131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:24]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir afar áhugaverða ræðu. Mig langar til að spyrja hann spurninga, af því hann vék að því að í gær hefðu náðst samningar milli sveitarfélaganna og grunnskólakennara um kauphækkanir. Þetta eru samningaviðræður sem hafa staðið á milli þessara tveggja aðila, annars vegar kennara og hins vegar sveitarfélaga, um kjör kennarastéttarinnar.

Það vill hins vegar þannig til, og það gleymist alltaf í umræðunum um þessi mál, að samningarnir sem hafa verið gerðir hafa áhrif á þriðja aðila, sem er ríkið.

Samningarnir sem voru gerðir í gær hafa áhrif á lífeyrisskuldbindingar ríkisins. Ríkið er ekki spurt að því hvort það samþykki þær hækkanir sem sveitarfélögin tóku á sig í gær. Ég tek undir það með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, telji sveitarfélögin sig vera í stakk búin fjárhagslega til þess að standa við þennan samning og greiða kennurum þessi laun, þá gott og vel, þá gera þau það. En þau skulu ekki komast upp með að koma skríðandi til ríkisvaldsins og biðja um frekari fjármuni vegna þeirra samninga sem þeir hafa gert. (HHj: Sagðirðu skríðandi?) Sveitarfélögin já. (HHj: Sagðirðu skríðandi?) Já. (ÖS: Hvað sagði menntamálaráðherra í síðustu ræðu sinni um þessi mál?) Það veit ég ekkert um, hv. þingmaður.

Það þýðir ekkert fyrir forsvarsmenn sveitarfélaganna að koma hingað og biðja ríkið að taka upp budduna ef þeir telja sig hafa farið fram úr sjálfum sér í þessum samningum.

En að lífeyrisskuldbindingunum aftur. Mig langar til þess að varpa þeirri spurningu fram til hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem hefur frætt okkur um það, fyrst í gær, hvað þessi samningur gengur út á fyrir sveitarfélögin. Mig langar til að spyrja hann: Hvað þýðir þessi samningur í auknum skuldbindingum, lífeyrisskuldbindingum, fyrir ríkissjóð?