131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:26]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi tala er að sjálfsögðu ekki nákvæmlega þekkt, en þeir sem gleggst þekkja telja að hún sé kringum 10 þús. millj. — tíu milljarðar króna í nýjar skuldbindingar ríkisins.

Það er hins vegar rétt, virðulegi forseti, að taka það fram að mér er kunnugt um að margir sveitarstjórnarmenn lögðu sig alla fram þennan tíma um að vera ábyrgir. Og þeir börðust fyrir því mánuðum saman að sveitarstjórnirnar tækju ábyrga stöðu í þessu máli. Því miður urðu þeir undir í þeim átökum. Það er hið hörmulega, sérstaklega hörmulegt af því ég veit það að margir þeirra sem höfðu forustu um að reyna að vera ábyrgir, voru einmitt forustumenn sveitarfélaga úti á landi þar sem sveitarfélögin standa hvað höllust að vígi. Þeir urðu bara undir. Það verður að segja þessa sögu eins og hún er. Þetta er mikil sorgarsaga.

En 10 þús. milljónir, eitthvað þar í kringum, það er hið rétta svar.