131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Styrking efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

281. mál
[19:02]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég þakka þann áhuga sem kemur fram á störfum efnahagsbrotadeildarinnar sem er hluti af starfsemi ríkislögreglustjóra eins og við vitum. Oft hafa verið fluttar ræður um það úr þessum ræðustól að ríkislögreglustjóraembættið hafi verið að þenjast of mikið út og menn hafa gagnrýnt það þegar gerðar hafa verið ráðstafanir til að efla það en það er gleðilegt að vita til þess að jafnöflugur þingmaður og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er þeirrar skoðunar núna að það þurfi að efla og styrkja ríkislögreglustjóraembættið og þá sérstaklega efnahagsbrotadeildina.

Eins og ég sagði tel ég rétt að efnahagsbrotadeildin eflist og styrkist til að takast á við flóknari verkefni. Ég tel að ég hafi beitt mér fyrir því á síðustu árum með þeirri aukafjárveitingu sem er haldið í ár og helst líka á næsta ári til þess að efla og styrkja efnahagsbrotadeildina. (Gripið fram í.) Aðalatriðið er síðan að leggja á ráðin um framtíð deildarinnar. Ég hef beitt mér fyrir því að efla þann þátt í starfsemi ríkislögreglustjóraembættisins sem lýtur að sérsveitinni. Ég gerði það að forgangsmáli við eflingu ríkislögreglustjóraembættisins. Ég beitti mér síðan fyrir þessari sérstöku fjárveitingu og ég mun nú að sjálfsögðu leggja á ráðin um að efla efnahagsbrotadeildina þegar ég sé fyrir endann á því að sérsveitarþátturinn er kominn í gott og viðunandi horf. Það þarf að gera þetta og styrkja það. Aðalatriðið er líka að menn líti til þess að þarna ráðist fólk sem er hæft til þess að takast á við þau nýju og flóknu viðfangsefni sem undir deildina falla þannig að ég er alveg sammála hv. þingmanni um þetta. Ég mun hins vegar ekki hafa afskipti af einstökum málum. Ég mun ekki hlutast til um að menn hraði eða seinki rannsóknum eða yfirleitt skipta mér af rannsóknum mála. Ég tel að það sé fyrir utan mitt verksvið sem ráðherra en ég lít á það sem mitt hlutverk að skapa efnahagsbrotadeildinni og ríkislögreglustjóraembættinu viðunandi starfsumhverfi og starfsaðstæður og tel mig hafa verið að vinna að því á undanförnum missirum.