131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[16:52]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er kannski ástæða til að byrja á því að rifja upp að hér er til umfjöllunar frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004 og ýmsar aukafjárveitingar í því frumvarpi. Þó að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi með ræðu sinni beint umræðunni í almenna efnahagsumræðu og frá fjáraukalögunum í sjálfu sér er það ekki einkennilegt út af fyrir sig. Það sýnir sig auðvitað í þessum fjáraukalögum að hverri krónu sem kemur inn vegna tekna af góðæri eða þenslu umfram spár er eytt jafnharðan í vanáætlanir fjárlaga frá fyrra ári. Þannig hefur ástandið verið viðvarandi í ríkisfjármálunum ár eftir ár, fjárlög eru sett fram með fallegri glansmynd en það er ekkert að marka það sem í þeim stendur því að fjáraukalögin og ríkisreikningurinn kollvarpa því sem sett var fram.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson veit auðvitað giska vel að þetta er sá vandi sem við blasir í efnahagsmálum þjóðarinnar en ekki kjarasamningar grunnskólakennara. Það er beinlínis hlægilegt að heyra hv. þingmann reyna að gera 5, 6 eða 7% hækkun grunnskólakennara umfram almenna samninga á fjögurra ára tímabili að því sem hér muni ráða úrslitum um stöðugleika í landinu. Það er langt því frá að slíkar upphæðir muni skipta þar sköpum.

Ég nefndi töluna 750 millj. kr. í ræðu minni og hv. þm. efaðist um þá tölu. Hann hefur sjálfur sagt að hækkunin sé 5, 6 eða 7% umfram almenna launaþróun á þessum fjórum árum. Launakostnaður sveitarfélaganna vegna kennara er 15,5 milljarðar. Ég hygg þá að 5% séu nákvæmlega 775 millj. kr., 6% væru þá trúlega um 930 millj. kr. og 7% 1.085 millj. kr. Þessar tölur munu ekki skipta sköpum um stöðugleikann á Íslandi og það veit hv. þm. ósköp vel, enda hefur hann sjálfur lagt fram fjárlagafrumvarp þar sem útgjaldaaukningin til utanríkisþjónustunnar einnar saman nemur þúsund milljónum eða sambærilegri fjárhæð og hér er um að ræða.

Nei, það er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sem hefur ógnað stöðugleikanum og hefur gert það að verkum að sveitarfélögin urðu að semja um verulega hærri kjarabætur við kennara en þau ætluðu sér. Þegar tilboð sveitarfélaganna lá fyrir tóku kennarar í opinberri umræðu verðbólgutölur síðustu 12 mánaða upp á 3,8%, verðbólguspár óháðra fjármálastofnana upp á allt að 6% á samningstímanum og sögðu að í þessum tilboðum fælust engar kjarabætur því að það væri fyrirséð að ríkisstjórnin mundi missa tökin, hér mundi verðbólgan éta upp það sem boðið væri þannig að þeir yrðu að fá meira. Hafi kjarasamningar sveitarfélaga við kennara verið dýrari en góðu hófi gegnir eru aðeins lausatök ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálunum og það hvernig hún hefur misst tökin á verðbólguþróuninni undanfarið rótin að því. Það verður hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að horfast í augu við eins og mér fannst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gera með miklum sóma í ræðu sinni.

Það er full ástæða til að spyrja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson hvort hann telji að sú þróun sem verið hefur í verðlagsmálum undanfarið, spár um það að verðbólgan sé að fara upp í allt að 6%, aukinn þrýstingur á launahækkanir, nýgerðir kjarasamningar og þeir kjarasamningar sem fram undan eru kalli ekki á það að ríkisstjórnin endurmeti fyrirætlanir sínar um skattalækkanir. Það er alveg augljóst að ef menn sigla hér með verðbólguna upp í 6% er engin glóra í því að ætla að lækka skatta um hátt í 30 milljarða. Ég vek athygli á tölunni, hátt í 30 milljarða ætla menn að lækka skattana um en býsnast svo yfir því í hinu orðinu að kauphækkanir til kennara sem kannski nema um einum milljarði í efnahag þessarar þjóðar verði sá dropi sem fylli mælinn í efnahagsþróuninni.

Það er auðvitað á engan hátt hægt að tala svona og ég ítreka það sem ég sagði í andsvari mínu, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson getur heldur ekki boðið okkur upp á það að halda hér dómadagsræður sínar um hinar miklu skuldbindingar lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna og ríkisins og þær skuldbindingar sem til verða við kennara vegna þessara samninga, skuldbindingar upp á framtíðina þegar sami hv. þm. er nýlega búinn að standa að því að keyra í gegnum þingið eftirlaunafrumvarp fyrir þingmenn og ráðherra þar sem einstakir starfsmenn fá tugi milljóna í réttindaaukningar og gefnar eru út slíkar ávísanir á framtíðina að engu lagi er líkt. Þeir sem þannig ganga fram í þingsölum geta ekki býsnast yfir því þó að lífeyrisréttindi þeirra sem kennt hafa í grunnskólum landsins síðustu áratugi hækki nokkuð. Sannarlega er það ekki í neinu samræmi við það sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur aukið sín eigin lífeyrisréttindi um með atkvæði sínu í þessum sal. Um þau atriði er hv. stjórnarliðum sæmst að þegja.

Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að hafa komið til umræðunnar. Ég óskaði sérstaklega eftir því vegna þess sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Sigurður Kári Kristjánsson sögðu hér. Þeir töluðu mjög digurbarkalega til sveitarfélaganna og sögðust að vísu tala fyrir sig. Það er ekki hægt að líta svo á að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar og forustumaður Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, tali á Alþingi bara fyrir sig. Þeir töluðu, félagarnir, mjög skýrt um að ekkert þýddi fyrir sveitarfélögin að sækja hingað eitt eða neitt. Nú yrðu þau bara að gera svo vel að skera niður og spara fyrir útgjaldavanda sínum.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem er kannski ekki alveg jafnsmekkvís og kollegi hans, gekk svo langt að segja að það þýddi ekki fyrir sveitarstjórnirnar að koma skríðandi til ríkisvaldsins. Er mér þá ekki alveg ljóst hvort hv. þm. átti við Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóra á Akureyri, Árna Sigfússon, bæjarstjóra í Reykjanesbæ eða Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, þegar hann kaus að draga upp þá mynd af sveitarfélögunum, sveitarstjórnunum og forustumönnum þar að það væru aðilar sem kæmu skríðandi til ríkisvaldsins.

Þetta eru auðvitað mjög alvarlegar yfirlýsingar því að í landinu standa yfir viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um breytingar á tekjuskiptingunni. Í fjárlaganefnd á dögunum upplýstu fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, fulltrúar Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, að þeir teldu að leiðrétta þyrfti tekjuskiptinguna um u.þ.b. 5–6 milljarða árlega — og var það fyrir samningana sem skrifað var undir í gær. Þær viðræður á að leiða til lykta í mánuðinum og það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi hér verið að gefa út tilkynningu um niðurstöðu í þeim viðræðum, hvort fyrir fram sé búið að hafna öllum kröfum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa líka haft áhyggjur af þessu, m.a. í ljósi þess að einungis pólitískir fulltrúar sitja í tekjustofnanefndinni af hálfu ríkisins. Þó að það geri það svo sannarlega af hálfu sveitarfélaganna hafa menn auðvitað haft áhyggjur af því að það væri engin meining á bak við þessar viðræður.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur hér sett af stað mikinn leiðangur um eflingu sveitarstjórnarstigsins og sameiningu sveitarfélaga og það liggur alveg fyrir að fái hæstv. félagsmálaráðherra ekki stuðning Sjálfstæðisflokksins til þess að leiðrétta tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er hæstv. félagsmálaráðherra bara í skógarferð með eflingu sveitarstjórnarstigsins. Ekkert sveitarfélag mun taka að sér aukin verkefni frá ríkinu og það verður sannarlega ekki til að hvetja menn til sameiningar og þess að ráðast í ný verkefni ef hér á enga leiðréttingu að fá.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem hér hefur beðið um andsvar hlýtur auðvitað líka að gera okkur grein fyrir því hvort þessar yfirlýsingar í garð sveitarfélaganna séu bara almennt ergelsi hans yfir lausatökunum sem verið hafa í ríkisfjármálunum, sem við heyrum hér úr ræðustólnum, eða hvort skilja eigi orð hans sem pólitískar yfirlýsingar Sjálfstæðisflokksins og forustumanns hans í fjárlaganefnd á Alþingi. Eigum við að taka yfirlýsingar hv. þingmanns alvarlega eða ekki? Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir umræðuna og fyrir viðræður sveitarfélaganna og ríkisins á næstu dögum og vikum að við fáum alveg skýrt fram frá hæstv. félagsmálaráðherra og hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni hvort það sé staðfastur vilji og skoðun ríkisstjórnarinnar að hér þýði ekkert fyrir sveitarfélögin að koma skríðandi til ríkisvaldsins að biðja um peninga á næstu vikum.