131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:36]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er algjörleg misskilningur að ég hafi neitt dregið í land og það mun ég ekki gera. Ég óttast að þessir samningar geti haft þau örlagaríku áhrif sem ég var að lýsa áðan.

Það er hins vegar alveg ljóst í mínum huga hvernig opinberir starfsmenn geta samið. Þeir geta ekki samið á neinn annan hátt en samið er við fólkið í framleiðslunni, fólkið sem er í Alþýðusambandi Íslands. Það er með opnunarmöguleika ef verðbólgan fer úr böndum, þá fylgja þeir með líka. Þá er búið að tryggja það, en þeir geta aldrei samið öðruvísi og það má aldrei semja öðruvísi við þá, vegna þess að þeir eru ekki með séraðstöðu, þeir geta ekki búið sér til sínar forsendur. Þeir verða að standa við hliðina á fólkinu sem vinnur í framleiðslunni og búa við sömu örlög og þeir.