131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:53]

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Manni hlýnar alltaf um hjartaræturnar þegar maður fréttir af því að manns sé saknað. En þannig var í hádegishléinu, milli tólf og eitt, að ég fór að beiðni formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins yfir í hús hér rétt hjá sem heitir Iðnó þar sem SÍBS stóð fyrir umræðu um verðmyndun á lyfjum. (SJS: Gott, skínandi gott.) Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon má vera alveg viss um að ég hafi verið við skyldustörf og hvergi nokkurs staðar að svíkjast um frá vinnu minni. Það er sjálfsagt að verða við þeirri beiðni hans að ræða stöðu sveitarfélaga, sérstaklega í ljósi þess sem gerðist í gær og á ábyggilega eftir að hafa veruleg áhrif á gang mála á Íslandi næstu vikur, mánuði og missiri.

Að mínum dómi liggur alveg fyrir að það hefur verið höfuðgæfa þessa lands í einn og hálfan áratug að Alþýðusamband Íslands og Starfsgreinasamband Íslands hafa haft um það forustu að stjórna hér launaþróun og tekið í launasamningum sínum fullkomlega tillit til samkeppnishæfni Íslands og hvernig við getum fótað okkur, hvernig við getum staðið okkur, vegna þess að tilvera okkar í þessu litla landi byggist á því að geta framleitt vörur og selt til að kaupa aðrar vörur. Um árabil, áratugabil, trúðu því mjög margir að það væri náttúrulögmál að á Íslandi væri stöðug óstjórn efnahagsmála, hér á landi væri alltaf allt logandi í verðbólgu, hér stæðum við föst meðan aðrar þjóðir sæktu fram á farsælan hátt. Í mínum huga er enginn vafi að það er einmitt hin ábyrga stefna launþegasamtakanna sem hefur gert okkur kleift að hafa hér eitt mesta framfaratímabil í sögu þessa lands. Við höfum notið þess að hér var stöðugleiki í efnahagsmálum, hér ríkti það umhverfi að íslensk fyrirtæki hafa getað þróast, tekist á við þau verkefni sem bíða þeirra í framtíðinni, tekist á við önnur fyrirtæki alls staðar í heiminum og keppt með glæsilegum árangri. Hér hefur orðið algjör viðsnúningur á síðustu 15 árum samfara því að stjórnmálaöflin í landinu hafa borið gæfu til þess að umsnúa því, taka þetta þjóðfélag frá þeirri stefnu sem áður var þegar öllu var hér handstýrt. Hér var handstýrt þjóðfélag en nú er það orðið þjóðfélag þar sem markaðurinn ræður, þar sem markaðurinn sér um það að verðmyndunin sé frjáls þannig að jafnvægi ríki. Það var náttúrulögmál hér áður fyrr að á nokkurra missira fresti, á nokkurra mánaða fresti, fór þjóðfélagið með efnahagsstjórninni út í móa. Það þótti bara ekki tiltökumál og margir trúðu því að svona yrði þetta að vera.

Frá þessu hefur nú verið horfið, eins og ég hef sagt áður, virðulegi forseti. Síðustu samningar Alþýðusambands Íslands og Starfsgreinasambandsins gerðu ráð fyrir því, alveg eins og fyrri samningar, að því aðeins gætu menn krafist þess af launþegum þessa lands, þeim sem vinna í framleiðslunni, vinna í þjónustunni og í versluninni, að þeir tækju ábyrga stefnu í launamálum ef opinberir starfsmenn, starfsmenn ríkisins, gerðu slíkt hið sama. Það er grundvallaratriði. Engum leyfist undan að líta. Að sjálfsögðu verður sú krafa gerð og hefur alltaf verið gerð að starfsmenn hins opinbera gætu ekki annað en tekið sömu stefnu.

Það þýðir ekkert fyrir forustumenn einstakra hópa, faghópa, sérmenntaðra hópa, sem vinna hjá hinu opinbera, að segja við alþjóð: Nei, við erum eyland. Hvað kemur okkur við efnahagslíf? Nei, efnahagslíf kemur okkur ekkert við. Við ætlum að semja á okkar eigin forsendum. Hvaða forsendur eru það, virðulegi forseti? Jú, við ætlum að semja þannig að allt okkar fólk, eins og þeir segja, sé ánægt. Já, þannig skal samið.

Því spyr ég, virðulegi forseti, og krefst þess að allir þeir sem hafa manndóm til svari því þá opinberlega: Hverjir eru það meðal íslenskra launþega sem ekki eiga þá að hækka eins? Eru það íslenskir verkamenn? Eru það íslenskir iðnaðarmenn? Eru það íslenskir verslunarmenn? (Gripið fram í: Þingmenn.) Eru það öryrkjar sem taka laun samkvæmt launaþróuninni eða ellilífeyrisþegar? Hverjir eru þetta, virðulegi forseti?

Menn geta ekki komið opinberlega fram, stjórnmálamenn og forustumenn stjórnmálaflokka. Þeir geta ekki borið blak af þeim skelfilegu mistökum sem íslensk sveitarfélög stóðu fyrir í gær öðruvísi en að svara þessu.

Það var hörmulegt að íslensk sveitarfélög skyldu rata í þessa ógæfu. Það lá fyrir, eins og ég hef áður sagt, virðulegi forseti, að því aðeins gætum við krafist þess að fólkið sem stendur að framleiðslunni í þjóðfélaginu tæki ábyrga afstöðu til launamála ef starfsmenn ríkisins gerðu það líka. Svo bera menn blak af þessum skelfilegu mistökum.

Það skiptir ekki meginmáli hvort þeir samningar sem undirritaðir voru í gær eru 5, 6, 7, 8 eða 9% hærri en samningar Alþýðusambands Íslands. Þeir eru stílbrot sem auðveldlega gætu fært þetta þjóðfélag á bólakaf, gætu eyðilagt á einni nóttu þann kaupmáttarauka sem tekist hefur að búa hér til í einn og hálfan áratug, gert launafólk á Íslandi fátækt og komið því í öngþveiti.

Það leikur enginn vafi á því, virðulegi forseti, að engir launahópar hins opinbera, BSRB og BHMR, sem eru með lausa samninga — BSRB er með alla samninga, ég held að ég fari með það rétt, lausa núna 1. desember — hafa enn þá sett fram kröfur. Hvorki hefur heyrst hósti né stuna. Það hefði mátt heyra saumnál detta. Þeir hafa algjörlega þagað meðan verkfall og verkdeilur grunnskólakennara hafa staðið.

Ég fullyrði að um leið og gengið hefur verið frá kjarasamningum grunnskólakennara mun hver einasti starfshópur ríkisins reisa kröfur sínar og þeir munu allir reisa þær kröfur á þeim samningi sem var gerður við grunnskólakennara. Hver einn og einasti.

Svo koma menn, svo koma virðulegir þingmenn og bera blak af þessum skelfilegu mistökum.

Launasumman í þessu landi er einhvers staðar í kringum 500–550 milljarðar. Reikni svo hver sem vill. 30%. 40%. Einu sinni þegar vitleysan var í algleymingi í þessu þjóðfélagi, fyrir nokkrum áratugum, var sögð sú saga af þeim ágæta hagfræðingi, Benjamín J. Eiríkssyni heitnum, að þegar honum barst til eyrna að samið hefði verið um 37% kauphækkun sagði hann: Af hverju ekki 73%? Ef vitleysan er algjör skiptir svo sem ekki máli hver talan er. (Gripið fram í.) Hækka laun um 150 milljarða? 200 milljarða?

Ég minnist kvæðis sem mig minnir að sé eftir Þórarin Eldjárn. Þar eru þessi vísuorð, virðulegi forseti:

Mamma, einn dans enn

og hann kemur senn

og nýjustu dansarnir duna

í diskótekinu í Hruna.

Ætli það verði ekki eitthvað svoleiðis. Hvað halda menn að láti undan? Veikasti hlekkurinn lætur alltaf undan. Hann slitnar. (Gripið fram í.) Auðvitað er veikasti hlekkurinn gengi íslensku krónunnar, auðvitað er það langveikasti hlekkurinn sem allt byggist á. (SJS: Er það grunnskólakennurunum að kenna?) (Gripið fram í.) Auðvitað er það veikasti hlekkurinn. Svo skulum við sjá eftir 30, 40, 50, 60, 70, 80% verðbólgu, tölu sem menn þekktu hér áður. Það verður glæsileg kaupmáttaraukning þegar búið verður að setja hvert heimili í landinu í ösku. Og þetta voga menn sér að verja. (KolH: En .....?)

Ríkisstjórn Íslands, virðulegi forseti, á engra annarra kosta völ í þessu en að reyna að taka upp varnir. (Gripið fram í: ... skatta.) Taka upp varnir. (Gripið fram í: Lækka skatta.) Auðvitað á hún engra annarra kosta völ en að taka upp varnir og lýsa því yfir að hin skelfilegu mistök sveitarstjórnanna í gær skuli aldrei yfir hana ganga. Við skulum átta okkur á því að þessir samningar sveitarstjórnanna við starfsfólk sitt í grunnskólunum voru samningar við ¼ starfsmanna sveitarfélaganna. Þær eiga eftir að semja við ¾ í viðbót. Þá kemur aftur spurningin: Hver á ekki að hækka?

Menn voru að gera því skóna hér, einhverjir bjartsýnismenn og fallega hugsandi, að Íslendingar mundu unna grunnskólakennurum þess að þeir gætu hækkað sérstaklega og aðrir mundu ekki gera slíka kröfu.

Ég gæti vel ímyndað mér að ef samstaða væri um það á Íslandi að hækka grunnskólakennara og að Íslendingar ætluðu ekki, ekki einn einasti, að gera sams konar kröfur gæti það leitt til mikillar farsældar fyrir þetta samfélag. Ég gæti alveg trúað því að það væri skynsamlegt og vel gert hjá hinni íslensku þjóð að hækka grunnskólakennara umfram aðra. En allan þann tíma sem kjaradeilan stóð hefur enginn einasti Íslendingur, ekkert einasta stéttarfélag, enginn lýst því yfir að þeir mundu ekki gera slíkt hið sama. Auðvitað gera allir þá kröfu af því að enginn er tilbúinn til þess að ein stétt fái þessa kauphækkun, ekki önnur. Þetta vita allir, virðulegi forseti. Það veit hver einasti maður.

Svo halda virðulegir þingmenn því fram að það sé nú bara hið minnsta mál, það eigi bara að rétta sveitarfélögunum aukna skatta og þá séum við búin að leysa þetta, búin að leysa þetta allt. Aukna skatta. Hverjir eiga svo að borga þá skatta? (Gripið fram í: Þú.) Ætli það sé ekki þessi sama þjóð sem á að borga þá? Draumurinn um að geta halað sig upp á hárinu er ekki bundinn við barón von Munchhausen, fleiri hefur dreymt um að geta leikið það eftir.

Hið hörmulega í þessu, virðulegi forseti, er að þetta er að gerast á þeim tíma þegar þau válegu tíðindi berast okkur að hinar endurskoðuðu töflur um lífaldur Íslendinga sem segja okkur að allar forsendur lífeyrissjóðanna eins og við höfum verið að reikna þær í 30 ár eru rangar. Íslendingar lifa núna manna lengst. Þær forsendur sem við höfum gefið okkur í kjarasamningum gagnvart innborgunum í lífeyrissjóðina hafa verið rangar.

Hvernig kemur það svo út, virðulegi forseti? Jú, það kemur þannig út að hinir frjálsu lífeyrissjóðir, lífeyrissjóður verkafólksins, lífeyrissjóður fólksins sem vinnur að framleiðslunni, versluninni og þjónustunni, eiga ekkert fram undan annað en skerðingar, skerðingar á lífeyri, eftirlaunum, örorkulífeyri o.s.frv.

Þetta er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. Á meðan lífeyrissjóður opinberra starfsmanna er með allt sitt á þurru koma menn og verja þau skelfilegu mistök að ætla enn og aftur að hækka laun opinberra starfsmanna meira en laun Alþýðusambands Íslands. Á sama tíma. Þetta er skelfilegt, virðulegi forseti, skelfileg ógæfa að til séu svo ábyrgðarlausir þingmenn.

Sveitarfélögin í landinu hafa engin efni á því að borga slíkar kauphækkanir. Það er af og frá, og allra síst sveitarfélögin úti á landi sem sannarlega eiga við erfiðleika að stríða vegna fækkandi fólks, lækkandi tekna í sjávarútvegi o.s.frv. Mörg sveitarfélög á Reykjavíkursvæðinu standa mun betur að vígi.

Þegar búið verður að hækka launin hjá öllum starfsmönnunum, hvað á þá að gera? Fá meiri skatta frá ríkinu? Menn gleyma grundvallarsannindum, og það er alveg sama, virðulegi forseti, hversu góðir menn og gegnir við Íslendingar erum eða aðrar lýðfrjálsar þjóðir, það hefur alltaf legið fyrir að eyðslustig hins opinbera, bæði hér á landi og alls staðar í Vestur-Evrópu, í lýðfrjálsum löndum, er skattstigið. Alltaf.

Halda menn að það hafi einhvers staðar gerst á byggðu bóli að einhverjir nýir skattar séu bara frystir inni í einhverjum seðlabanka og geymdir þar? Engin einasta saga er til um það í Vestur-Evrópu. Skattstigið er eyðslustigið.

Ríkisstjórnin á engra annarra kosta völ en að setja upp allar sínar varnir og standa þannig að málum að starfsmönnum ríkisins sé gerð fullkomlega grein fyrir því. Það er af og frá að hægt sé að semja við þá um eina einustu krónu umfram það sem Alþýðusamband Íslands hefur samið um.

Hvað haldið þið að verði í landi þar sem misskipting í lífeyrissjóðunum er svo gríðarleg sem raun ber vitni, á sama tíma og við skerðum lífeyrisgreiðslurnar, skerðum bæturnar til hins almenna verkamanns? Að þegar ríkisstarfsmennirnir hafi allt sitt á þurru geti menn leikið þann leik að hækka laun þeirra umfram þá sem vinna í framleiðslunni? Hvaða maður, virðulegur forseti, er svo vitskertur að trúa þessu? Ég trúi því ekki að nokkur maður (Gripið fram í: Ég trúi því.) sé svo fjarri lagi, algjörlega laus við allan veruleika.

Ríkisstarfsmenn verða að átta sig á því hverjir eru að borga tugmilljarða og aftur tugmilljarða inn í lífeyrissjóði þeirra. Það eru skattborgarar þessa lands, sama fólkið og á að þola skerðingu á kjörum sínum. (SJS: Eru opinberir starfsmenn ekki skattgreiðendur eins og aðrir?) Mismunurinn á milli þeirra og kjara hinna sem vinna á hinum almenna vinnumarkaði verður óþolandi. Það þýðir ekkert fyrir ríkisstarfsmenn að horfast ekki í augu við það að þjóðin mun ekkert líða þetta. Hún mun krefjast þess að ríkisstarfsmenn hafi ekkert öðruvísi lífeyrissjóð en aðrir menn. Það kemur að því ef svo á að halda sem horfir. Þetta er sú hætta sem menn skulu gera sér grein fyrir. Þetta getur sprengt okkar góða þjóðfélag heinlega í loft upp.

Þetta er óveðursskýið sem hrannast upp, hið svarta óveðursský. Enn þá er farsæld í þessu landi. Enn þá stendur ríkissjóður þessa lands vel, betur en flestir aðrir í Evrópu. Enn þá er hér kyrrð og ró en það gæti breyst.

Það er mikil ábyrgð, virðulegi forseti, að vera í stjórnarandstöðu. Þeir verða krafnir ábyrgðar og þeir verða að svara íslensku þjóðinni. Ef þeir eru ekki menn til að gera það opinberlega þá gagnvart samvisku sinni aftur og aftur: Hvaða launþegar á Íslandi eiga ekki að hækka? Hverjir eru það?

Menn verða að temja sér ábyrgð gagnvart launum. Laun eru um 70% af þáttatekjunum í þjóðfélaginu. Svo halda menn að þeir geti farið með þetta af einhverri léttúð, þetta sé bara spurning um að vera huggulegur, bara spurningin um að segja: Jú, við ætlum af gæsku okkar að hækka launin svo að þau séu mannsæmandi, eins og það heitir. Ha. Svo það sé mannsæmandi og sómi að. Eigum við ekki að hækka verkafólkið svo það sé mannsæmandi, sé sómi að því? Það er örlæti, þetta. Blessuð, förum öll og hækkum okkur um 100%. Yrðu ekki allir hamingjusamir? Yrði ekki stórkostleg gleði?

Við lékum þessa leiki í 40 ár, virðulegur forseti, og allir vissu að öll þjóðin tapaði og mest þeir sem voru fátækastir. Alltaf fóru lægstlaunuðu stéttirnar verst út úr því. Því meiri sem verðbólgan var þeim mun verr fór láglaunafólkið út úr því. Þess vegna höfðu verkalýðsfélögin forustu um að stoppa þessa vitleysu. Nú láta menn eins og enginn kunni neitt, eins og enginn muni neitt og þess vegna megi taka einn dans enn. Það er ekki hægt. Það verður að berjast og það verður að stoppa þetta. Sveitarfélögin verða að sitja uppi með sinn hörmungarsamning og þau eiga enga aðra leið út úr honum en að skera niður opinbera þjónustu. Það er borin von að ríkið geti undir nokkrum kringumstæðum komið þeim til hjálpar. Það er hörmulegt að þurfa að segja þetta en svona er þetta. Það er engin leið út úr vanda þeirra. Engin, nema menn ætlist til þess að ríkið bara gefist upp, ríkisstjórnin bara segi: Við gefumst upp og allt fari hér til helvítis.

Nei, það verður ekki gert, virðulegi forseti, það skal barist. Þær varnir skulu settar upp og það skal verða gerð grein fyrir því að það er ekki ábyrgðarlaus lýður við stjórnvöl á Íslandi, heldur fólk sem gerir sér fullkomlega grein fyrir ábyrgð sinni og ætlar sér að standa við það sem við höfum alltaf sagt að okkur bæri að gera, standa við hliðina á framleiðslunni, atvinnuvegunum, standa við hliðina á þeim sem vinna í framleiðslunni og þetta þjóðfélag byggist á.