131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:37]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Frú forseti. Hér hafa farið fram athyglisverðar umræður. Það má segja að þær hafi að hluta til hafist með ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, eins og oft áður þegar fjárlög eða fjáraukalög hafa verið rædd. Það er hins vegar afskaplega athyglisvert þegar hv. þingmaður vísar allri ábyrgð á ákveðna stétt eða ákveðinn hóp. Hér er ábyrgðin öll, miðað við málflutning hv. þingmanns, hjá sveitarfélögunum og grunnskólakennurum. Það er eins og sagan hafi hafist með kröfugerð grunnskólakennara. Í andsvörum var hv. þingmaður að vísu farinn að bakka örlítið inn í raunveruleikann og farinn að kannast við að hugsanlega bæru einhverjir fleiri ábyrgð í þessu máli.

Frú forseti. Það sem einkenndi allan málflutning hv. þingmanns voru áhyggjur hans af ríkisstjórninni sinni, af stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Það var augljóst mál. Hv. þingmaður gekk hins vegar ekki nógu langt í hreinskilninni sem hann er þó þekktur fyrir, þ.e. að skamma sína eigin ríkisstjórn, sem hann gerði þó óbeint, vegna þess að hv. þingmaður kann alla þessa sögu mjög vel, sögu kjarasamninganna, hvenær fyrst var gefið eftir í þeirri stefnu sem hv. þingmaður vill nú að verði tekin upp. Hann þekkir vel samningana sem voru gerðir við framhaldsskólakennara, sem var eðlilega ákveðið viðmið grunnskólakennaranna, en framhaldsskólakennararnir höfðu líka viðmið. Við þekkjum kjarasamningana sem voru gerðir þar á undan, við þurfum ekki að nefna þá alla, m.a. kjarasamningana sem þurfti þrjá ráðuneytisstjóra í heilbrigðiskerfinu til að gera. Það var spírall sem fór í gang og snerist í mörg ár og það hefur verið að skila sér út, jafnt og þétt. Ef við erum að leita að ábyrgðinni þá þarf að vita hvar þetta hófst. Það er ósköp eðlilegt að þeir sem hófu leikinn verði að ljúka honum líka.

Það er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni að á ákveðnu tímabili hefur verið mismunur á því hvernig launahækkanir hafa dreifst um samfélagið, það er alveg ljóst. Vandinn er hins vegar alltaf sá við hvaða tíma eigi að miða. Hvar ætlum við að byrja og hvar ætlum við að enda?

Hv. þingmaður hefur oft sagt, sem er hárrétt: Kjarasamningar eru fyrst og fremst samanburðarfræði. Það er alltaf verið að bera sig saman við einhverja og þannig er það auðvitað nú. Það er ljóst að staðan gagnvart grunnskólakennurum í deilunni við sveitarfélögin var afskaplega viðkvæm og erfið og ég hélt að flestir mundu fagna því að tekist hefði að leysa hana.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það leysir enginn svona deilur með því að vísa á aðra, að aðrir eigi að borga brúsann. En enn og aftur er spurningin: Hvar ætlum við að hefja leikinn?

Það liggur ljóst fyrir og hefur verið vitnað til þess, sem margir flokksbræður hv. þingmanns úr forustusveit sveitarstjórnarmanna hafa bent á, að það er vitlaust gefið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Þar þarf að taka til hendinni. Það þarf því ekki samninginn við grunnskólakennara til til að fara í þau mál og lagfæra samskipti þar.

Það hefur hallað á sveitarfélögin á margvíslegan hátt. Hér í umræðunni hafa verið nefnd nokkur dæmi. Það hefur verið gert á undanförnum missirum og þarf ekki að endurtaka það.

Við vitum líka að tekjuþróun sveitarfélaga og ríkisvaldsins hefur verið mismunandi, þ.e. tekjur hafa aukist mun meira hjá ríkinu en sveitarfélögunum (Gripið fram í.) mun meira ... ja, getur hv. þingmaður fundið eitthvað tímabil sem þetta passar ekki við? Þá er aftur spurningin: Hvar ætlum við að byrja og hvar ætlum við að enda í samanburðarfræðunum? En við vitum að hinar óbeinu tekjur hafa vaxið mun meira en beinar tekjur sveitarfélaganna.

Um þetta þarf ekki að deila. Þetta er reikningsdæmi sem verið er að vinna í og við skulum vona að menn komist að niðurstöðu. Auðvitað geta sveitarfélögin ekki treyst því alfarið að þau fái auknar tekjur frá ríkisvaldinu vegna grunnskólakennarasamninganna, enda held ég að ekki sé unnið þannig t.d. í tekjustofnanefndinni milli ríkis og sveitarfélaga, þar sem þessum málum er sinnt. Það skyldi þó ekki vera að hv. þingmaður væri að tala fyrir hönd einhvers arms í Sjálfstæðisflokknum, sem e.t.v. hefur engan áhuga á að auka tekjur eða styrkja sveitarfélögin, og hefur engan áhuga á því verkefni sem hæstv. félagsmálaráðherra er í fararbroddi fyrir, þ.e. að efla sveitarstjórnarstigið?

Það skyldi þó ekki vera að þetta væri hluti af þeim leik að eyðileggja það verkefni? Það er mjög auðvelt að eyðileggja það. Það verður líklega hægt að gera það á næstu vikum vegna þess að ef ekki næst viðunandi niðurstaða í tekjustofnanefndinni fyrir sveitarfélögin vegna þess sem liðið er, ekki vegna þess sem fram undan er, þá eru einfaldlega allar tillögur um eflingu sveitarstjórnarstigsins foknar út um gluggann. Þá mun ekki takast að gera neitt í þeim efnum í þessari atrennu.

Þess vegna er afar mikilvægt að þetta nái saman. Það þarf auðvitað að tryggja að sveitarfélögin séu í stakk búin til að sinna verkefnum sínum, burt séð frá þessum nýjasta samningi.

Hv. þingmaður tók þannig til orða að nú þurfi ríkisstjórnin að setja upp allar sínar varnir. Ég taldi að slíkt þyrfti ekki að segja, vegna þess að í núverandi efnahagsástandi þarf ríkisstjórnin að setja upp allar sínar varnir og átti að vera uppi með þær. Hún þarf ekki að fara að setja þær upp núna, en það er eðlilegt að hv. þingmaður taki svo til orða, vegna þess að hann veit að þeir hafa ekki verið uppi með þær.

Aðeins varðandi lífeyrissjóðsmálin. Þetta er að hluta til hárrétt hjá hv. þingmanni, það er ekki viðunandi ástand í lífeyrissjóðsmálum þjóðarinnar þegar mismunurinn er jafngífurlegur og hann er nú. Það ætti auðvitað að vera verkefni okkar allra að finna leið til að jafna þann mun. Það er eðlilegt að reynt sé að gera slíkt og það hafa verið stigin skref í þá átt. Það þyrfti að taka fleiri slík skref og væri auðvitað mannsbragur á að hér yrði t.d. kosin nefnd sem hefði það verkefni að jafna þessi kjör á einhverju tímabili, því það verður ekki gert á einni nóttu.

Hv. þingmaður spyr líka þeirrar merku spurningar og ætlast til að fá svar: Hvaða launamenn eiga ekki að hækka? Hv. þingmaður hefur sjálfur svarað spurningunni, að faktískt er hægt að færa rök fyrir því að allir launamenn eigi að hækka. Þetta eru frjálsir samningar og það þarf að treysta samningsaðilum í gerð þeirra. Hv. þingmaður nefndi að forusta Alþýðusambands Íslands og Starfsgreinasambandsins hefðu verið í fararbroddi til að gera ábyrga samninga sem hefðu skilað auknum kaupmætti til láglaunafólksins. Undir það er eðlilegt að taka eins og kom fram hjá hv. þingmanni; þær stéttir sem mest tapa á verðbólgunni eru þær stéttir sem hafa lægstu launin. Það á því að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að vinna gegn því að verðbólgan fari aftur af stað.

En þá kemur að því að það gengur ekki að setja stöðuna upp þannig að verðbólgan muni fara af stað vegna þeirra kjarasamninga sem gengið var frá í gær. Það liggur fyrir frá greiningardeildum ýmissa banka og frá ýmsum stofnunum sem hafa verið að kanna efnahagsmálin að verðbólgan er komin af stað, sem er hluti af þeim vanda sem menn eru í sem eru að gera kjarasamninga í dag, en það er vegna þess að menn hafa ekki viljað fara inn í það sem hv. þingmaður var að lýsa þegar samið var um að sjálfvirk hækkun yrði eftir því hvernig verðbólgan þróast. Það er því eðlilegt að menn reyni að tryggja sig í samningum.

Vandinn í þessu máli er, eins og allur málflutningur hv. þingmanns gekk út á þar sem hann skammaði sína eigin ríkisstjórn, að lausatök ríkisstjórnarinnar eru því miður upphafið að því að verðbólgan hefur farið af stað. Frá þeirri ábyrgð kemst ríkisstjórnin ekki og það er alveg sama hversu oft hv. þingmaður lemur hér í púltið og vill dreifa ábyrgðinni eitthvað annað þá endar hún alltaf þar. Það er lykilatriði að menn nái tökum á ríkisfjármálunum og til þess er nauðsynlegt að menn hagi vinnu við fjárlögin á þann hátt að hægt sé að taka mark á þeim. Það er algjört grundvallaratriði ef menn ætla að ná tökum á ríkisfjármunum að fjárlög séu þannig gerð.

Í ræðu minni í morgun fór ég yfir það og nefndi nokkur dæmi um að því miður hefðu jafnvel stjórnvöld gefið stofnunum heimild til að keyra fram úr fjárlögum. Hvers konar virðingu er verið að skapa fyrir fjárlögunum með slíku háttalagi? En það er hins vegar eðlilegt miðað við hvernig staðið er að fjárlögunum þar sem ekkert er unnið að því að menn beri virðingu fyrir þeim, vegna þess að áætlunargerðin er þannig að ekki er nokkur leið að taka fyllilega mark á þeim. Það liggja fyrir fjölmörg dæmi um að ekki er staðið að fjárlögum eins og á að gera.

Ég skal nefna bara eitt afskaplega skýrt dæmi sem blasir við í frumvarpinu til fjárlaukalaga sem er hér til umræðu. Það eru framhaldsskólarnir. Í 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2004 var bætt inn 600 millj. kr. vegna þess sem talið var vanáætlað í fjárlagafrumvarpinu sjálfu, og síðan sagt að nú væri búið að ná þeirri stöðu sem þyrfti til að framhaldsskólarnir pössuðu inn í næsta ár.

Í fjáraukalagafrumvarpinu koma 250 millj. kr. núna, og enn er sagt að nú sé búið að ná utan um vandann. (Utanrrh.: Nei.) Í 2. umr., hv. þingmaður, kemur síðan tillaga um 200 milljónir til viðbótar, þannig að samanlagt er núna í þremur tilraunum búið að hækka þetta um rúmlega milljarð. Og alltaf er verið að tala um hluti sem lágu fyrir þegar fjárlögin voru samþykkt, þessar tölur lágu allar fyrir. En vegna þess að menn hafa verið með alls konar talnaleiki til að láta eitthvað passa eða — sem ég er farinn að aðhyllast hvað mest — að þetta sé sú aðferð sem ríkisvaldið notar til að reyna að sýna aðhald í ríkisrekstrinum; gera rangar áætlanir, áætla fyrir neðan raunverulegan kostnað við þá starfsemi sem fyrir liggur.

Þetta skapar auðvitað það virðingarleysi gagnvart fjárlögunum sem við erum því miður að berjast við. Við munum aldrei ná tökum á að full virðing verði borin fyrir fjárlögunum og menn umgangist þau eins og á að gera fyrr en áætlað verður á réttan hátt og undirbúningur fjárlaganna með þeim hætti að hægt sé að taka mark á þeim .

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira, ég vildi aðeins koma inn á þessi ákveðnu atriði vegna hinnar yfirgripsmiklu ræðu hv. þingmanns þar sem hann reyndi að gera sökudólga úr þeim sem saklausir eru.