131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:54]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Viðbrögð ráðherra og fulltrúa stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, valda mér miklum vonbrigðum. En þau koma mér ekki á óvart. Þau eru í anda þess sem því miður hefur verið á umliðnum áratug.

Rifjum það upp að það hefur verið í pólitísku skjóli stjórnarflokkanna sem þetta samráð, mér liggur við að segja þetta glæpsamlega samráð, hefur átt sér stað. Það er hárrétt sem fram hefur komið að á þeim sama áratug hafa sömu stjórnarflokkar haldið Samkeppnisstofnun í herkví. Sú stofnun hefur aldeilis ekki verið efst á vinsældalista stjórnarflokkanna í þessum sal eða utan hans. Höldum því til haga.

Það er fullt tilefni til þeirrar umræðu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur hér haft frumkvæði að. Þau viðbrögð stjórnarliða að drepa málinu á dreif og gera það flóknara en það er er þeim ekki til lyftingar. Hér hafa verið ofteknir skattar, um það verður ekki deilt. Það er auðvitað ekkert svar til bensínkaupenda og bíleigenda síðasta áratugar að það sé búið að eyða þessum peningum. Hvernig yrði mönnum við ef skattyfirvöld svöruðu eðlilegum athugasemdum þeirra um oftekna skatta með því að segja: Nei, fyrirgefið, það er bara búið að eyða þessum peningum í ríkissjóði. Það er ekki hægt að svara með þeim hætti.

Vissulega er málið víðtækt og sumpart flókið, ef menn vilja gera það þannig, en ég vil vekja athygli á enn einum þætti þess sem menn hafa haft á sérkennilegar skoðanir. Það eru þau væntanlegu viðurlög sem olíufélögunum verður gert að greiða, hvort sem það verða 2 milljarðar kr. eða 3 milljarðar kr. Sumir hafa haldið því fram að það mundi renna beint út í verðlagið og sé ekki til neins að refsa eða sekta þessi félög.

Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra svaraði því líka hvort það væri jafnflókið mál að tryggja að þeir fjármunir, sem munu sannarlega renna í ríkissjóð, komi í vasa þeirra neytenda sem verst hafa orðið úti, þeirra sem notað hafa vegina og bílana í landinu. Þannig ber allt (Forseti hringir.) að sama brunni, herra forseti. Það er tilhneiging til að gera málið flóknara en það er.