131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.

[10:48]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það eru í sjálfu sér ekkert nýjar fréttir að það eigi að stofna svokallaða íþróttaakademíu í Reykjanesbæ. Það eru margir mánuðir síðan ég heyrði um að þetta stæði til og mér finnst skrýtið ef fólk kemur af fjöllum núna við að heyra um þetta eða lesa um það í blöðum. Við þingmenn Suðurk. vorum í Reykjanesbæ, a.m.k. mörg okkar, á laugardaginn, viðstödd fyrstu skóflustungu og fyrsta áfanga kennslubyggingar fyrir þessa menntastofnun sem mun verða.

Mig langar til að spyrja: Hvenær hefur samkeppni í menntamálum verið af hinu vonda? Hefur það orðið okkur til tjóns hér á Íslandi á undanförnum árum að upp hafi risið nýjar menntastofnanir innan ákveðins geira? Hefur háskólanám á Íslandi beðið skaða af því að Háskólinn í Reykjavík var stofnaður? Ég veit ekki til þess.

Ég minni á að það eru til fleiri en einn skóli í mörgum greinum á Íslandi, það eru t.d. tveir bændaskólar í landinu. Hvers vegna ætti að vera svo neikvætt þó að við fengjum tvo skóla sem bjóða upp á nám í íþróttum? Ég er ekkert viss um að þessir skólar þyrftu að valda hvor öðrum tjóni, langt í frá, og ég held reyndar að svo verði ekki.

Okkur þingmönnum Suðurk. voru kynnt í Reykjanesbæ á laugardaginn þau áform sem eru uppi um þessa íþróttaakademíu og ég verð að segja að hugmyndin er ákaflega spennandi. Hún er í raun og veru miklu meira spennandi en ég hafði gert mér grein fyrir. Í Reykjanesbæ eru mörg íþróttamannvirki á tiltölulega litlu svæði. Reykjanesbær er í grennd við alþjóðaflugvöllinn. Þarna er hægt að koma upp miðstöð, bæði fyrir námskeiðahald og ráðstefnuhald, og ég minni á að Reykjaneshöllin er þarna, afskaplega glæsilegt og stórt mannvirki.

Það er ekki ástæða til að missa svefn yfir þessu máli, hvorki varðandi Íþróttaskólann á Laugarvatni né framtíð Íþróttaakademíunnar í Reykjanesbæ.