131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.

[10:57]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram var tekin skóflustunga að íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ sl. laugardag og að sjálfsögðu fögnum við íbúar á Suðurnesjum því að í fyrsta skipti á að fara fram staðbundið háskólanám á Suðurnesjum.

Ég verð að segja að mér þykir svolítið undarlegt og reyndar með eindæmum að það að Háskólinn í Reykjavík hafi ákveðið að setja upp staðbundið háskólanám á Suðurnesjum skuli kalla á umræðu á hinu háa Alþingi. Upphaf hennar er ekki með þeim hætti að það þurfi að hafa af þessu áhyggjur og enn síður að lýsa óánægju með þessa ákvörðun Háskólans í Reykjavík.

Það er alveg rétt að þetta mál ber að með óhefðbundnum hætti. Það getur vel verið að það hefði átt og þurft að ræða málið á Alþingi áður en það var komið svona langt en það á ekki að koma nokkrum alþingismanni á óvart að verið sé að stofna íþróttaakademíu í Reykjanesbæ. Þær fréttir hafa verið uppi nokkuð lengi og eru ekki nýjar í dag.

Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa tekið þessari hugmynd fagnandi, fyrirtæki stór og öflug á Suðurnesjum hafa gert það líka og Suðurnesjamenn eru einróma í því að ætla að taka vel á móti þessari nýju stofnun og að þetta verði stofnun sem við getum verið stolt af á landsvísu.

Ég skil þá sem hafa áhyggjur af Laugarvatni en bendi á, eins og fleiri hv. þm. sem hér hafa talað, að þegar komið hefur nýr háskóli einhvers staðar og boðið upp á sambærilegt nám og gömlu háskólarnir hafa verið að gera hefur það orðið til þess að nemendum hefur fjölgað, eftirspurn hefur aukist og oft og tíðum gæði náms líka.

Ég hef engar áhyggjur af þessu máli og fagna því að þetta skuli nú loks vera orðið að raunveruleika á Suðurnesjum.