131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:49]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hið ólöglega samráð olíufélaganna sem hefur verið til umræðu um hríð hefur ýmsa anga. Einn þeirra anga hefur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir tekið upp. Ég tel hins vegar mikilvægt að menn drepi ekki alvarleika umræðunnar á dreif eða víki of mikið frá meginatriðum hennar.

Ég leyfi mér hér að vitna í frétt á forsíðu Morgunblaðsins 6. nóvember síðastliðinn þar sem vitnað er í ummæli Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, sem þrátt fyrir góð störf sín í borgarstjórn ákvað að segja af sér vegna þátttöku sinnar og tengsla við olíusamráðið. Hann er þar spurður hvers vegna hann gekk ekki út þegar honum var ljóst að hann væri þátttakandi í ólöglegu athæfi. Orðrétt svarar borgarstjóri:

„Sú spurning horfir öðruvísi við þegar horft er til baka heldur en þegar maður er á bólakafi í vinnunni sjálfri. Að hluta til verður að skoða það í þessu pólitíska andrúmslofti. Ég hefði verið að segja öllu valdakerfi landsins stríð á hendur ef ég ætlaði að brjótast út úr olíuviðskiptunum.“

Þarna liggur alvara þessa máls. Munum við, íslenskt samfélag og íslenskt réttarkerfi, hafa bolmagn til að gera eins og borgarstjóri nefnir í þessu viðtali, til þess að segja öllu því valdakerfi landsins stríð á hendur; valdakerfi helmingaskiptareglu Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem við höfum búið við undanfarin ár? Þar er alvarleiki málsins. Munum við hafa burði til að segja þessu valdakerfi landsins stríð á hendur?

(Forseti (HBl): Ég vil minna hv. þm. á að samkvæmt 58. gr. þingskapa má eigi lesa upp prentað mál nema með leyfi forseta.)