131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.

[11:03]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa komið m.a. inn á samkeppnina því að hvenær hefur samkeppni í mennta- og skólakerfinu leitt til annars en mikillar grósku á sviði háskólastarfsemi og annarrar skólastarfsemi? Við værum ekki að upplifa þann mikla fjölda í skólum landsins, hvort sem það er í ríkisskólum eða sjálfstæðum skólum, nema af því að við erum með öfluga og mikla og góða samkeppni sem hefur leitt þetta gróskumikla starf af sér.

Ég vil líka geta þess að starfið á Laugarvatni heldur að sjálfsögðu áfram. Þar hefur átt sér stað metnaðarfull uppbygging undir öflugri forustu Erlings Jóhannessonar og einnig undir forustu KHÍ og Ólafs Proppés og að sjálfsögðu verður áframhaldandi uppbygging á Laugarvatni.

Ef við lítum til sögunnar getum við ekki ætlað annað en að gróskan á Laugarvatni verði enn meiri eftir tilkomu sportakademíunanr miðað við það sem hefur gerst annars staðar í samfélaginu. Ég fullyrði að Háskóli Íslands og aðrir háskólar hafa aldrei verið öflugri en í dag. Menntasóknin er það mikil og það er greinilegt að fólk hefur tekið þessum tækifærum og þessu valfrelsi afar vel og það hefur leitt til þess að íslenskt atvinnulíf er mun samkeppnishæfara en áður.

Ég mótmæli því harðlega sem fram hefur komið, m.a. í máli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, að einhver feluleikur hafi verið um þetta mál. Síður en svo. Eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson kom inn á hafa allir vitað af þessu máli lengi, uppbygging er búin að standa lengi og aðdragandi að því hefur verið langur.

Ég undirstrika að það er mikið fagnaðarefni að háskólar landsins, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu, eru að færa út kvíarnar á landsbyggðinni. Við eigum að fagna því í þessum sal en ekki vera með einhverjar úrtöluraddir.

Ég vil líka undirstrika, herra forseti, að það er öflugt íþróttastarf um land allt. Það eru feikilega fín félög víða á landsbyggðinni og líka á höfuðborgarsvæðinu, og ég er viss um það, herra forseti, að við getum bæði tekið undir það og sagt hér í ræðustól: Áfram FH.

(Forseti (GÁS): Þetta voru prýðileg lok á þessari umræðu um störf þingsins.)