega 290 millj. kr. og skattrannsóknastjóri þar sem starfsmenn eru 24, þar af 12 rannsóknarmenn og fjárveiting í ár er 124 millj. kr. Allar þessar stofnanir hafa verið að eflast og styrkjast eins og efnahagsbrotadeildin en fjárveiting til hennar í ár er 119 millj. kr. og þar starfa nú 17 manns. Var þeim fjölgað tímabundið um þrjá á síðasta ári ekki síst vegna þess máls sem fyrirspyrjandi nefnir í síðari spurningu sinni, þ.e. vegna rannsóknarinnar varðandi þátt einstaklinga í verðsamráði olíufélaganna.

Í mínum huga er ekki nokkur vafi um það að kröfur til þessara eftirlitsstofnana eiga eftir að aukast enn frekar og til að mæta þeim þarf að gera stjórnendum þeirra kleift að ráða til sín fleira fólk og vel menntað fólk. Mikið er í húfi að borið sé traust til íslensks fjármála- og viðskiptalífs en öflugir opinberir eftirlitsaðilar skipta máli við mótun þess trausts.

Á fjáraukalögum fyrir árið 2003 var veitt 15 millj. kr. til að fjölga störfum lögreglumanna við efnahagsbrotadeildina. Þessi hækkun hélst í fjárlögum fyrir árið 2004 og með henni fylgdi eftirfarandi greinargerð, með leyfi forseta:

„Veitt er 15 millj. kr. tímabundið framlag til að fjölga störfum lögreglumanna við efnahagsbrotadeild embættisins. Málum deildarinnar fjölgar stöðugt svo sem vegna meintra samkeppnislagabrota, peningaþvættis, fíkniefnabrota og annarra umfangsmikilla sakamála sem mikilvægt er að dragist ekki á langinn að rannsaka.“

Þessi fjárveiting fylgir efnahagbrotadeildinni næsta ár, árið 2005, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir.

Vegna orðalags í fyrri spurningu hv. fyrirspyrjanda er rétt að taka fram að aðeins í sex málum af um 240 hefur refsing verið milduð vegna dráttar við rannsókn mála en sakfellt var í þessum málum öllum og þarf að skoða hvert þeirra fyrir sig til að átta sig á hvort drátturinn stafar af skorti á mannafla. Ég dreg það raunar í efa að svo sé og menn þurfi þess vegna að gæta sín á því að alhæfa ekki neitt um slík mál heldur skoða hvert mál fyrir sig, ef þeir ætla að halda því fram með rökum að ástæðan fyrir töfum málanna hafi verið skortur á mannafla.