131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:45]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Þetta stærsta samráðsmál Íslandssögunnar hefur margar hliðar. Ein þeirra er til umræðu hér. Það er ljóst að bæði olíufélögin og ríkissjóður hafa hagnast af samráðinu. Það er áætlað að hagnaður olíufélaganna hafi verið um 6,5 milljarðar kr. Það er hægt að áætla að hagnaður vegna oftekinna skatta ríkissjóðs hafi a.m.k. verið 600 millj. kr.

Hins vegar er ljóst, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði, að útgjöld ríkissjóðs hafa líka aukist að einhverju leyti. Hæstv. ráðherra hefði væntanlega getað áætlað þær tölur.

Herra forseti. Ríkisvaldið verður að koma að málinu. Það væri ekki óeðlilegt að ríkisvaldið hefði forgöngu að því að fara í viðræður við olíufélögin um hvernig skila megi til þjóðarinnar þeim mikla hagnaði sem samráðið hefur fært þeim.

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að forsvarsmenn olíufélaganna hefðu komið og beðist afsökunar á gjörðum sínum. Í nýjasta tölublaði FÍB-blaðsins er ein grein undir yfirskriftinni „Er nóg að segja afsakið?“ Í þeirri grein segir m.a., með leyfi forseta:

„Það er klárt að forstjórar olíufélaganna eru uppvísir að langvarandi og skipulögðu samráði af margvíslegum toga og um hvað eina. Þeir höfðu samráð um verð. Þeir höfðu samráð um skiptingu markaðar. Þeir höfðu samráð um að útiloka erlendan keppinaut frá íslenskum olíu- og eldsneytismarkaði og samráð höfðu þeir meira að segja um léttvæg atriði eins og það hvað gefa ætti starfsmönnum félaganna í jólagjöf. Það liggur orðið ljóst fyrir að þeir stunduðu einbeittir alvarleg lögbrot og það er varla til of mikils mælst að lögbrjótar taki afleiðingum gerða sinna. Ætla mætti því að yfirvöld, fulltrúar almennings sem brotið var á, séu tilbúnir að láta þessa lögbrjóta taka afleiðingum gerða sinna og að þeir sjálfir séu tilbúnir til þess. Svo virðist þó ekki endilega vera. Það er slegið úr og í, fjasað um að ekki megi nú hengja bakara fyrir smið, menn séu saklausir uns sekt sannast o.s.frv.“