131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.

[10:39]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins og beini orðum mínum til hæstv. menntamálaráðherra. Á síðustu vikum hefur Morgunblaðið verið að fylla upp í myndina af stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ. Í fyrradag segir nýráðinn framkvæmdastjóri akademíunnar í viðtali við blaðið að ríkissjóður ætli að fjármagna rekstur hennar og hún muni taka 30 nema í íþróttafræðum strax næsta haust og útskrifa 110 íþróttafræðinga árlega þegar reksturinn verður kominn í fullan gang.

Hæstv. forseti. Það hefur ekki farið fram nein umræða um málið í þingsölum eða á hinum pólitíska vettvangi almennt. Hvorki fjárlaganefnd né menntamálanefnd hafa fengið erindi um málið og þingheimur veit hvorki um faglegar né pólitískar forsendur þess. Allur fróðleikur um málið kemur úr Morgunblaðinu.

Sú spurning sem brennur á fólki er hvort búið sé að stofna nýjan háskóla án þess að þingheimi sé kunnugt um það. Það er ekki svo því Háskólinn í Reykjavík, önnur sjálfseignarstofnun, ætlar að innrita nemendurna og hafa þá í námi í kennslufræðum, að vísu bara á pappírunum því kennslan mun fara fram í íþróttaakademíu Reykjanesbæjar. Þetta heitir, hæstv. forseti, á vondri íslensku að Háskólinn í Reykjavík ætli að leppa námið við íþróttaakademíuna.

Nú skal það tekið skýrt fram að ég er hlynnt því að íslensk ungmenni úti um allt land hafi fjölbreytileg námstækifæri og ég er talsmaður eflingar háskólastigsins. En það sem ég gagnrýni er hvernig ákvörðunin er tekin. Hún er gerð tortryggileg með því að hún er ekki tekin fyrir opnum tjöldum og um hana hefur ekki farið fram nein fagleg umræða. Ekkert samráð hefur verið haft við Kennaraháskóla Íslands sem rekur íþróttafræðisetur á Laugarvatni en það er augljóst að með þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar er íþróttafræðasetri á Laugarvatni ógnað stórlega. Hingað til hefur ríkt um það pólitískt sátt að setrið skuli rekið á Laugarvatni og hingað til hefur það annað öllum umsóknum um skólavist. Ég sé því ekki annað en að Kennaraháskóli Íslands muni bregðast við samkeppninni með því að flytja íþróttafræðasetrið sitt beina leið til Reykjavíkur.

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að fá upplýst hér hvers vegna ákvörðunin er tekin með þeim hætti sem ég hef lýst og hvort ekki hefði verið skynsamlegra að eiga um hana faglega og málefnalega samvinnu.