131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:33]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (frh.):

Frú forseti. Þar var komið sögu að ég ætlaði að víkja að fjármálum sveitarfélaganna og þeirri afgreiðslu sem mál þeirra fá í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Það gleður mig jafnframt alveg sérstaklega að hér er kominn til umræðunnar hv. varaformaður fjárlaganefndar, 9. þm. Norðvest., Einar Oddur Kristjánsson. Hann tjáði sig nokkuð um þessi efni, eða skyld efni, í fjölmiðlum svo að ég heyrði í gærkvöldi og aftur var eftir honum haft í útvarpi í morgun. Það tengdist þeim kjarasamningum sem sveitarfélög hafa núna gert drög að við grunnskólakennara, og hafa náttúrlega mjög verið til umræðu öll þau mál eins og kunnugt er.

Fjárhagsvandi eða erfiðleikar sveitarfélaganna margra upp til hópa eru vel kunnir og ætti ekki að þurfa að fjölyrða um þá hér. Þær staðreyndir tala einfaldlega sínu máli hvað sem hver segir og hvað sem mönnum um þær finnst, sveitarfélögin í landinu hafa verið rekin með halla, samfellt í um 15 ár, kannski að einu ári frátöldu eða svo þegar þau náðu nokkurn veginn að loka reikningum sínum á núlli.

Nú stefnir í talsverð útgjöld hjá sveitarfélögunum vegna kjarasamninga við starfsmenn þeirra. Fjölmennasti hópurinn, grunnskólakennarar, hefur verið að reyna að sækja sér kjarabætur þó að enginn nema reynslan geti svarað því hvort úr því verða umtalsverðar kjarabætur. Því ráða verðlagsforsendur og annað á komandi árum ef svo heldur sem horfir. Það er a.m.k. ljóst að sveitarfélögin, burt séð frá þessu, þurfa m.a. að getað borgað starfsmönnum sínum kaup þannig að sveitarfélögin geti ráðið hæft fólk til hinna mikilvægu starfa sem þar eiga í hlut.

Það er einfaldlega veruleiki sem sveitarfélögin sem vinnuveitendur verða að horfast í augu við rétt eins og ríkisvaldið hefur orðið að horfast í augu við það á undanförnum árum og hefur þurft að gera átak í að bæta kjör ýmissa hópa sem hjá því hafa starfað, t.d. heilbrigðisstétta, af þeirri ósköp einföldu ástæðu að þessari starfsemi verður ekkert haldið úti, þjónustan ekki veitt og allra síst með mannsæmandi hætti og þannig að sómi sé að nema að menn geti greitt laun og búið þannig að þessu starfsfólki að það sé ánægt í störfum sínum.

Staða sveitarfélaganna til þess að gera þetta er hins vegar erfið. Laun eru mjög hár hluti heildarrekstrarkostnaðar sveitarfélaganna, ég veit ekki hvort það eru kannski ein 70% eða upp undir það. Þar af leiðandi er fátt til ráða í þeim efnum annað en einfaldlega að hafa tekjur til að mæta þeim útgjöldum sem launaliðnum nemur.

Ég heyrði hv. þm. Einar Odd Kristjánsson óskapast yfir því að þarna væru á ferðinni svo miklar kauphækkanir eða mikil útgjaldaaukning hjá sveitarfélögunum að þau mundu þurfa að skera niður á móti þessu. Er það ekki í grófum dráttum rétt eftir haft? Hv. þm. getur þá leiðrétt mig hér á eftir. Það var ekki á hv. þingmanni að heyra að honum litist vel á að aðrir hópar sem starfa hjá sveitarfélögunum fengju svipaða úrlausn mála sinna á næstu mánuðum. Þvert á móti skildi ég hv. þingmann þannig að markmiðið væri að berja það allt saman sem mest niður.

Nú er staða sveitarfélaganna þannig fyrir að þau eru rekin með milljarðahalla, þau safna skuldum. Þau ráða ekki við verkefni sín eins og þau eru í dag. Þetta hefur blasað við undanfarin ár. Það er vissulega rétt sem alltaf er bent á í þessu sambandi að staða þeirra er misjöfn. Það eru til sveitarfélög sem fullnýta ekki tekjur sínar og ráða sjálfsagt ágætlega við u.þ.b. umfang þeirrar þjónustu og þeirrar starfsemi sem þau hafa með höndum, en þeim fer fækkandi.

Þegar svo er komið að upp undir helmingur sveitarfélaganna í landinu er tekinn til sérstakrar skoðunar árlega af eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna og þriðjungi þeirra er skrifað og þau krafin sérstakra skýringa á því hvernig þau ætli að leysa mál sín ætti það að duga til þess að menn horfist í augu við vandann, viðurkenni að hann sé til. Það er ekki nóg að skjóta bara sendiboðann og halda að þar með sé málið leyst.

Mér finnst menn stundum nálgast þessi mál þannig, eins og það sé bara nóg að lemja niður þessa menn sem eru með eitthvert leiðindaröfl um að það sé vandi hjá sveitarfélögunum og þar með sé málið leyst. Sjálfstæðisflokkurinn talar þannig, að uppistöðu til. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er duglegur málsvari hans í þessum efnum.

Hvers vegna skyldi þetta vera? Er það af því að sjálfstæðismenn séu svo blindir á tölur, er það vegna þess að þeir séu svo dómgreindarlausir almennt? Að þeir átti sig ekki á þessum vanda einir manna í landinu? Ég held ekki. Í þeirra röðum eru menn ágætlega glöggir á tölur og vanir í sveitarstjórnarmálum. Ég held að þetta sé pólitík. Ég held að það sé bara alveg markviss pólitík hjá Sjálfstæðisflokknum að sverta sveitarfélögin, halda þeim í þannig kreppu að þau neyðist út í ráðstafanir sem Sjálfstæðisflokkurinn gjarnan vill láta þau fara í. Hvað er það? Jú, svo sem að einkavæða þjónustuna og leita leiða einkafjármögnunar í framkvæmdum, selja eignir, einkavæða þjónustustarfsemi sem á þeirra vegum hefur verið og færa hana yfir á herðar einkaaðila.

Það verður auðvitað að horfast í augu við það að Sjálfstæðisflokknum með meðreiðarsveinum sínum undanfarin ár, hvort sem það eru kratar eða framsóknarmenn, hefur gengið ágætlega í þessum efnum. Í þrengingum sínum hrekjast sveitarfélögin út í ýmsar ráðstafanir sem ég fullyrði að þau mundu í fæstum tilvikum vilja ella. Mjög oft eru menn að velja leiðir eða lausnir sem fleyta þeim kannski áfram til skamms tíma en þýða svo þegar frá líður að staðan verður verri en ella. Mjög margar af þessum einkafjármögnunarleiðum þýða það, það er vitað, það er borðleggjandi reikningsdæmi að kannski að 7–10 árum liðnum sé dæmið þegar orðið neikvætt fyrir sveitarfélögin. Þegar upp verður staðið, eftir kannski 25 ára samning sem ekki er óalgengt að gerður sé um svona hluti, er kostnaður sveitarfélaganna orðinn verulega meiri. Þetta sýna innlendar kannanir og þetta sýna t.d. ítarlegar rannsóknir annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta vita menn.

Af rausn sinni ætlar meiri hluti fjárlaganefndar að leggja til að til þeirra sveitarfélaga sem eru í alveg sérstökum vanda og þrengingum um þessar mundir verði hægt að ráðstafa 400 millj. kr. viðbótarfjárveitingu í gegnum jöfnunarsjóð. Forsvarsmenn sveitarfélaganna — t.d. formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddviti sjálfstæðismanna hér í Reykjavík hefur talað fyrir því, bæði opinberlega og víðar, að það sé alveg svartasta lágmark að í þetta komi 700 milljónir, jafnvel 1 milljarður kr., vegna vandans á yfirstandandi ári. Erum við þá ekkert byrjuð að ræða það sem fram undan er og tengist nýgerðum samningi við grunnskólakennara verði hann samþykktur. Hann var bara að tala um þann hengjandi vanda sem er hjá stórum hluta sveitarfélaganna hjá eftirlitsnefndinni á yfirstandandi ári.

Hv. þm. Jón Bjarnason leggur hér til að a.m.k. þessar 700 millj. verði þó settar í þetta sem hafa verið neðri mörkin á því sem forsvarsmenn sveitarfélaganna hafa talið lágmark. Ef eitthvað er má svo sem gagnrýna það að hafa þessa breytingartillögu ekki frekar rausnarlegri en hitt og hafa í henni hærri mörkin. Örugglega veitti ekki af eins og 1 milljarði þarna til að ganga til verst stöddu sveitarfélaganna, þótt ekki væri nema upp í þennan upp undir 3 milljarða halla sem fyrirsjáanlegur er á rekstri þeirra á þessu ári.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég er dálítið hissa á meiri hlutanum, og það er ekki í fyrsta skipti. Ég velti því t.d. fyrir mér með framsóknarmenn sem eiga félagsmálaráðherrann sem fór mikinn og ætlaði að gera stóra hluti í sambandi við sameiningu sveitarfélaga og færa þeim ný verkefni og hvaðeina, láta kjósa um þetta allt saman hér í apríl á næsta ári, svo situr náttúrlega allt rígfast í sambandi við tekjumálin — er þetta innlegg í það mál? Er þetta innlegg til að smyrja hjólin og koma á jákvæðum samskiptum við sveitarfélögin, þessi afgreiðsla á fjárhagsvanda þeirra hér í þessu fjáraukalagafrumvarpi?

Nei, ég held að það hefði verið frekar í áttina ef menn hefðu tekið mjög myndarlega á óskum sveitarfélaganna um stuðning vegna erfiðleikanna á yfirstandandi ári og gert það dæmi að verulegu leyti upp. Þá á ég ekki bara við jöfnunarsjóðinn þótt hann sé auðvitað stærstur í þessu.

Ég vek t.d. athygli á öðru hér í breytingartillögu meiri hlutans, sem er stórathyglisvert, rausnarskapnum í sambandi við liðinn Eyðing refa og minka. Hér er lögð til breyting á fjárveitingum til umhverfisráðuneytisins, það á að setja heilar 9,8 millj. kr., það er nú ekkert annað, í fjárveitingu til að endurgreiða sveitarfélögunum kostnað við refa- og minkaveiðar. Er það uppgjör vegna ársins 2002. Það er vegna þess að þá var endurgreiðsluhlutfallið fast, það skyldi vera 50%. Það á sem sagt að horfast í augu við að það á ekki að svíkja sveitarfélögin um þetta sem út af stendur vegna ársins 2002. Enn kemur ekki króna í þetta vegna 2003 eða yfirstandandi árs. Nú liggur það alveg fyrir að fjárveitingarnar í fjárlögum hafa engan veginn dugað til þess að halda óbreyttu kostnaðarhlutfalli ríkisins í þessum lið. Hann vegur svo sem ekkert óskaplega þungt á landsvísu, en þetta er tilfinnanlegur útgjaldaliður hjá mörgum af fámennustu og fátækustu sveitahreppum landsins. Þá er þetta tillaga hv. meiri hluta fjárlaganefndar.

Þetta er náttúrlega stórkostlega jákvætt innlegg í samskipti ríkis og sveitarfélaga, er það ekki? Boðar þetta ekki gott upp á framhaldið? Það er von að spurt sé. Eru þeir ekki kampakátir, landsbyggðarþingmennirnir og fóstbræðurnir, formaður og varaformaður fjárlaganefndar, að geta lagt þetta til? Eru þeir ekki montnir af þessum 9,8 millj. sem þeir ætla af rausnarskap sínum að setja í að klára uppgjörið vegna ársins 2002? Jú, ég ætla að þeir séu stoltir af þessu.

Þannig er það auðvitað að það hallar á sveitarfélögin í hverjum samskiptaþættinum á fætur öðrum af þessu tagi. Við þekkjum söguna um húsaleigubæturnar þar sem hið sama er upp á teningnum, ríkið býr þannig um þessi samskiptaform að það eru alltaf sveitarfélögin sem skulu taka það á sig sem út af stendur. Ef útgjöldin aukast, ef verkefnin vaxa skal það vera hausverkur sveitarfélaganna, hvort sem þau hafa tekjur til þess að mæta þeim eða ekki. Þær hafa þau auðvitað ekki.

Ef það hefði nú verið komið til móts við þau klögumál sveitarfélaganna, yfirstandandi og frá undanförnum árum, sem þau telja hvað tilfinnanlegust vegna þessara samskipta hefði það þó verið litur til viðbótar þessari hungurlús sem á að fara inn í jöfnunarsjóðinn. Það er ekkert slíkt að finna. Ég sé ekki stafkrók hér um húsaleigubætur. Það á ekki að setja eina krónu í þær. Það er ekki á nokkurn hátt komið til móts við sveitarfélögin vegna t.d. tekjutaps sem skattbreytingar ríkisstjórnarinnar, algjörlega utan valdsviðs sveitarstjórna, hafa bakað þeim, metið upp á milljarð til 1.200 millj. á ári sem sveitarfélögin verða af tekjum vegna skattbreytinga á undanförnum árum. Þá er afgreiðslan sem sagt sú að setja heilar 400 millj. kr. í jöfnunarsjóð.

Hvað segja þeir um þetta, hv. þingmenn, formaður og varaformaður fjárlaganefndar? Hver eru rök þeirra í málinu? Eru þeir tilbúnir til að fara aðeins yfir þetta fyrir okkur? Er hægt að fara fram á það hérna að þeir fari aðeins yfir þessi samskipti ríkisins og sveitarfélaganna og hvernig þeir telja að þetta sé allt saman að þróast? Vill hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fara aðeins betur yfir þetta? Hverjar eru hugmyndir hans þá um niðurskurð hjá sveitarfélögunum á móti þessum útgjöldum? (EOK: Ég er á mælendaskrá) Hv. þm. veit væntanlega að þetta ... já, ég er að reyna að undirbúa ræðuna með hv. þingmanni, fara yfir það með honum hvað hann þarf helst að koma inn á. (Gripið fram í.) Nei, því ræður hv. þm., en ég vil gjarnan hafa áhrif á það hvað hann fjallar um. Mér leikur mikill hugur á að heyra rök hv. þingmanns fyrir því (EOK: Þakka þér fyrir.) að traktera sveitarfélögin með þessum hætti og niðurskurðarhnífinn sem hann vill láta blika við loft þegar kemur að þeim og verkefnum þeirra.

Ég hef ekki orðið var við auðugan garð að gresja hjá sveitarfélögunum í landinu hvað varðar liði þar sem þau gætu sparað verulega fjármuni. Hvar á að taka þá þegar langstærsti einstaki útgjaldaliður þeirra er launakostnaður? Er starfsfólk sveitarfélaganna svona ofhaldið að hægt sé að taka af því? Eru fjárfestingar hjá sveitarfélögunum svo miklar um þessar mundir að þau séu almennt í færum til að draga verulega úr þeim? Nei, öðru nær. Þau skipta tugum, sveitarfélögin sem geta ekki ráðist í neinar nýfjárfestingar og eru ekki að því núna ár eftir ár, verða að fresta brýnustu gatnagerðarframkvæmdum og geta ekki einu sinni haldið við eignum sínum. Þetta er svona. Ég veit að hv. þm. hlýtur að vita þetta. Afkoma sveitarfélaganna í kjördæmi hans, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, er örugglega misjöfn og mjög víða slök. Að breyttu breytanda er hið dæmigerða sveitarfélag sem á í mestum erfiðleikum miðlungsstórt þéttbýlissveitarfélag á landsbyggðinni. Ég hygg að ekki sé um það deilt að þau, mörg hver, eigi í almestum erfiðleikum. Á þau standa miklar þjónustukröfur. Þau hafa mátt horfast í augu við tekjutap, mörg hver, og eru í afar miklum erfiðleikum með að ná rekstri sínum saman.

Ég held að það sé full ástæða til þess, frú forseti, að við fáum aðeins að heyra frá stjórnarliðum hvernig þeir horfa á þetta, hvað ræður þeirri niðurstöðu sem hér er lögð til af hálfu meiri hlutans hvað varðar samskiptin við sveitarfélögin. Við skulum fá þá umræðu núna, a.m.k. áður en þing fer heim í jólaleyfi, því mér býður svo í grun að margir sveitarstjórnarmenn og íbúar sveitarfélaganna, landsmenn, hafi fullan hug á því að heyra hvað í vændum er í þessum efnum. Eigi menn að taka það trúanlegt á annað borð og taka eitthvert minnsta mark á því að alvara sé að baki áformum ríkisstjórnarinnar um sameiningarkosninguna í aprílmánuði nk. og eigi að verða einhver niðurstaða í þeim efnum sem eitthvað komi út úr verða að fást skýr svör.

Það væri líka fróðlegt að vita hvort einhverjar fréttir eru af þessu endurskoðunarstarfi hvað varðar tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Menn hafa metið það svo að það væru allra síðustu forvöð að þeir hlutir litu dagsins ljós í þessum mánuði, það væri tilgangslaust að halda þessu áfram nema þar sæi til lands og menn vissu að hverju þeir gengju í þeim efnum. Ég sé ekki að afgreiðslan á málefnum sveitarfélaganna í þessu fjáraukalagafrumvarpi bendi til þess að þar sé einhver breyting í vændum, nema síður sé. Það er ekki annað að sjá en að Sjálfstæðisflokkurinn sé heldur að forherðast í þeirri stefnu sinni að halda sveitarfélögunum áfram í algerri þvingu, algerri afkomukreppu og hrekja þau þá væntanlega lengra áfram út á þann ís að verða að selja eignir sínar og lifa frá ári til árs með einhverjum slíkum aðferðum.

Það var þetta, frú forseti, sem ég vildi sérstaklega gera hér að umtalsefni. Mér þykir vænt um að formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa heiðrað okkur hér með viðveru sinni þannig að við fáum kannski að heyra eitthvað frá þeim um þessi efni.