131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:34]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Allir, þingmenn jafnt sem almenningur, fordæma ólöglegt samráð þar sem það hefur viðgengist. Slíkt athæfi er efnahagslega skaðlegt og óverjandi á allan hátt.

Forsvarsmenn olíufélaganna hafa beðist afsökunar að því marki sem þeir telja sig ábyrga. Félögin gera hins vegar ágreining við samkeppnisyfirvöld um fjöldamargt í þessu máli, þar með talið útreikninga á áætluðum ávinningi félaganna. Við þá útreikninga hefur Hagfræðistofnun Háskólans einnig gert athugasemdir. Endanleg niðurstaða bíður úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála og eftir atvikum dómstóla.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sakar ríkið um að hafa verið eins konar óvirkur þátttakandi í ólöglegu samráði og að hafa með því haft rúmlega hálfan milljarð kr. af almenningi með ofteknum virðisaukaskatti. Samt er augljóst að ekkert verður fullyrt um að ríkið hafi haft óeðlilegar skatttekjur af ágóða af verðsamráði meðan málið hefur ekki verið endanlega upplýst.

Á hinn bóginn er hagur ríkissjóðs er nátengdur hag fólksins í landinu. Ef hagur heimilanna versnar verður hagur ríkissjóðs einnig verri og ef hagur fólksins batnar þá batnar einnig hagur ríkissjóðs.

Almennt er það þannig að ef tiltekin neysluvara hækkar í veðri þá rýrnar kaupmáttur fólks og þar með svigrúm þess til að kaupa aðrar vörur. Tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti breytast þar af leiðandi ekki við slíka hækkun. Af þessum sökum er það rangt sem sumir halda fram, að ríkissjóður hafi hagnast gríðarlega á hækkun olíuverðs á alþjóðlegum mörkuðum undanfarna mánuði. Þvert á móti hefur allt þjóðarbúið tapað á þeim hækkunum.

Skatttekjur ríkissjóðs aukast hins vegar með hagvexti, sem eykur bæði tekjur almennings og fyrirtækja. Þess vegna ber að efla hagvöxtinn. Einokun og ólögmætt samráð hafa hins vegar þau áhrif að draga úr hagvexti og tekjum. Þannig starfsemi kemur því bæði niður á almenningi og ríkissjóði og fráleitt að gefa í skyn að ríkissjóður hagnist á slíku. Hagfræðibækur geyma mörg dæmi um falskenningar af þessu tagi, sem ganga út á að þjóðfélagið geti hagnast á því að sem mestu tjóni sé valdið.

Við þetta er því að bæta að hugmynd þingmannsins um endurgreiðslu svokallaðs ránsfengs í þessu máli er með öllu óraunhæf. Hafi ríkissjóður haft tekjur af meintu samráði hefur þeim fjármunum þegar verið varið í þágu almannahagsmuna með ákvörðunum á Alþingi. Samkvæmt hugmynd hv. þingmanns ætti almenningur því að endurgreiða almenningi þau útgjöld. Þetta gengur ekki upp. Ég geri ekki ráð fyrir því að þingmaðurinn krefjist þess að útgjöldin og sú opinbera þjónusta sem þeim hefur verið varið til verði einnig afturkölluð. Þá væri þingmaðurinn í það minnsta ekki líkur sjálfum sér. Vart er þingmaðurinn að leggja til að lagður verði á annar skattur til að fjármagna slíka endurgreiðslu.

Nei, virðulegur forseti, ríkissjóður hefur ekki haft neinn hag af háu olíuverði. Þvert á móti hefur það aukið rekstrarkostnað ýmissa ríkisstofnana og hækkað almennt verðlag. Málflutningur þingmannsins stenst ekki. Skýrsla Samkeppnisstofnunar um meint samráð olíufélaganna er grafalvarlegt mál eins og áður hefur verið rætt á Alþingi. En kenningar þingmannsins sem hér hafa verið reifaðar gera lítið úr alvöru málsins.

Sem betur fer hefur samkeppni aukist á flestum sviðum í fyrirtækjarekstri á undanförnum árum. Það hefur skilað bæði almenningi og ríkissjóði miklum ávinningi. Ríkissjóður hefur ekki hag af því að menn brjóti leikreglurnar í atvinnulífinu. Skilningur allra þátttakenda á markaði, bæði fyrirtækja og launþega, á hinu nýja lagaumhverfi er mjög að aukast en vissulega geta allir gert betur og ríkisstjórnin stefnir ótrauð að því að auka samkeppni á sem flestum sviðum atvinnulífsins er lúti virku eftirliti.