131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:32]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei þurft að taka það fram í ræðum mínum að auðvitað tala ég sem þingmaðurinn Einar Oddur Kristjánsson. (JBjarn: Og var komið ...) Það hefur alltaf legið fyrir. Ef menn eru svo sárir yfir eða hneykslaðir á málflutningi mínum, að það sé voðalegt að segja að einhver beri ábyrgð, allt í lagi. Allt í lagi, virðulegi forseti. Ef einhver annar ber ábyrgð, er það eitthvað betra? Erum við þá eitthvað hamingjusamari? Er hættan þá eitthvað minni? Allt í lagi. Við skulum segja að ríkið beri líka einhverja ábyrgð. Ég er ekki frá því að það sé rétt. Erum við þá eitthvað betur settir? Er hættan þá minni? Ég tala hér fyrir því að okkar góða samfélag geti verið í lífshættu. Ég fullyrði að þau góðu kjör, sá góði árangur sem hefur náðst í efnahagsmálum geti verið í mjög mikilli hættu. Ég trúi þessu, því ég veit að það er rétt.

Mér er það ekkert kappsmál, virðulegi forseti, að segja að einhver beri ábyrgð. Ef það er eitthvað léttara fyrir menn að segja að ríkið beri ábyrgð með sveitarstjórnunum, þá er það allt í lagi. En ég fullyrði hins vegar að hættan, hin efnahagslega hætta sem við stöndum frammi fyrir, er nákvæmlega sú sama. Þannig að við erum engu nær.

Ég get ekkert að því gert, virðulegi forseti, þó hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sé hneykslaður á málflutningi mínum. Það vill nefnilega þannig til að það er alveg gagnkvæmt. Ég er nefnilega mjög hneykslaður á málflutningi hans.