131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[17:07]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan liggur það fyrir að verkefni þeirrar tekjustofnanefndar sem ég minntist á er auðvitað fyrst og fremst að fjalla um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga með tilliti til breyttrar verkaskiptingar.

Í sameiginlegri viljayfirlýsingu sem hefur margsinnis verið rædd úr þessum stól, bæði af þeim sem hér stendur nú og öðrum, viljayfirlýsingu sem félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra og formaður Sambands sveitarfélaga undirrituðu 17. september sl., kemur mjög skýrt fram hvert verkefni þessarar nefndar er.

Á fundum tekjustofnanefndar eru ýmsar hugmyndir reifaðar. Þar hafa komið upp hugmyndir bæði hvað varðar tekjustofna vegna þeirra verkefna sem sveitarfélögin sinna nú þegar en einnig hinna sem varða hugmyndir um ný verkefni. Vinnu nefndarinnar er ekki lokið, hún er í fullum gangi. Verkefnið, til að taka af öll tvímæli um það, hæstv. forseti, er fyrst og síðast að fjalla um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með tilheyrandi tilfærslu tekjustofna, eflingu sveitarstjórnarstigsins, stækkun og fækkun sveitarfélaga.