131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[17:36]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er bara löngun í meiri sögulegan fróðleik sem rekur mig í pontu hingað. Hér var talað um hin skelfilegu ár vinstri stjórnarinnar 1988–1991.

Mig langar til að fá nánari útlistun á þessu. Man hv. þm. Gunnar Birgisson eftir því að á 9. áratugnum var verðbólga að meðaltali 30 af hundraði, 30%? Í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem hann vísar til, þessarar skelfilegu ríkisstjórnar sem hann kallar svo, tókst að ná verðbólgustiginu með svokölluðum þjóðarsáttarsamningum niður í 2–3%. Þar var lagður grunnur að mögulegri uppbyggingu sem því miður var misnotaður. En á þessum árum var dæminu snúið við.

Ég eiginlega kem hingað til að fá upplýsingar hjá hv. þingmanni um hvað það var í stjórnarstefnunni á þessum árum sem var svona skelfilegt að hv. þingmaður tekur þessi djúpu bakföll og andköf.