131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.

[10:51]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það var afskaplega skemmtilegt að vera á Suðurnesjunum sl. laugardag þegar teknar voru einar 60 skóflustungur að nýrri íþróttaakademíu við blysför bæjarbúa. Þar er verið að byggja upp öflugt íþróttastarf og eins og fram hefur komið hér er mikið og öflugt íþróttastarf á Suðurnesjunum. Það er ánægjulegt að vita til þess að stór og sterk fyrirtæki ætli að koma að þessari uppbyggingu, það er mjög gott. Það er ekki verið að binda hendur ríkisins í að byggja þessi hús, heldur aðeins það sem er ætlað fyrir nemendurna, ekki byggingarkostnað. (Gripið fram í: En rekstur?) Það fer eftir nemendaígildunum, hv. þingmaður.

Íþróttaháskóli Íslands sem er staðsettur á Laugarvatni ætlar að taka fullan þátt í þessari samkeppni og það hefur aldrei komið fram að rektor skólans þar, Ólafur Proppé, hafi sagt að það ætti að flytja skólann til Reykjavíkur. Það er einfaldlega rangt. (Gripið fram í.) Það er rangt, og skólinn sá ætlar að taka þátt í þessari samkeppni. Hún verður öllum til góðs.

Hvað varðar ábyrgð Háskólans í Reykjavík á náminu þótti mér ansi undarlegt að heyra frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að það væri orðin einhver gjaldfelling á náminu ef það færi fram í Reykjanesbæ. Ég bara bið forláts — skiptir það máli hvar skólastofan er ef námið fer fram á réttan hátt og eftir réttu lagaumhverfi?

Það er einfaldlega mikið tækifæri fyrir Suðurnesjamenn að fá þarna öflugan skóla. Þetta er tækifæri fyrir ungt fólk á Suðurnesjum, þar hefur brottfall nemenda verið mest á landinu. Það er mikið og öflugt starf sem þarna mun fara fram öllum til góðs.