131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:43]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér eru til umræðu tekjur ríkissjóðs af ólöglegu verðsamráði olíufélaganna.

Ég vil í upphafi máls míns lýsa því yfir að mér finnst við eiginlega færa umræðuna inn á ranga braut með því að beina henni í þessa átt. Það er talað um að ríkið hafi hagnast um 600 millj. kr. Þeir peningar hljóta að hafa runnið í ríkissjóð og verið ráðstafað eftir fjárlögum sem voru ákveðin á hinu háa Alþingi í góðri trú og með það að leiðarljósi að þessir peningar nýttust með bestum hætti til velferðar fyrir land og þjóð. Ég geri ráð fyrir því að þessum peningum hafi verið varið í þágu þjóðarinnar.

Hins vegar teljum við í þingflokki Frjálslynda flokksins að þeir sem séu raunverulega ábyrgir í þessu máli, þ.e. forstjórar, stjórnarformenn og hugsanlega stjórnarmenn, eigi að sjálfsögðu að sæta ábyrgð. Hér dugir ekki bara að segja: Ég biðst afsökunar. Þessa menn verður að draga til ábyrgðar því að afbrotin eru að sjálfsögðu mjög alvarleg.

Kveðinn hefur verið upp sá úrskurður að olíufélögin greiði stjórnsýslusektir upp á rúma tvo milljarða. Við vitum ekki hvort sú upphæð verður hin endanlega upphæð sem þessi félög greiða fyrir glæpsamlegt athæfi sitt en það er okkar skoðun að þeir peningar eigi eingöngu að renna til úrbóta í samgöngumálum, að þær sektir sem verða innheimtar af illa fengnu fé renni til framkvæmda sem gagnist öllum landsmönnum. Þar er sannarlega af nógu að taka.

Það er ekki rétt að lækka bensíngjaldið, að okkar mati. Okkar bíða það mörg brýn úrlausnarefni í samgöngumálum og margt hefur verið gert gott á undanförnum árum en mörg þörf verkefni bíða. Í þau eiga tekjur ríkisins af eldsneyti að fara og einnig þær stjórnsýslusektir sem hér um ræðir, alveg hiklaust.