131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[16:00]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er enginn í vörn í þessu máli nema þá ef til vill háttvirtur málshefjandi, sem er á algjörum villigötum í málflutningi sínum, enda hafa undirtektirnar í umræðunni leitt það í ljós. Það tekur ekki nokkur maður í þessum sal undir málflutning hennar vegna þess að hann er ekki á rökum reistur. Það er heila málið eins og ég reyndi nú að útskýra í ræðu minni.

Það er ekki hægt að halda því fram að ríkið hafi ávinning af því sem þjóðin öll tapar á, þ.e. ólögmætu samráði. Ef hv. þm. vildi reikna dæmi sitt til enda — sem er reyndar fljótt á litið meingallað, eins og það blasir við mér — af hverju tekur hún ekki inn í það aukakostnað ríkissjóðs vegna lögreglubílanna, vegna skipakosts ríkisins eða annarra bílaflota sem ríkið rekur, inn í dæmi sitt? Ef það er þannig að almennt bensínverð hafi hækkað vegna samráðs olíufélaganna, skyldi þá ekki ríkið hafa þurft að greiða hærra verð en ella? Af hverju reiknar ekki þingmaðurinn þetta líka?

Málið er ekki svona í pottinn búið. Það er ekki svona einfalt. Það er ekki hægt að skila til baka sköttum eða gjöldum sem tekin hafa verið með kerfisbundnum hætti af olíuvörum til einstakra neytenda.

Hvað með þá sem ekki eru lengur á meðal vor en keyptu sér bensín á árunum 1993–2001? Á að skila til þeirra eða dánarbúa þeirra ofgreiddu bensíngjaldi? (JóhS: Þetta er nú útúrsnúningur hjá ráðherra.) Ég er bara að varpa ljósi á það, hv. þingmaður, á hve miklum villigötum þessi málflutningur er. (GÁS: Einu sinni í ríkissjóð, alltaf í ríkissjóði.) Hún er á miklum villigötum. Þingmaðurinn er í mikilli vörn með það að hafa hafið máls á þessu og fær ekki stuðning hér í salnum.

Hún gerir því miður lítið úr alvarlegu máli með því að leggja það upp eins og gert hefur verið. Það er því miður niðurstaða þessarar umræðu.