131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[16:03]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hóf áðan umræðu sem er mjög athyglisverð og hefur hleypt nýju lífi í umræðuna um fjáraukalögin sem eðlilegt er. Hann velti fyrir sér nýgerðum kjarasamningi sveitarfélaga við grunnskólakennara og dró upp þá mynd að ef þeir yrðu yfirfærðir á aðra kjarasamninga í þjóðfélaginu mundi það stuðla að ójafnvægi í efnahagsmálum eða að það yrði kollsteypa, eins og hv. þingmaður tók til orða.

(Forseti (BÁ): Það er nokkur ókyrrð í þingsal og hliðarherbergjum. Ég bið hv. þingmenn að gefa ræðumanni færi á að flytja mál sitt.)

Ég þakka hæstv. forseta.

Allnokkur viðbrögð urðu við ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar í framhaldi af sjónarmiðum hans. Ég vildi aðeins blanda mér inn í þá umræðu og reifa sjónarmið mín til þessa máls.

Fyrst vil ég fjalla aðeins um kjarasamninga grunnskólakennara. Þeir markast auðvitað af samningum sem gerðir voru síðast. Það er augljóst að sá vandi sem við var að glíma í þeim samningaviðræðum sem staðið höfðu yfir mánuðina á undan, þeir erfiðleikar sem menn áttu við að stríða, áttu að nokkru leyti rót sína að rekja til þeirra samninga. Málið var því kannski ekki að öllu leyti tengt almennum launatölum heldur líka skipulagi og formi á starfinu.

Annað atriði sem hlýtur að hafa snert kjarasamningana og kennarar hljóta að hafa tekið mjög alvarlega er skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá því í ágúst síðastliðnum sem dró það fram að arðsemi af kennaramenntun væri núll. Hún dró það fram að þeir sem eyða þremur árum í háskólanámi við að afla sér kennaramenntunar geti ekki vænst þess að með menntuninni auki þeir tekjur sínar meira en svo að það rétt dugi til að greiða kostnaðinn við að afla sér hennar. Þess vegna fær Hagfræðistofnun út þá niðurstöðu að arðsemi kennaramenntunar sé núll.

Það er hrikalegur dómur fyrir þá sem hafa valið sér kennslu sem ævistarf og varið árum í að mennta sig til þess, að menn skuli reikna það út að engin arðsemi sé af menntun þeirra. Því er eðlilegt að menn hafi haft það á bak við eyrað við kröfugerðir og í kjarasamningaviðræðum sem fylgdu í kjölfarið.

Ég vil þó benda á að sú breyting sem væntanleg er frá ríkisstjórninni, um að lækka endurgreiðsluhlutfall námslána, hlýtur að breyta þessum útreikningum. Árleg greiðsla hvers og eins lántakanda minnkar sem nemur einu prósenti af árstekjum. Ég hygg að ef málið væri endurreiknað í því ljósi yrði niðurstaðan betri og vonandi kemur út, ef þeir reikningar eru endurgerðir með þeirri breyttu forsendu, að það sé þó einhver arðsemi af kennaramenntun. Við ákvörðun á þeim atriðum sem ráða mati á þessum stærðum verða menn að taka tillit til þess að það skili einhverju að leggja á sig að ganga menntaveginn.

En burt séð frá þeim samningum, sem ég ætla ekki að hafa fleiri orð um, vil ég velta fyrir mér spurningunni um hver áhrifin yrðu ef kauphækkanir í kjarasamningi grunnskólakennara væru yfirfærðar á alla aðra kjarasamninga, bæði þá sem á eftir að gera og svo þá sem búið er að gera. Niðurstaða mín er í stuttu máli sú að ég er nokkuð sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að því leyti. Ég held að það yrði mjög tvísýnt um stöðugleikann í efnahagsmálum ef það mundi gerast. Ég teldi mjög vafasamt að menn stæðu það af sér og héldu sjó í efnahagsmálunum með svo miklum kaupmáttarbreytingum, eða kauphækkunum öllu heldur því að það er svo önnur saga hvort það leiddi til kaupmáttaraukningar.

Við erum í umhverfi sem við áttum að sumu leyti von á vegna ákvarðana um uppbyggingu stóriðju á Íslandi. Menn vissu að af þeim ákvörðunum leiddu miklar framkvæmdir sem mundu reyna mikið á þanþol efnahagslífsins og mundu tímabundið valda miklum viðskiptahalla, mikilli eftirspurn eftir vinnuafli og hagvexti. Við vissum að það mundi reyna verulega á stöðugleikann í efnahagslífinu. Þetta vissum við þegar við tókum ákvörðun um að ráðast í atvinnuuppbyggingu í þessari atvinnugrein.

Það hefur í sjálfu sér ekkert komið okkur á óvart í þeim efnum. Menn settu fram þau pólitísku markmið á síðasta ári, fyrir síðustu alþingiskosningar af hálfu beggja stjórnarflokkanna, að tefla fram hugmyndum um lækkun skatta. Það var ekki bara vegna þess að menn sæju það fyrir að ríkissjóður mundi fá auknar tekjur, vegna hins mikla hagvaxtar á þessum framkvæmdatíma og svo að nokkru leyti líka í framhaldi af því þegar rekstur væri hafinn með nýjum útflutningi, heldur líka til að stuðla að hófsömum kjarasamningum á þessum tíma, á þeim tíma sem svo mikil þensla gengur yfir.

Með því að leggja fram hugmyndir um að lækka skatta var boðuð sú pólitíska stefna að menn ætluðu sér að auka kaupmáttinn á kjörtímabilinu, fremur að lækka skattana en að hækka almennt kaup. Þetta var hin pólitíska lína á bak við þessi sjónarmið sem báðir stjórnarflokkarnir settu fram fyrir síðustu kosningar og fór síðan inn í stjórnarsáttmálann. Ég vek athygli á því að það stendur í stjórnarsáttmálanum um skattalækkanirnar að þær verði nánar ákveðnar í tengslum við gerð kjarasamninga.

Hvers vegna skyldi það vera orðað þannig? Vegna þess að menn vilja tryggja hóflegar kauphækkanir við gerð kjarasamninga og bjóða skattalækkanir til að svo megi verða. Með hóflegum kauphækkunum og skattalækkunum ná menn samanlagt töluverðum kaupmáttarbata öll árin á þessu kjörtímabili, eða til 2008 eins og kjarasamningar ná til. Þetta var efnahagsstefnan sem ríkisstjórnin lagði upp með og hefur unnið eftir. Það er ekkert óeðlilegt við það. Það er þvert á móti fremur skynsamleg leið til að hafa stjórn á þenslunni á þessum tíma.

Menn geta hins vegar ekki vænst þess, og það hefur ekki verið okkar mat, að hvort tveggja gæti gengið eftir, umtalsverðar kauphækkanir og skattalækkanir. Ef það gerist að almenn þróun í kjarasamningum verður þannig að kauphækkanir verða miklu meiri en menn væntu þá finnst mér hitt í miklum vafa, hvort rétt sé að hrinda í framkvæmd áformum um skattalækkanir eins og þær eru boðaðar. Samanlögð áhrif af hvoru tveggja eru það mikil að það er vafi á að efnahagslífið standist slíkar breytingar og óvíst að stöðugleikinn haldist. Með því værum við að tefla efnahagsstöðugleikanum í tvísýnu, ef við fylgdum tiltölulega miklum kauphækkunum eftir með töluvert miklum skattalækkunum líka. Það mætti segja við slíkar aðstæður að verið væri að hella olíu á eld.

Ég dreg þetta fram, herra forseti, til að undirstrika efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Hún hefur byggst á þessari greiningu stöðunnar og tilgangi þess að bjóða fram skattalækkanir, þ.e. til að tryggja hófsamar kauphækkanir. Þess vegna er ég að mörgu leyti sammála því sem fram kemur hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Ef við höldum okkur við þau áform sem ákveðin eru í stjórnarsáttmála en kauphækkanir ganga upp, eins og við sjáum í þeim tölum sem eru í kjarasamningi grunnskólakennara, þá er mikil hætta á að efnahagsstöðugleikinn haldist ekki. Það er nefnilega heilmikið til í því sjónarmiði hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Þess vegna er eðlilegt að hann flytji ræðu eins og hann gerði, og reyndar fleiri stjórnarþingmenn. Reyndar ættu allir þingmenn að tala fyrir sjónarmiðum og aðgerðum sem tryggja efnahagslegan stöðugleika.

Hver sá sem talar fyrir aðgerðum sem kollvarpa stöðugleikanum er ekki ábyrgur í málflutningi sínum að mínu mati. Menn geta auðvitað haft mismunandi skoðanir á því hverjar aðgerðirnar eigi að vera en menn verða þá að leggja þær saman, hverjar svo sem þær eru, og rökstyðja að niðurstaðan sé þannig að efnahagslegur stöðugleiki sé tryggður. Ef ekki er efnahagslegur stöðugleiki er verðbólga og ef verðbólga fer af stað ráðum við ekkert við ástandið, þá fá menn engan kaupmáttarbata úr úr aðgerðunum og menn standa verr eftir en áður vegna þess að skuldirnar hækka. Menn hafa enga kaupmáttaraukningu í tekjum sínum en menn hafa hærri skuldir og af þeim hafa menn hærri greiðslubyrði. Ef verðbólgan fer af stað tapa allir. Það getur enginn grætt á henni — nema kannski bankarnir. Græða þeir ekki nóg um þessar mundir, þurfum við að tala fyrir því að þeir auki gróða sinn?

Það er fullkomin ástæða til að taka stöðuna alvarlega. Þá þurfum við að skoða að hvaða leyti staðan er núna öðruvísi en við áttum von á. Það eru nokkur atriði sem eru öðruvísi, þau eru að sumu leyti á verri veginn og þau kalla á að menn endurmeti málið í heild. Ég vil nefna fáein atriði.

Í fyrsta lagi eru útlán bankanna miklu meiri en menn áttu von á. Síðustu tvö árin hafa útlánin vaxið með ævintýralegum hraða, erlend lán tekin og endurlánuð innan lands. Peningamagnið í umferð hefur blásið út og fyrir vikið möguleikar manna til að gera ýmislegt sem þá lystir. Það er mikið áhyggjuefni og menn geta ekki litið fram hjá þessu, það verður að endurmeta stöðuna og efnahagsstefnuna í ljósi þessarar miklu þenslu í útlánum.

Í öðru lagi hefur bættur efnahagur bankanna leitt til þess að þeir geta boðið lántakendum sínum miklu hagstæðari lán en þeir gerðu áður, hærri lán á lægri vöxtum. Það hefur komið mjög hratt yfir á þessu ári, og að sumu leyti í kjölfarið á áformum um 90% lán úr Íbúðalánasjóði sem líka gengur eftir. Þessi auknu útlán á lægri vöxtum koma út fyrir fólk sem kaupmáttaraukning og hafa í raun og veru sömu áhrif og skattalækkun eða kauphækkun. Það sáum við ekki fyrir, að lántakendur hefðu þetta rýmri fjárráð en þeir höfðu fyrir þessa breytingu. Við þurfum að taka mið af þessu, að fólk hefur þegar fengið kaupmáttaraukningu í gegnum útlánin og mun svo taka meira á næstu árum eða mánuðum. Það mun spýta miklu í einkaneysluna sem hefur þó verið mikil fyrir og ýta undir vaxandi þenslu, ýta undir viðskiptahalla og þrýstinginn á gengið. Þetta er með öðrum hætti en við áttum von á á síðasta ári.

Í öðru lagi hafa áform um stóriðjuuppbyggingu aukist, þ.e. þau eru meiri núna en við töldum fyrir einu eða tveimur árum. Það er verið að ráðgera meiri stækkun í Hvalfirði en menn höfðu áður gert ráð fyrir, það er gert ráð fyrir stækkun í Straumsvík og menn eru á fullu að ná samningum um nýtt álver sem á að vera á Norðurlandi. Þetta eru nýjar framkvæmdir sem voru ekki inni í plönum okkar. Þær hafa líka sitt að segja til að viðhalda hagvextinum, viðskiptahallanum og þrýstingnum á gengið.

Ef við skoðum stöðuna með þessum breytingum er alveg augljóst mál að ríkisstjórnin verður að endurmeta stöðuna til þess að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Ég skildi málflutning hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar svo að hann væri auðvitað að tala fyrir því að þessar kauphækkanir færu ekki yfir alla kjarasamninga, hann var að draga upp varnarlínu til að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Ég tel að þingmaðurinn sé á réttri leið í þeirri vörn vegna þess að það er vörn fyrir alla, það er ekki bara vörn fyrir suma gegn öðrum heldur er það vörn fyrir almannahag.

Hvað stoða kauphækkanir í kjarasamningi ef verðbólgan étur þær upp jafnharðan? Vegna þess að staðan er öðruvísi að nokkru leyti en við gerðum ráð fyrir þegar línurnar fyrir efnahagsstefnuna voru lagðar á síðasta ári er verðbólgan líka hærri en við áttum von á. Síðustu 12 mánuði er verðbólgan 3,8%. Það var ráðgert að hún yrði ekki nema 3% á þessu ári.

Ef við tökum verðbólguhreyfingar síðustu þriggja mánaða er verðbólgan 5,7% miðað við heilt ár. Hún er á uppleið og getur farið yfir 6% fyrr en varir. Við skulum muna eftir reynslunni frá árunum 2001 og 2002 þegar að sumu leyti svipaðar aðstæður leiddu til þes að verðbólgan hrökk í gang, fór upp í u.þ.b. 10% þegar mest var og var að meðaltali á árinu 2001 6,4% og á árinu 2002 5,2%. Það er mikil verðbólga.

Þó að ég sé ekki að spá því að menn ráði ekkert við ástandið ef verðbólgan rýkur upp við það sem gæti gerst, að gengið færi að falla eins og það gerði á árinu 2000, mundi engu að síður taka töluverðan tíma að ná tökum á henni, ná verðbólgunni niður og þegar upp væri staðið væru allir verr settir en áður vegna mikillar skuldsetningar heimilanna. Þetta er staða sem við skulum gera allt sem í okkar valdi stendur til að reyna að koma í veg fyrir að komi upp.

Þess vegna tel ég að menn þurfi að endurmeta ákvarðanir sínar í ljósi stöðunnar með það að leiðarljósi að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Það sem mér finnst koma til greina að menn breyti er bæði væntanleg uppbygging stóriðjuframkvæmda — hvort menn geti ekki fært yfir á lengri tíma það sem enn er ekki fastmælum bundið og dreifa álaginu þannig á lengra tímabil — og svo líka fyrirhugaðar skattalækkanir, að menn færi þær til þannig að þær a.m.k. auki ekki þrýsting á stöðuna sem þegar er komin upp. Skattalækkun sem leiðir til verðbólgu er auðvitað þegar upp er staðið engin skattalækkun, það getur enginn haft hag af slíku.

Þetta er það sem við þurfum að vega og meta að mínu mati. Við þurfum að taka ákvarðanir sem gera það að verkum að menn ná að halda verðbólgunni í skefjum og tryggja eins og verið hefur síðustu ár vaxandi kaupmátt launa eða ráðstöfunartekna eins og fyrirhugað er að verði á þessu kjörtímabili. Þetta vildi ég draga inn í umræðuna, herra forseti, til að leggja lið þeim þingmönnum sem hér leggja sig fram um að tala fyrir því að varðveita stöðugleikann í efnahagsmálum.