131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[16:33]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Umræðan hér um fjáraukalögin hefur farið í að ræða um ýmsa aðra þætti sem tengjast þeim, eins og kjarasamninga og stöðu og þróun í efnahagsmálum. Sérstaklega hefur verið rætt um nýafstaðna kjarasamninga sem kennarar og sveitarfélög hafa gert sín á milli.

Að sjálfsögðu eru allir sammála um mikilvægi stöðugleika efnahagslífsins og jafnframt að hagvöxtur sé raunsannur. Hann er í rauninni grundvöllur stöðugleikans, að aukin verðmætasköpun sé virkilega í þjóðfélaginu og hún er síðan grunnur efnahagslegrar velferðar og stöðugleika. Ég held að mjög mikilvægt sé að menn hafi það hugfast því að menn falla svo fljótt í gryfju um tölulega þróun. Hagvöxtur sem byggir á því að skuldsetja eignir þjóðarinnar sem byggir á því að ná fjármagni í umferð með aukinni skuldsetningu án þess að bein og varanleg verðmætasköpun komi á móti er enginn raunhagvöxtur, heldur bara blekkingarhagvöxtur. Því miður er stór hluti hagvaxtar okkar hér í dag blekkingarhagvöxtur.

Aðaltekjustofn ríkissjóðs nú er skattlagning viðskiptahallans sem vex. Það hlýtur að vera áhyggjuefni. Hann verður ekki til af sjálfu sér. Hann verður til á grundvelli efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Það er hún sem ræður hvert fer, hvert stefnir í efnahagsmálum, í atvinnumálum og hvernig hinn raunverulegi hagvöxtur er byggður upp.

Hér hefur verið rætt um kjarasamningana sem var skrifað undir í gær. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fór hér mikinn í að kenna samningsaðilunum um að þeir væru að stefna efnahagslegum stöðugleika samfélagsins, ekki bara í tvísýnu heldur í mikinn voða. Hann sá varla til sólar fyrir þeim voða sem fram undan væri. Það má vel vera að út frá sjónarhóli og forgangsröðun hv. þingmanns geti það verið svo. Ef maður setur allar breytur fastar nema eina, kjarasamninga við kennara, hefur sú breyta áhrif. Hv. þm. vitnaði mjög í samninga Alþýðusambands Íslands og annarra launþegasamtaka sem tengjast þeim samtökum og þeim rauðu strikum sem þar hafa verið sett til að taka megi upp þá samninga. Það er í sjálfu sér ekkert nýmæli að sett séu rauð strik í kjarasamninga og þá megi sjálfkrafa taka upp ef verðbólga fer yfir eitthvert ákveðið mark. En það eru ekki bara laun einstakra stétta sem hafa áhrif á þennan stöðugleika. Þótt það væri svo má samt spyrja hvaða stéttir eigi að taka á sig stöðugleikann. Allar, segir hv. þm. Já, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði mikið einmitt úr því að tillögur ríkisstjórnarinnar um lækkun á tekjuskatti hefðu átt að koma sem mótvægi við launahækkanir. Lítum aðeins betur á það.

Hvað ætli ASÍ segi um skattalækkanir til umbjóðenda sinna og þær kjarabætur sem þær gefa? Er ekki innan vébanda þeirra tekjulægsta fólkið? Og koma skattalækkanir eitthvað þessu fólki til góða eða öðru fólki sem er með lágar og miðlungstekjur? Nei, skattalækkanir koma þessu fólki ekki til góða en þær koma gæluhópum ríkisstjórnarinnar til góða, þ.e. þeim sem hafa langhæstar tekjurnar. Skattalækkanirnar koma þeim til góða. Það er hagur þess fólks sem talsmenn ríkisstjórnarinnar verja hér. Þessi hópur á ekki að taka á sig byrðarnar eða ábyrgðina á efnahagslegum stöðugleika. Nei, það er lágtekjufólkið sem á að gera það, lágtekjufólkið sem ekki fær aukna kaupmáttargetu í formi lægri skatta vegna þess að það er með svo lágar tekjur.

Báðir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson, talsmenn ríkisstjórnarinnar, hafa talað hér fyrir hagsmunum þeirra sem hæstar tekjur hafa.

Ég hefði viljað heyra frá ASÍ-forustunni að meir og harðar væri ráðist á þessa stefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur grundvallaráhrif á verðbólguna og efnahagsforsendur í þjóðfélaginu. Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár upp á 4–5 milljarða kr. sem koma aðeins tekjuhæsta fólkinu til góða og áform um enn frekari skattalækkanir á næstu 2–3 árum sem koma líka aðeins tekjuhæsta fólkinu til góða stefna efnahagsstöðugleikanum í voða og færa byrðarnar, ábyrgðina, af hinum tekjuhærri til hinna tekjulægri.

Þessari stefnu erum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði andvíg. Það er á grundvelli þessa og hagsmuna þessa hóps sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ræðst á samninga og kjör kennara.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson minntist á að í stjórnarsáttmálanum stæði að það ætti að meta skattalækkunaráformin í ljósi þróunar á launamarkaði og efnahagsmála almennt. Ég leyfi mér að spyrja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson: Styður hann þá tillögu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að nú grípi ríkisstjórnin þegar í stað inn í og lýsi því yfir að horfið verði frá þessum vanhugsuðu skattalækkunum til að leggja sitt af mörkum til að tryggja efnahagslegan stöðugleika og í stað skattalækkana til hinna hæstlaunuðu komi möguleikar á leiðréttingu á kjörum til þeirra sem lægst hafa launin? Það væri aðgerð í anda jöfnunðar.

Ég hefði viljað heyra enn ákveðnar hjá ASÍ að þeir segðu við ríkisstjórnina: Þessar skattalækkanir ógna rauðu strikunum. Burt með þær. Þessar skattalækkanir koma ekki umbjóðendum okkar til góða. Mér hefði fundist að þeir ættu að segja það og koma harðar fram með það í staðinn fyrir að koma með yfirlýsingar um að nauðsynlegt sé að draga úr ríkisframkvæmdum, vegaframkvæmdum. Bíddu við, vegaframkvæmdir eru einmitt brýnar fyrir aukinn hagvöxt á Vestfjörðum, og úti um allt land eru vegaframkvæmdir eitt það brýnasta til þess að styrkja og efla atvinnulíf.

Ríkisstjórnin velur að lækka skatta og skera niður vegaframkvæmdir, á Vestfjörðum væntanlega og úti um allt land. Það er ekki til hagsbóta fyrir það fólk sem lægstar hefur tekjurnar, það get ég fullyrt.

Hverjum öðrum er hlíft af hálfu ríkisstjórnarinnar? Þeim hóp sem fær tekjur sínar í gegnum arðgreiðslur og fjármagnstekjur. Honum er hlíft. Stór hópur hér hefur miklar tekjur af fjármagni sínu og greiðir aðeins 10% í skatt. Á sama tíma greiða launamenn nærri 40%.

Er þetta sanngjarnt? Hefði ekki verið nær hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að segja: Við munum hækka fjármagnstekjuskatt og gefa þannig svigrúm til launahækkana hjá lægstlaunaða fólkinu? Það er sjálfsagt í fjármagnstekjuskattinum að vera með ákveðið lágmark skattfrjálst en þegar það fer yfir ákveðið mark á að mínu viti að skattleggja það sem líkast almennum launatekjum. Nei, þessu fólki er hlíft. Það á ekki að axla hinar samfélagslegu byrðar. Nei, það er láglaunafólkið, fólk sem er með lægstu tekjurnar, lágar og miðlungstekjur sem á að bera ábyrgð á þessum stöðugleika. Það fólk á núna ekki að hreyfa sig til þess að kjör þess standi a.m.k. til jafns við verðlagsþróun í landinu.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum til að skattar séu notaðir sem stýritæki á annan veg, séu notaðir til jöfnuðar en ekki til þess að auka misrétti eins og þessi ríkisstjórn gerir.

Stöðugt hefur verið klifað á þessum stóriðjuframkvæmdum, að ekki megi hækka laun vegna þenslunnar í þeim. Meira að segja var troðið inn í frumvarp um gerðardóm á kennara — nauðsynlegt líklega — með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að fylgja aðhaldssamri efnahagsstefnu til að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu á næstu árum þrátt fyrir aukin umsvif vegna stóriðjuframkvæmda.“

Í öllu fjárlagafrumvarpinu stendur, og oft á hverri síðu, að það verði að skera þetta og hitt niður vegna stóriðjuframkvæmda sem hefur sýnt sig að skila fyrst og fremst atvinnu á meðan á uppbyggingu stendur, og þó mjög afmarkaðri. Þegar henni er lokið er meira að segja arðsemi stóriðjunnar afar lítil. Við sjáum í stóriðjuframkvæmdunum víða, t.d. fyrir austan, að aðeins lítill hluti þess vinnuafls sem gert var ráð fyrir í upphafi að þar ynni að byggingarframkvæmdunum er íslenskur þótt til stæði að stór hluti yrði það. Meginhluti þess vinnuafls sem þar er á ferðinni er tímabundið ráðið erlent vinnuafl og það gerir hinu opinbera, eftirlitsaðilum bæði ríkisins og launaþegahreyfingarinnar, erfitt fyrir með að fylgja eftir að þetta fólk búi við mannsæmandi kjör. Ruðningsáhrif þessara stóriðjuframkvæmda eru svo mikil að öll lítil og meðalstór fyrirtæki ráða ekki við samkeppnina við þetta ofurfjármagn og verða að leggja upp laupana. Ekki styrkir það atvinnuna.

Gegnum þennan texta allan er ljóst að sú stefna sem ríkisstjórnin fylgir í atvinnumálum leiðir til skerðingar á möguleikum þessa fólks til að sækja sér laun. Hún leiðir til þess að það verður að skera niður velferðarþjónustu. Sú er stefna þessarar ríkisstjórnar í hnotskurn.

Eitt vildi ég líka spyrja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson um af því að hann er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn efnahagsmála — það virðast vera nógir peningar á markaðnum, bankarnir skila meiri arði en þá dreymdi um: Hefur það engin áhrif á þensluna í efnahagslífinu? Bíddu við, hvernig var með stýritæki Seðlabankans til að hafa stjórn á hlutunum? Seðlabankinn hefur það stýritæki að hækka og lækka svokallaða stýrivexti, viðmiðunarvexti í viðskiptalífinu. Þeir ná þó aðeins til hins innlenda markaðar, til þess fjármagns sem er tekið að láni innan lands og sem er aðeins um helmingur af því lánsfjármagni sem í umferð er. Hitt fjármagnið sem er hér í umferð er á erlendum vöxtum. Hverjir greiða vextina af því fjármagni sem Seðlabankinn er að hækka stýrivextina á? Það eru lítil fyrirtæki, sprotafyrirtæki, einstaklingar, þau fyrirtæki sem almennt hafa ekki aðgang að erlendu lánsfé, vaxtarbroddurinn í íslensku atvinnulífi. Honum er refsað í þessari stefnu ríkisstjórnarinnar með hækkun á vöxtum. Er vit að ráðast þannig að grasrótinni í íslensku atvinnulífi?

Hvers vegna lækkaði Seðlabankinn bindiskyldu viðskiptabankanna um síðustu áramót? Var það einhver nauðsyn? Vantaði fjármagn í umferð? Tugir nýrra milljarða fóru í umferð. Var þörf á því? Mat mitt er að alls ekki hafi verið þörf á því.

Ég leyfi mér að spyrja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson: Er hann sammála þeirri efnahagsstjórn Seðlabankans að lækka bindiskylduna og hleypa þannig fjármagni út í samfélagið sem ekki var þörf á á þessum tíma? Það er mikilvægt að halda utan um ýmis önnur efnahagsstjórnunartæki en þau að ráðast á laun þeirra sem hafa lægstu kjörin eins og þessi ríkisstjórn virðist gera.

Herra forseti. Það er mjög eðlilegt að fólki svíði líka að heyra um hóp manna í samfélaginu sem virðist hafa eins konar sjálftökurétt í launum, eru komnir með svimandi háar tekjur. Menn telja þær í milljónum og tugmilljónum króna á mánuði. Tekjubilið er að aukast stórkostlega í þessu samfélagi. Við heyrum þetta koma upp á yfirborðið þegar gerðir eru starfslokasamningar við einstaka framkvæmdastjóra. Svo geta hv. þm. sagt við kennara: Þið verðið að axla ábyrgðina á stöðugleikanum. Þið megið ekki krefjast launahækkunar því að við þurfum að hygla þessum umbjóðendum okkar sem eru burðarásar flokkanna.

Herra forseti. Það er dapurlegt að heyra hvernig talsmenn ríkisstjórnarinnar ráðast að kjarabaráttu grunnstétta samfélagsins eins og ráðist var hér að samningum kennara. Það er líka dapurt að heyra að það skuli vera markmiðið að halda sveitarfélögunum sem bera uppi stóran hluta af samfélagsþjónustunni í fjárhagslegri úlfakreppu, halda niðri tekjustofnum þeirra og gera þeim ókleift að axla þau verkefni sem þeim eru falin samkvæmt lögum.

Ég tel eitt brýnasta málið nú að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna þannig að þau geti staðið undir þeirri velferðarþjónustu sem til er ætlast af þeim og greitt starfsmönnum sínum góð laun. Við munum síðar í umræðunni, bæði um lokafrumvarp fjáraukalaga og einnig við 2. umr. fjárlaga, taka þessi mál enn betur fyrir. Ég fordæmi þau orð sem hér hafa fallið um að kennarar og sveitarfélögin ógni stöðugleika og framtíð þessa samfélags. Það er stefna ríkisstjórnarinnar sem er ógnin, henni þurfum við að breyta og við þyrftum að koma þessari ríkisstjórn frá.