131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[16:24]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að mörgu leyti sammála niðurstöðum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem hann dró saman í lokasetningum ræðu sinnar.

Ég kom hingað aðallega til að ræða við hann um samspil skattalækkana og launahækkana. Hv. þm. sagði að í stjórnarsáttmála hefðu stjórnarflokkarnir talað um að taka ákvarðanir um skattalækkanir að gerðum kjarasamningum. Mál hv. þingmanns var vart hægt að skilja öðruvísi en svo að þarna væri um valkosti að ræða, þ.e. ef gerðir yrðu ákaflega hóflegir kjarasamningar hefði ríkisstjórnin áformað að fara í skattalækkanir.

Ég skildi þetta ekki svo. Ég skildi þetta eins og maður segir á erlendri tungu, „come hell and high water“, skattalækkanir skyldu koma. Þannig hefur t.d. sessunautur hv. þingmanns talað.

Mig langar til að draga hérna fram mismunandi afleiðingar launahækkana annars vegar og hins vegar skattalækkana á kjör þeirra manna sem urðu uppspretta þessarar umræðu, grunnskólakennara. Ef þau hefðu látið sér nægja skattalækkanir og engar kauphækkanir hefðu þau staðið uppi með sem svaraði á einum mánuði andvirði eins bleyjupakka, 1.900 kr. á mánuði. Það er það sem grunnskólakennarar hefðu fengið í sinn hlut ef þau hefði látið sitja við skattalækkanir einar. Með hliðsjón af því hljóta menn að skilja að það einfaldlega er ekki nóg, það er ekki hægt að bjóða mönnum upp á það. Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar eru þannig fram settar að ef þær verða að veruleika mun meira en helmingurinn af þeim renna í vasa þess fjórðungs skattgreiðenda sem hefur hæstar tekjur. Það er einfaldlega af þeirri ástæðu sem skattalækkanirnar geta aldrei komið í staðinn fyrir kauphækkanir til þeirra sem eru fyrir neðan miðju launaskalans.