131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[11:06]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004.

Fjárlaganefnd hefur haft frumvarpið til athugunar að undanförnu og í því skyni leitað skýringa og upplýsinga hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytunum varðandi óskir um auknar fjárheimildir. Auk þess hefur nefndin átt samskipti við fjölmarga aðra aðila við umfjöllun um málið.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir breytingartillögur við sundurliðun 1, tekjur A-hluta, en endurskoðuð tekjuáætlun gerir ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 1.056,3 millj. kr. frá áætlun í frumvarpi til fjáraukalaga. Þá gerir meiri hlutinn alls 38 breytingartillögur við frumvarpið sem nema samtals 2.967,6 millj. kr. til aukinna útgjalda. Loks eru lagðar til breytingar á 3. gr. frumvarpsins sem lúta að lánsfjárheimildum Íbúðalánasjóðs. Gerð er grein fyrir einstökum tillögum meiri hluta fjárlaganefndar á sérstöku þingskjali og eru skýrðar nánar í nefndaráliti meiri hlutans en undir það skrifa hv. þm. Magnús Stefánsson, Einar Oddur Kristjánsson, Drífa Hjartardóttir, Birkir Jón Jónsson, Birgir Ármannsson og Hilmar Gunnlaugsson.

Ég mun nú gera grein fyrir helstu breytingartillögum meiri hlutans en vísa að öðru leyti í þingskjöl sem innihalda nefndarálit meiri hlutans og breytingartillögur.

Eftir endurskoðun tekjuáætlunar eru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 1.056,3 millj. kr. hærri en gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga, eins og ég áður sagði. Helstu breytingarnar eru 400 millj. kr. meiri tekjur af tekjuskatti lögaðila, 300 millj. kr. hærri tekjur af eignarsköttum og rúmlega 380 millj. kr. meiri tekjur af skatti á vöru og þjónustu.

Hvað varðar gjaldahlið frumvarpsins mun ég hér gera grein fyrir helstu tillögum, stikla nokkuð á stóru í þeim efnum en vísa að öðru leyti til þingskjala er innihalda greinargerðir um málið.

Lagt er til að fjárheimildir Alþingis og Ríkisendurskoðunar hækki um alls 48,7 millj.

Lagt er til að fjárheimildir menntamálaráðuneytisins hækki alls um 270,7 millj. þar sem mest munar um 200 millj. kr. fjárheimild til að mæta nemendafjölgun framhaldsskóla umfram forsendur fjárlaga og kemur það til viðbótar 250 millj. kr. fjárheimild í frumvarpi til fjáraukalaga. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að rekstur framhaldsskólanna verði í jafnvægi á þessu ári.

Varðandi utanríkisráðuneytið eru lagðar til auknar fjárheimildir að fjárhæð 77 millj. til öryggismála á Keflavíkurflugvelli til samræmis við auknar sértekjur.

Hvað varðar landbúnaðarráðuneytið er lagt til að fjárheimild hækki alls um 17 millj. og munar þar mest um 15 millj. kr. vegna aðkallandi fyrirhleðslna við Kotá í Öræfum.

Lagt er til að fjárheimildir sjávarútvegsráðuneytisins verði auknar um 15,1 millj. til að fjármagna tap vegna vísindaveiða á hrefnu.

Lagt er til að fjárheimildir dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hækki um 26,8 millj., m.a. til að mæta endurskoðun viðbragðsáætlana vegna Kötlu og til að fjármagna endurnýjaðan samning við þyrlulækna Landhelgisgæslunnar.

Varðandi félagsmálaráðuneytið er lagt til að fjárheimildir hækki um alls 1.529 millj. Munar þar mest um fjárheimild til að mæta áætlaðri viðbótarþörf vegna fæðingarorlofs að fjárhæð 915 millj.

Lagt er til sérstakt aukaframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að fjárhæð 400 millj. ásamt því að endurmat á lögbundnu framlagi til jöfnunarsjóðsins kallar á 87 millj. kr. aukna fjárheimild.

Þá er lagt til að framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs hækki um alls 250 millj., m.a. vegna meira atvinnuleysis en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins.

Loks er lagt til að framlag til Ábyrgðarsjóðs launa lækki um 150 millj. kr. vegna minni fjárþarfar sjóðsins en gert var ráð fyrir.

Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hækki um alls 40,1 millj. og er þar helst um að ræða fjárheimild til að fjármagna rekstrarhalla sjálfseignarstofnana, framlag vegna tilfallandi kostnaðar aðalskrifstofu ráðuneytisins og leiðréttingar vegna þjónustusamnings við Reykjalund.

Þá er gerð tillaga um að niður falli tekjur og gjöld vegna nefndar um gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði.

Gerð er tillaga um að fjárheimild fjármálaráðuneytisins verði aukin um 734,6 millj. Vegna endurmats á áætluðum afskriftum skattkrafna er lögð til fjárheimild að upphæð 1 milljarður kr.

Þá er lagt til að fjárheimild vegna launa og verðlagsmála verði lækkuð um alls 265,4 millj. og kemur það til vegna endurmats á gengisforsendum fjárlagaársins.

Hvað varðar samgönguráðuneytið er lagt til að fjárheimildin hækki um 126,2 millj. Munar þar mest um áætluð aukin rekstrarútgjöld vegna flugmála en þar á móti munu koma auknar tekjur af mörkuðum tekjum.

Þá er lagt til að fjárheimild Siglingastofnunar aukist um 10 millj. vegna kostnaðar í kjölfar þess að skipaskoðun færðist frá stofnuninni til faggiltra skoðunarstofa.

Varðandi iðnaðarráðuneytið er lögð til sérstök fjárheimild á vegum Byggðastofnunar að fjárhæð 50 millj. vegna uppbyggingar kalkþörungaverksmiðju í Bíldudal í Vesturbyggð.

Vegna umhverfisráðuneytis eru lagðar til auknar fjárheimildir að fjárhæð 36,1 millj. Þar er helst um að ræða 16,5 millj. vegna Náttúrufræðistofnunar Íslands og 9,8 millj. vegna uppgjörs á endurgreiðslum til sveitarfélaga vegna refa- og minkaveiða.

Þá er tillaga um 5 millj. kr. fjárheimild til Veðurstofu Íslands vegna mannaðra veðurathugunarstöðva.

Gerðar eru tvær tillögur er varða 3. gr. frumvarpsins um breytingar á lánsfjárheimildum Íbúðalánasjóðs samkvæmt endurskoðaðri áætlun sjóðsins. Annars vegar er gert ráð fyrir að heimild til lántöku húsbréfadeildar lækki um 1,5 milljarða frá því sem áður var gert ráð fyrir og hins vegar að heimild til fjármögnunar viðbótarlána aukist um 2,9 milljarða.

Hæstv. forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir helstu breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar en eins og ég hef áður sagt vísa ég í þingskjöl sem fyrir liggja, m.a. nefndarálit meiri hluta nefndarinnar þar sem gerð er mun ítarlegri grein fyrir þeim tillögum sem hér liggja fyrir varðandi fjáraukalög ársins 2004.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.