131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:49]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé í framhaldi af ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar hér áðan — sem ég þakka fyrir þó að ég væri innihaldinu ákaflega ósammála og undrandi yfir því — að fara aðeins betur yfir þessi atriði, því að sú uppsetning mála sem þar kom fram stenst ekki þegar betur er að gáð.

Ég hlýt að byrja á að mótmæla hvernig hv. þingmaður reyndi í ræðu sinni — þó að ég vilji nú meina að hann hafi dregið nokkuð í land í andsvörum — að draga upp þá mynd af ástandinu að hér væri allt teppalagt og í himnalagi. Hins vegar væru þessir hroðalegu samningar grunnskólakennaranna þannig að þeir gætu sett allt á hvolf og þá bæru þeir, og þeir einir, ábyrgð á því og svo viðsemjendur þeirra.

Hv. þingmaður byrjaði í þjóðarsáttinni, eða ég skildi hann svo þegar hann talaði um að það hefði verið gæfan frá því fyrir um einum og hálfum áratug, þá hefðu menn náð ábyrgum kjarasamningum. Þar erum við sammála. Þjóðarsáttin var auðvitað mikil gæfa. Ég hygg að það hafi verið einhver best heppnaða aðgerð sem menn hafa farið í í langan tíma til að ná tökum á ástandi sem var búið að vera í ólestri um langt árabil, þ.e. að ná stöðugleika í hagstjórninni, ná niður verðbólgunni og skapa umhverfi bæði fyrir kjarasamninga og atvinnulífið sem byði upp á að menn semdu í sæmilega stöðugu umhverfi, gerðu áætlanir, fjárfestingar og annað því um líkt í þannig umhverfi.

Hvernig varð þjóðarsáttin til? Jú, hún varð til í þríhliða samstarfi: ríkisvaldsins, vinnuveitenda og Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bændasamtakanna (EOK: Kennarasamband Íslands.) og Kennarasambandið kom inn í það líka. Ég veit að hv. þingmaður kann þetta og ekki þarf að rifja þetta upp fyrir honum, en það er kannski ástæða til fyrir einhverja aðra.

Það er alveg hárrétt að stöðugleikinn er ómetanlegur í þessum efnum og það var mikil hátíðisstund þegar verðbólgan á Íslandi komst í fyrsta skipti niður fyrir tveggja stafa tölu haustið 1990 og við munum það örugglega mjög vel báðir, hv. þingmaður og ég.

En þegar hv. þingmaður tók að skilgreina framhaldið og sérstaklega ástandið núna þá fara leiðir að skilja, því það getur ekki verið að eingöngu launamenn og þá sérstaklega lægri launahlutinn í samfélaginu eigi að axla alla ábyrgðina á stöðugleika í efnahagsumhverfinu. En þannig talaði hv. þingmaður. Hann skautaði yfir ærið margt sem er að verki þegar að því kemur að greina ástandið eins og það er í dag, en þar má nefna verðbólgu og það jafnvægisleysi sem við búum við.

Er það bara grunnskólakennurum að kenna að viðskiptahallinn er fleiri tugir milljarða? Ætli stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar eigi ekki nokkurn þátt í því að verðbólgan hefur farið upp, gæti það ekki verið? Eru ekki að koma fram nákvæmlega þau ruðningsáhrif í atvinnulífinu og efnahagskerfinu sem var varað við af fjölmörgum hagfræðingum?

Hvernig er með bankana, bera þeir enga ábyrgð? Eru grunnskólakennarar ábyrgir fyrir því að bankarnir hafa mokað hundruðum milljarða af erlendu lánsfé inn í hagkerfið undanfarin missiri? Bættu við 300 milljörðum í fyrra, upplýsti þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson. Og hvað eru þeir að gera í dag? Eru þeir ekki að bjóða 100% húsnæðislán sem eru auðvitað engin húsnæðislán heldur lán sem geta farið í að fjármagna hvaða eyðslu sem er svo fremi sem að á bak við sé veð í húsnæði, og reyndar fylgja með í kaupunum skuldbindingar um viðskipti við bankana.

Og hvað um ríkið, hvað um Geir H. Haarde fjármálaráðherra, ber hann enga ábyrgð? Hver samdi við framhaldsskólakennara? Voru það grunnskólakennarar? Nei, ekki veit ég til þess. Það var fjármálaráðherra, flokksbróðir hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem samdi við þá hópa háskólamenntaðra starfsmanna sem grunnskólakennararnir miða sig við núna. Er þetta ekki staðreynd? Jú. Er þá sanngjarnt að tala með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði hér áðan?

Ég ætla ekkert að draga í efa að áhyggjur hv. þingmanns séu ekta né að hann meini allt sem hann sagði, þó að mér fyndist sú mynd að vísu allt of dökkum dráttum dregin því ég hef ekki trú á að slíkt óskaplegt fár sé þar á ferðinni að það gefi tilefni til nánast heimsendaspádóma af því tagi sem hv. þingmaður var með, að menn muni algjörlega missa öll tök á hlutunum ef þetta gengur eftir.

Hvað með skatta- og efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar? Eru það grunnskólakennarar sem lofa hér upp í ermina á sér, lofuðu þeir næstum 30 milljarða skattalækkunum fyrir síðustu kosningar? Nei, er ekki rétt munað að það hafi verið Sjálfstæðisflokkurinn? Ætli það sem ríkisstjórnin er að gera núna sé gott innlegg í stöðuna eins og hún er í dag og samrýmist vel t.d. glímu Seðlabankans við að reyna að halda aftur af verðlagi? Nei, auðvitað ekki, það er í 100% mótsögn við það sem Seðlabankinn er að baksa, að reyna að halda aftur af verðlagsþróuninni með hækkun stýrivaxta, og jafnvel að reyna að halda í við styrkingu krónunnar með því að kaupa gjaldeyri. En þannig er staðan, eins og raun ber vitni.

Auðvitað er það þannig, frú forseti, að það þýðir ekki bara að einblína á hina almennu kjarasamninga þegar við erum að ræða um hlutaskiptin í þjóðfélaginu, eða hvað? Er ekki hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sammála því að þegar menn horfa upp á t.d. launakjör toppanna í samfélaginu, eða á 30–40 milljarða króna hagnað bankanna, eða þegar menn horfa upp á fjármagnsgróðann eða á ríkisstjórn sem ætlar að lækka sérstaklega skattana hjá hátekjufólki, að þá reyni menn að rétta sinn hlut og beita samtakamætti sínum til að ná sínum skerf af verðmætunum sem eru til skipta í þjóðfélaginu?

Hér á ferð eru einfaldlega átökin um hlutaskiptin í hagkerfinu, þetta heitir pólitík og í þessu er ekkert nýtt, eða á ekki að svo vera fyrir hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Það er ekki hægt að hengja þetta á þá stétt sem hefur í augnablikinu staðið í því að reyna að bæta kjör sín. Menn hafa samningsrétt og verkfallsrétt hér í landinu — og ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður sé að tala fyrir því að sá réttur, eða að honum verði beitt, verði tekinn af mönnum.

Þetta er þannig að ef frá eru dregin þau útgjöld sem tengjast breyttri vinnuskyldu kennara og annað í þeim dúr, tekið mið af því að um fjögurra ára samning er að ræða sem er þannig upp byggður, svo gróft sé farið yfir þetta tímans vegna, að hækkanirnar nú eru í raun og veru sambærilegar við, eða nokkurn veginn í takt við verðlagsþróunina eins og hún er síðustu mánuði og fyrirsjáanleg á allra næstu mánuðum, þá eru þessar prósentuhækkanir í lok samningstímans komnar niður í hvað (Gripið fram í: 2,25...) 2,25 fyrir árið. Eru það þau lifandi ósköp sem eru að setja allt úr skorðum?

Ég mótmæli því algerlega að stiginn eins og hann er í þessum kjarasamningum sé einhver ógæfa í þessu samhengi. Er það skrýtið að menn skuli vera að semja um 5 eða 6% kauphækkanir í 6% verðbólgu? Eru það einhver ósköp? Bíddu, um hvað eiga menn að semja? (Gripið fram í: Það eru ekki Íslendingar.) Um mínus eitthvað? Grunnskólakennarar sem eru að gera kjarasamning núna, hv. þingmaður, eru að semja til næstu fjögurra ára eða inn á það spor þróuðust viðræðurnar. Þeir eru að semja langt út yfir þann tíma sem í gildi er hjá aðilum á hinum almenna vinnumarkaði.

Frú forseti. Ég held að það standist ekki skoðun þegar betur er að gáð, að ætla að stilla dæminu þannig upp að öll ábyrgðin af því að hér haldist stöðugleiki í verðlagi á næstu árum liggi á herðum þeirra sem stóðu nákvæmlega núna í kjaraviðræðum og reyndu að ganga frá samningum. Þeir bjuggu sér ekki til það umhverfi sem þeir semja í. Það er veruleikinn, hvort sem mönnum líkar betur eða verr og sjálfsagt líkar hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni miklu verr, vegna þess að ábyrgðin af ástandinu í dag er auðvitað fyrst og fremst hjá einum aðila, ríkisstjórninni. Það er stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar. Það er skattastefna ríkisstjórnarinnar. Það er ríkið sem viðsemjandi og aðilar eins og fjármálageirinn sem þurfa ekki síður að axla ábyrgðina af ástandinu eins og það er í augnablikinu.

Auðvitað veit ég að það má ekki stugga við hinni heilögu kú, stóriðjustefnunni, en er það ekki nákvæmlega það sem við stöndum frammi fyrir, sem þeir fáu hagfræðingar sem höfðu burði til þess að setja fram sjónarmið á sjálfstæðum forsendum vöruðu við og sögðu: Jú, fletta má upp mörgum blaðagreinum þar sem nákvæmlega var varað við því að herkostnaðurinn af stefnunni yrði m.a. þessi. Ruðningsáhrifin í hinu almenna atvinnulífi sem við ræddum fyrr í dag í samhengi við vaxandi atvinnuleysi og þau vandamál sem hlytu að koma upp í hagstjórninni þessu samfara.

Það er enginn bilbugur á mönnum gagnvart því, þeir halda bara áfram og gefa meira í. Menn halda fagnaðarsamkomur yfir því að semja um enn þá meiri fjárfestingar á næstu missirum í stóriðjugeirann. En það er ekki við grunnskólakennara að sakast þar. Mér finnst alveg ákaflega ómaklegt og óviðeigandi að nudda því salti í sárin að kenna þeim um með þeim hætti sem hv. þm. gerði, eða er ekki hægt að horfast í augu við það og viðurkenna að kennarar eru stórkostlega lemstraðir og í sárum eftir þessa löngu og harðvítugu deilu.

Það er líka athyglisvert, frú forseti, að velta því fyrir sér hvort vonskan í hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sé í og með svona mikil vegna þess að með samningnum sem undirritaður var í gærkveldi komust menn undan gerðardómslögunum. Menn eru kannski í og með vonsviknir og reiðir vegna þess að þeir bundu vonir við að þeir gætu með lögunum þvingað þetta til baka í það far sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talar fyrir, launalögregluhugsunina.

Ég sakna þess að menn séu jafnaðhaldssamir þegar launakjör toppanna eiga í hlut. Ég sakna þess að menn tali til bankakerfisins þegar það leikur lausum hala með þeim hætti sem það hefur gert undanfarin missiri í íslensku hagkerfi. Hvar voru varnaðarorðin þá? Ætli það eigi ekki líka sinn þátt í því hvernig komið er? Það var a.m.k. annað að heyra í hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra þegar hann messaði yfir mönnum á ársfundi Samtaka atvinnulífsins fyrir ári og reyndar við fleiri tækifæri. Greinilegt var þó að hæstv. utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, gerði sér grein fyrir að það gat verið mikið í húfi vegna þess hvernig hlutirnir voru að þróast í hagkerfinu.

Ég verð að vona að það sé rétt, og hef svo sem enga ástæðu til að vefengja það, að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi verið að tala fyrir sjálfan sig og engan annan og hann sé ekki sendiboði eða einhver undanfari sem ríkisstjórnin eða Sjálfstæðisflokkurinn hafi ákveðið að senda fram, reka fram sverðið í ástandið eins og það er.

Ég trúi ekki að menn séu að safna liði til þess að reyna að fá sveitarfélögin til að fella kjarasamninginn, en það var erfitt að komast hjá því að láta sér detta það í hug þegar maður hlýddi á hv. þm. áðan og eins á þær hamfarir sem hann fór í fjölmiðlum þegar hann tjáði sig um atburðina í gærkvöldi og í morgun.

Hvernig ætla menn að leysa hlutina öðruvísi en að reyna að ná einhverri sanngjarnri sátt við stéttirnar í þjóðfélaginu sem sinna þessum mikilvægu störfum? Hvernig ætlum við að manna undirstöðu velferðarþjónustu í landinu öðruvísi en að það takist að hafa starfsfólkið sem það vinnur sæmilega sátt við hlutskipti sitt? Hvernig ætlum við að útskýra fyrir fólki, hvort sem það eru verkamenn, iðnaðarmenn eða kennarar á Íslandi þar sem þjóðartekjur á mann eru fjórðu til sjöttu hæstu í heimi, að samt þurfi kaup að vera 20%–40% lægra en annars staðar á Norðurlöndunum? Ef tímakaupið er mælt er það bara þannig. Þetta veit hv. þm. og þess vegna vinna menn hér að meðaltali u.þ.b. einum mánuði lengri vinnutíma á ári hverju, 48–49 stundir og fer heldur upp á við hjá fjölmörgum starfsstéttum. Það er það sem er að og hefur verið lengi í hlutaskiptunum í landinu að greitt er of lítið fyrir fasta umsamda vinnu. Við erum ekkert nær því núna en fyrir löngu síðan að menn geti lifað sómasamlegu lífi af 40 stunda vinnuviku, hvað þá 36 eða 38 eins og orðin er umsamin víða í löndunum í kringum okkur. Nær væri að við reyndum að komast í þá áttina en að sitja föst í uppsetningu mála af því tagi sem hv. þm. dró upp áðan.

Frú forseti. Ég held að vandamál okkar sé ekki skortur á verðmætum í samfélaginu til að skipta með sanngjörnum hætti svo hægt sé að gera betur við hina almennu launamenn. Auðvitað gildir það um þá alla, að sjálfsögðu. Það virðist a.m.k. ekki vera þannig þegar kemur að gróða fjölmargra greina samfélagsins, þegar kemur að fjármagnsgróðanum, þegar kemur að hagnaði fjármálafyrirtækjanna og öðru slíku, að þar sé ekkert til skiptanna.

Frú forseti. Ég veit ekki hvort það þjónar tilgangi að hafa þessa messu öllu lengri í tengslum við umræðuna um fjáraukalagafrumvarp. Það var kannski minna úr skoðanaskiptum milli mín og hv. þm. en ætlunin var eða hv. þingmanna um stöðu sveitarfélaganna og þann anga málsins sem er að hluta til undir í fjáraukalagafrumvarpinu og ég hefði gjarnan viljað fá meiri skoðanaskipti um líka. Það má þess vegna bíða betri tíma. Þetta er auðvitað ekki síðasta tækifæri sem við höfum áður en þingið lýkur störfum fyrir jólaleyfi til að ræða efnahagsmál og hagstjórn og hlutaskiptin í samfélaginu.

Það er alla vega ljóst að því verður ekki ómótmælt af minni hálfu og okkar hálfu að menn reyni að draga upp mynd af því tagi sem stjórnarliðar og þá sérstaklega hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson reyndi að gera. Ég spái því að ummæli hans, þó svo hann tali ekki í umboði eða annarra nafni en sjálfs sín, munu þykja athyglisverð hvað varðar kjarasamhengið og ýmsum grunnskólakennurum muni þykja þetta kaldar kveðjur. Ég hugsa að sveitarstjórnarmenn muni líka verða hugsi þegar þeir mæta því hugarfari sem fram kom í ræðu hv. þm., sem kemur fram í breytingartillögu meiri hlutans og í því hugarfari að nú skuli sveitarfélögin vesgú skera niður því ekki fái þau krónu frá ríkinu. Nei, þau skuli bara skera niður og reka sig áfram með halla. Svo guma menn af því að ríkissjóður standi vel. Það er kannski ekki svo skrýtið þegar menn fleyta rjómann af tekjunum sem viðskiptahallinn og þenslan í þjóðfélaginu færir ríkissjóði sjálfkrafa. Þá geta menn verið miklir menn og fært verkefni til sveitarfélaganna án þess að láta tekjur fylgja.

Það fyrirkomulag er prýðilegt fyrir ríkissjóð og lækka svo skatta, vera miklir karlar og aðrir sitja uppi með hausverkinn af því að ná endum saman, semja við starfsmenn sína eins og sveitarfélögin.

Öll ábyrgðin af efnahagslegum stöðugleik í landinu, af hagstjórn og öllu heila gúmmúlaðinu, hvílir ekki á herðum þessa 4.500 manna hóps sem kennir börnunum okkar. Það er ekki þannig. Það er ekki sanngjörn eða makleg uppstilling.