131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[11:59]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. Magnús Stefánsson segir að það er verið að auka framlög til friðargæslumála í fjáraukalögum sem á úthluta öllu í verkefni sem m.a. er verið að vinna á vegum Íslendinga í Afganistan. Það hefur komið fram í umræðum á þinginu fyrr um þetta mál að þar eru Íslendingar á kostnað íslenska ríkisins undir yfirstjórn NATO, hafa þar stöðu hermanna og klæðast herbúningum, eru vopnaðir og bera tignarheiti sem tíðkast innan hers en ekki borgarasamfélags. Ég held að öllum sé ljóst að þarna er því miður verið að hervæða íslenska ríkisborgara undir því yfirskini að þeir séu að friðargæslustörfum.