131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[12:02]

Pétur Bjarnason (Fl):

Herra forseti. Ég hef setið sem áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefndinni nú um tveggja vikna skeið. Ég hef ekki komið að fjárlagagerðinni í heild heldur aðeins skiptingu einstakra liða, en slíkt gefur hvorki yfirsýn yfir fjárlagagerð né heildarmynd fjárlagadæmisins. Þar við bætist að ég hef haft knappan tíma til að fara fyrir fjáraukalagafrumvarpið sem hér liggur fyrir með samanburði við fjárlög fyrir 2004 og efna þannig í langa umræðu um þessi fjáraukalög.

Afstaða Frjálslynda flokksins hefur komið fram í umræðu um fjárlögin 2004 og við störf í fjárlaganefndinni. Þó ætla ég að koma að örfáum atriðum sem blasa við við fyrstu sýn.

Útgjöld hafa aukist um rúma 6,3 milljarða samkvæmt frumvarpinu frá þeim ramma sem settur var við útgáfu fjárlaga fyrir árið 2004. Því til viðbótar koma svo tillögur upp á 2,9 milljarða samkvæmt breytingartillögum ríkisstjórnar og meiri hluta fjárlaganefndar. Spurningar vakna hvort slíkur útgjaldaauki sé eðlilegur eins og hér kemur fram, þ.e. alls um rúmlega 9 milljarðar kr. frá því frumvarpi til fjárlaga sem upphaflega var lagt fram, eða hvort hluti þeirra hefði átt að koma fram í fjárlögunum sjálfum fyrir árið 2004 í upphafi eins og e.t.v. hefði verið eðlilega.

Fyrst hvarflar hugur minn til framhaldsskólanna þar sem legið virðist hafa fyrir við gerð fjárlaganna að þar væri vanáætlað strax í upphafi en skellt var skollaeyrum við því þrátt fyrir ábendingar í umræðum og ýmis gögn sem sýndu fram á þessa þörf. Þetta leiddi til erfiðrar umræðu við upphaf skólaárs nú í haust þar sem fjölmargir framhaldsskólar þurftu að standa í baráttu til þess að geta hafið störf við eðlilegar aðstæður vegna þeirra takmarkana sem fjárlögin settu þeim, en eru síðan afnumdar eins og fram kemur í þessu frumvarpi eftir langa baráttu um hluti sem voru þrátt fyrir allt í eðlilegum farvegi. Svona vinnubrögð eru gagnrýni verð og sóun bæði á mannafla og dýrmætum kröftum.

Svipaða sögu er að segja af fjárveitingu til héraðsdómstóla þar sem ljóst var að vinnsla mála þar yrði ekki með eðlilegum hætti miðað við fjármagn sem þeim var ætlað í fjárlögum fyrir 2004 og erindi hafði borist með rökum sem studdi það að ekki yrði hægt að vinna mál eins og þörf væri á með svo knöppum fjárveitingum.

Þá er komið að þætti sveitarfélaganna sem hafa verið rekin með halla allt frá árinu 1990 og reiknað er með halla þeirra upp á 2,8 milljarða kr. í ár. Telja má að aðgerðir ríkisins með skattalagabreytingum hafi valdið verulegum halla á rekstri sveitarfélaganna. Fjölgun einkahlutafélaga varð til þess að stórlega dró úr útsvarstekjum sveitarfélaga og talið er að þar hafi getað munað allt að 1 milljarði kr. Þegar sveitarfélögin tóku við grunnskólanum árið 1996 var búið að liggja lengi yfir kostnaði við yfirfærsluna. Farið var yfir fyrirliggjandi upplýsingar, t.d. hvað það mundi kosta að einsetja skólana sem þá lá fyrir að mundi verða gert, og farið yfir byggingarþörf sveitarfélaganna vegna þeirra breytinga sem þá voru fyrirséðar og tímasettar. Það má vel vera að meðaltalskostnaður hafi ekki farið langt frá þeim áætlunum sem gerðar voru. Ég þekki það ekki nægilega vel. Hins vegar veit ég að þessi kostnaður kom afskaplega misjafnlega við sveitarfélög, m.a. með tillit til þess hvernig þau voru undir þetta búin fyrir. Sum höfðu þegar byggt nægilegt húsnæði til þess að geta tekið upp einsetningu. Önnur bjuggu við það að nemendafækkun gerði það að verkum að ekki var þörf á að byggja. Síðan varð að taka tillit til þess hvaða þróun varð í nemendafjölda, sem e.t.v. var ekki alltaf fyrirséð, og í búsetu fólks.

Mörg sveitarfélög þurftu að leggja mikið í sölurnar til þess að uppfylla þessar kröfur. Við yfirfærsluna var sýnt að miklar breytingar yrðu á vinnuumhverfi í skólunum og mannaflaþörf þar. Það hefur allt gengið eftir og víða í mun ríkara mæli en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi.

Þá er rétt að taka það fram að sveitarfélög hafa almennt haft mikinn metnað til þess að búa skólastarfinu góða umgjörð og hafa kostað miklu til og stundum verið farið fram reyndar af meira kappi en forsjá. Einkum varð þessa vart á fyrstu árum eftir yfirfærslu grunnskólans. Sú hugmynd hafði komið fram um 1995 að ríkið ræki fræðsluskrifstofur sínar sem voru átta talsins, ein í hverju þáverandi kjördæma, áfram um tveggja ára skeið sem ráðgjafarstofur fyrir sveitarfélögin en kostaðar af ríkinu. Hugmyndin varð sú að þetta fyrirkomulag gæti mildað yfirfærsluna, auðveldað hana og auðveldað sveitarfélögunum að taka við þessu hlutverki sínu. Þessi hugmynd var rædd á nokkrum fundum en henni síðan hafnað einkum vegna þess að sveitarfélögin töldu ekki að ríkið ætti að vera með puttana í rekstri skólanna eftir að þau höfðu tekið við honum. Ég held eftir á að hyggja að þarna hafi farið forgörðum að hluta til reynsla sem byggð hafði verið upp á um 20 árum, þ.e. á grundvelli laga sem sett voru 1974 um málefni grunnskóla, og að þetta hefði getað forðað mörgum sveitarfélögum frá vandræðum sem vissulega varð vart við hjá ýmsum þeirra í skólastarfinu fyrstu árin þó að þessu hafi að hluta til verið kippt í lag síðan og sem betur fer víðast hvar. Mörg sveitarfélaganna þurftu síðan að fara í gegnum endurskipulagningu þessara starfa með tilheyrandi kostnaði. Hvað sem þessum vangaveltum líður þá blasir það við að fara þarf yfir tekjustofna sveitarfélaga og hlutverkaskipti ríkisvaldsins.

Almennt er sú skoðun ríkjandi að efla beri sveitarstjórnarstigið. Með stöðugt vaxandi þætti þeirra í þjónustu við borgarana hafa sjónir manna beinst að sameiningarmálum sveitarfélaga. Ég held að margt styðji þá þróun en hollt væri mönnum að líta til baka og skoða fyrstu hrinu sameiningar þeirra þar sem fjölmargar skyssur voru gerðar og æðimörg loforð um þjónustu og aðgerðir, sem síðan reyndist ekki unnt að framkvæma eða af öðrum ástæðum, var ekki staðið við. Um það mætti nefna mörg dæmi. Þvingunaraðgerðir duga ekki í þessum efnum en aðstæður hafa hins vegar breyst á tiltölulega fáum árum og forsendur sameiningar sveitarfélaga sömuleiðis mjög víða.

Virðulegi forseti. Þó að það sé e.t.v. á jaðri ramma þessara fjáraukalaga núna þá langar mig til þess að vekja athygli á því að þrátt fyrir áætlanir um stefnu í byggðamálum, þrátt fyrir ótal átaksverkefni þar sem reynt er að hafa hönd á einhverjum nýjum bjargráðum fyrir byggðirnar í landinu þá hallar stöðugt undan fæti hjá þeim, a.m.k. velflestum. Í stórum hluta þess kjördæmis sem ég er talsmaður fyrir hefur ástandið stöðugt farið versnandi. Þrátt fyrir áætlanir og atvinnuþróunarfélög dregur úr atvinnumöguleikum og tekjum á þessu svæði. Unga fólkið skilar sér ekki aftur heim. Fólki fækkar stöðugt og fækkunin er viðvarandi. Nú er víða svo komið að fámennið veldur því að öll þjónusta er á undanhaldi eða aflögð og er sama hvort þar er rætt um verslun, heilbrigðisþjónustu eða annað.

Nýlega var á hinu háa Alþingi rætt um vanda Árneshrepps og ríkisstjórnin krafin sagna um framkvæmd þingsályktunartillögu um stuðning við búsetu þar. Við umræður sem fóru fram fyrir tveimur árum um þetta mál var lagt fram bréf frá hreppsnefnd Árneshrepps þar sem hún leitaðist við að svara því hvað hún teldi vænlegast að gera til eflingar búsetu í hreppnum.

Virðulegi forseti. Hún óskaði ekki eftir atvinnuráðgjafa, saumastofu eða fjarvinnsluverkefnum. Svar hreppsnefndarinnar var einfalt. Til þess að styrkja búsetu hér þurfum við að fá að halda því áfram sem við höfum alltaf sinnt, að fá að hafa svolítið fleiri kindur en hér eru og svolítið að sækja sjóinn til að draga björg í bú og efla búsetuna. Ef þetta fengist þá töldu hreppsnefndarmenn ástandið vænlegt. Um þetta snýst lífið í sjávar- og sveitabyggðunum ef þetta er dregið saman, að vísu með mjög einfölduðum hætti. Fólkið sem býr þarna þarf að geta nýtt sér lífs- og landgæðin.

Ég ætla ekki að setja á lengri tölu um þetta hérna en e.t.v. ættu fjáraukalög með svo háar upphæðir að snúast að einhverju leyti um þessi gildi ekki síður en hin.