131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[17:43]

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem hóf þessa umræðu hér um hádegisbilið og kallaði mig sérstaklega til því að hann vildi að ég væri hér sem var sjálfsagt. Nú er sá hv. þingmaður helst hvergi og ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég sakna þess. Ég átti eftir að segja við hann nokkur orð. Svo er einnig með formann hinnar miklu Samfylkingar. Hann er líka horfinn, virðulegi forseti, og helst hvergi. Ég sakna þess því að ég ætla líka að segja við hann nokkur orð.

Þó að þessir miklu foringjar stjórnarandstöðuflokkanna séu nú báðir allt í einu horfnir — enginn veit hvar þeir eru — hlaupast þeir ekki undan þeim spurningum sem fyrir þá hafa verið lagðar. Þeir geta ekki hlaupist undan spurningunum: Hver er stefna og hver er vilji þeirra stjórnmálaflokka sem þeir eru formenn fyrir? Hvað ætla þeir að aðhafast gagnvart þeim tíðindum sem hér hafa orðið? Ætla þeir að styðja það að aðrar stéttir sigli í kjölfar grunnskólakennara og krefjist þar sömu launahækkana og sveitarstjórnirnar urðu við í gær? Ætla þeir að svara þeirri spurningu sem mörgum sinnum hefur verið lögð fyrir þá: Hvaða launþegar eru það á Íslandi sem ekki eiga þá að hækka?

Þó þessir hv. þingmenn feli sig núna og séu báðir horfnir héðan geta þeir ekki hlaupist undan þessu og það verður haldið áfram að spyrja þá þar til þeir svara.

Hins vegar hafa þau tíðindi gerst, virðulegi forseti, að allt í einu er kominn til þings hv. 9. þm. Reykv. s., Ögmundur Jónasson, sem einnig gegnir formennsku í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og eru tíðindi að fá hann í umræðuna og ekki vonum fyrr. Það er ástæða til að spyrja formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hvað er að heyra, hvað er að frétta af kröfugerð Bandalags starfsmanna ríkis og bæja?

Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni hefur ekkert heyrst til þeirra launasamtaka. Ekki orð. Ekki stafkrókur. Hvergi. Þeir hafa þagað og þögnin hefur hrópað. (Gripið fram í: Eins og rjúpan í lynginu.) Eins og rjúpan í lynginu hafa þeir kúrt. En skildi það ekki vera rétt, virðulegi forseti, að tíðinda sé að vænta af þeim vígstöðvum eftir að grunnskólakennarar sömdu, ætli það fari ekki að heyrast eitthvað hljóð úr horni? Það væri fróðlegt að heyra hjá formanni BSRB hvort þau óvæntu tíðindi eiga ekki eftir að gerast að starfsmenn ríkis og bæja reisi allt í einu kröfu um að fá sömu kauphækkun og grunnskólakennarar? Óskaplega kæmi það annars á óvart, virðulegi forseti, ef það gerðist.

Ég hef að vísu haldið því fram að hætta væri á því, en hv. þingmenn hafa komið hver á fætur öðrum og talið mig óþarflega svartsýnan. Ég stæði hér eins og hvalur í ræðustólnum og sæi ekkert nema svart eða væri eins og naut í flagi, ég man ekki hvað var haft á orði, það skiptir ekki máli. Sæi ekkert nema svart. Ekkert nema svartnætti. Ég sæi það fyrir mér helst að þjóðfélagið væri að fara á hvolf. Hv. þingmönnum fannst þetta tíðindi og algjörlega óþarfi af mér að láta svona. Þetta væri allt saman orðum aukið og slík hætta væri alls ekki til staðar, langt frá því.

Þá er betra, virðulegi forseti, ef eitthvað væri til í þeim orðum, að ótti minn væri ástæðulaus. Þetta væri allt hugarburður minn og tilbúningur, það væri engin hætta á ferðum fyrir samfélagið. Engin. Mikið væri nú gott að það sannaðist að ég hefði rangt fyrir mér. Enginn yrði glaðari en ég. Mikið þætti mér vænt um ef ég gæti staðfest síðar að þetta hefði verið allt rangt, ég hefði óvart séð allt svart, en það væri allt misskilningur.

Tíminn einn leiðir í ljós, virðulegur forseti, hver hafði rétt fyrir sér eða rangt. Vonandi hafði ég rangt fyrir mér.

Ég hlýt að ítreka að það er verkefni framtíðarinnar, dagsins í dag og dagsins á morgun, úr því sem komið er, úr því búið er að semja við grunnskólakennara um hærri laun og hærri viðmiðanir en Alþýðusamband Íslands og hinn frjálsi vinnumarkaður, úr því að það er búið hlýtur það að vera meginviðfangsefni okkar að gæta þess og leggja á það alla áherslu að þetta verði einstakur samningur, aðrir samningar við ríkið og bæjarfélög mega ekki vera eins.

Ég vil fá að heyra það frá virðulegum forustumönnum stjórnarandstöðunnar, þó formennirnir séu týndir, þá frá hv. 9. þm. Reykv. s., hvaða afstöðu hann hefur. (JBjarn: En skattalækkanirnar?) Hins vegar, virðulegi forseti, hef ég ekki krafið hv. þm. Jón Bjarnason um nein svör, vegna þess að mér gengur svo illa að átta mig á því hvað hann vildi sagt hafa hvenær sem hann kemur hingað upp. Þess vegna er ég ekkert að biðja hann að koma. (JBjarn: En skattalækkanirnar?)

Það er mjög nauðsynlegt, virðulegi forseti, að stjórnarandstaðan geri sér grein fyrir ábyrgð sinni, átti sig á því að við þessar kringumstæður verða menn vegna allra launþega á Íslandi, vegna framtíðar landsins, vegna alls þess sem menn hafa lagt á sig og fórnað, að vera ábyrgir, jafnt stjórn sem stjórnarandstaðan.

Virðulegi forseti. Hér áður, í 20–25 ár, fékkst ég dálítið við samninga og vil þess vegna leiðrétta hv. þingmenn, Steingrím J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson, um nokkuð af þeim rangfærslum sem þeir sögðu um kjarasamninga. Leiðrétta þá um rangfærslu varðandi ásakanir af minni hendi á grunnskólakennara.

Ég þekki það af langri reynslu að það er algilt í öllum kjarasamningum, það er fyrsta regla sem menn verða að læra, að allir hafa rétt fyrir sér. Allir launþegar hafa alltaf rétt fyrir sér gagnvart því að þeir ákveða einhverja viðmiðun og telja það réttlæti, þess vegna hafa þeir rétt fyrir sér. Viðsemjendurnir hafa líka rétt fyrir sér. Þess vegna koma svo oft upp deilur að báðir aðilar telja sig hafa rétt fyrir sér og trúa því sjálfir og það er rétt.

Önnur reglan sem allir verða að kunna er sú að hreyfiafl kjarabaráttunnar í frjálsu samfélagi er samanburðurinn, eðlilega. Það er ekkert rangt við það. Það er einmitt hið rétta. Menn gera samanburð og gera kröfur. Í sjálfu sér á því aldrei að hneykslast á neinu sem menn láta frá sér í samningum. Það er hver að róa eftir sínu lagi.

Ég vara hins vegar mjög við þegar menn fara í verkföll. Alveg sama hver það er, hvaða starfshópur eða hvaða stétt, verkföll eru mjög varasöm fyrir alla. Það er alveg sama hversu gott fólk það er og vel gert og hraust, menn koma alltaf meira og minna meiddir úr verkföllum. Alltaf. Verkföll geta verið löng. Allir koma helsærðir, mikið særðir út úr verkföllum. Verkföll eru skelfilegur hlutur og mjög mikið áfall fyrir hvert samfélag sem lendir í þeim. Því miður hafa verkföll verið of tíð á Íslandi um langan aldur.

Virðulegi forseti. Í maímánuði sl. þegar sveitarstjórnir landsins lögðu fram kauptilboð um meiri hækkanir en nokkrum hefur verið boðið áður og grunnskólakennararnir svöruðu með því að fara í allsherjarkosningu um verkfall var niðurstaða þeirrar kosningar rússnesk kosning. Allir kennararnir, eða um 97% vildu fara í verkfall. Þá taldi ég einsýnt að nú hefði ógæfan tekið við taumunum og sest undir vagninn og mönnum mætti vera dagljóst hvert stefndi.

Margir hneyksluðust á þeim sjónarmiðum mínum að það ætti að setja þessa hluti í Kjaradóm áður en til verkfalls kæmi. Allir fordæmdu það, bæði félagar mínir í stjórn sem styðja núverandi ríkisstjórn svo og stjórnarandstaðan og kannski mest kennarar. Það er ekkert við því að gera, það er bara svoleiðis. Það vildi enginn taka undir þessi sjónarmið, ég var einn með þau, en ég var líka frjáls af því að halda þeim fram. Ég gerði þetta ekki að ástæðulausu. Ég óttaðist mjög það sem nú er orðinn veruleiki, að þessi þýðingarmikla stétt væri svo sár að það tæki hana mörg ár að láta þau sár gróa. Við höfum reynslu af því og í mörgum löndum Evrópu, t.d. Danmörku, einum þrisvar sinnum á síðustu 10–12 árum, hefur verið þverpólitísk samstaða um það í danska þinginu að setja kjör grunnskólakennara í Kjaradóm og gera ekki samfélaginu það að stéttin færi í verkföll. Ekki endilega vegna kennaranna, heldur vegna nýgræðinganna í samfélaginu, krakkanna.

Virðulegi forseti. Þó margir hafi hneykslast á mér fyrir þær tillögur tel ég það enga goðgát og tel að mörg dæmi sanni að fyrir stéttir, starfshópa, sem eru undir Kjaradómi séu það engir afarkostir. Langt því frá að það séu afarkostir. Þeir hefðu ekkert fengið verri kaupþróun en aðrir, kannski stundum betri, samanber lögregluþjóna og fleiri sem hafa samið um að fá Kjaradóm sem er því marki brenndur að alltaf skuli fylgt kaupþróuninni í landinu og tryggt að þeir fái þá þróun sem um er að ræða. Þetta er enginn afarkostur. Alls enginn.

Það er rangt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ég hafi látið einhverja ábyrgð á hendur grunnskólakennara umfram aðra. Ég hef haldið því fram að öllum starfsmönnum ríkis og bæja bæri að hlýta því að þeir gætu ekki haft aðra launaþróun en fólkið sem vinnur í framleiðslunni í landinu. Ef við gerum þá kröfu til almennings að kaupþróun þar sé þannig að samkeppnishæfni Íslands sé tryggð og kaupmáttur framleiðslunnar ráði kaupþróuninni og gerum kröfu til þess að fólkið í þjónustunni, framleiðslunni og versluninni sýni þá ábyrgð er sjálfsagður hlutur að mínum dómi að gera sömu kröfu til starfsmanna ríkis og bæja, ekki síst vegna þess að þeir starfsmenn hafa miklu víðtækari og sterkari lífeyrisréttindi og eftirlaunaréttindi en launamaðurinn á almennum markaði. Mismunurinn á þessu er orðinn svo skelfilegur að ég óttast að þjóðfélagið geti verið í verulegri hættu vegna hans.

Virðulegi forseti. Við höfum margsinnis rætt um þróun launa. Árið 1997 og u.þ.b. einu sinni til tvisvar á ári eftir það, yfirleitt í kringum gerð fjárlaga, hef ég varað við því samningsumhverfi sem er hjá ríkinu í þingheimi. Ég hef varað við því og talið að það væri ákaflega mikill glannaskapur í því. Nú spyr ég, virðulegi forseti: Hverjir hafa komið upp í gegnum árin þegar ég hef verið að fara með varnaðarorð mín og tekið undir? Hverjir hafa komið og sagst vera sammála mér? Er það stjórnarandstaðan? Ekki minnist ég þess. Ég ætla að þar hafi þeir kappar mest verið hvergi. (Gripið fram í: En stjórnarliðar?) Eða félagar mínir? Ég minnist þess ekki heldur.

Við höfum sett þjóðfélagið í nýjan farveg, nýjan frelsisfarveg þar sem verðmyndunin hefur ráðið og margir, þar á meðal sá sem hér stendur, virðulegi forseti, og margir aðrir hafa undrast glannaskap íslenskra banka. Mjög margir.

En þegar ég kem upp í ræðustól, virðulegur forseti, og óttast mjög að samningur sveitarfélaganna við grunnskólakennara geti orðið það korn sem fylli mælinn, sem ég óttast sannarlega, er ég ekki að halda því fram að aðrir hafi ekki áður staðið að því að setja eitthvað í þann mæli og hef aldrei sagt orð um það.

Menn vilja gera lítið úr þessu, telja mig fara offari í málinu og ég vona að það sé rétt, vonandi er ég að fara offari. En þá skulu menn líka standa að því og gera það heiðarlega allra vegna og ekki síst vegna þeirra grunnskólakennara sem nú hafa gert kjarasamning, að leggja sig alla fram um að aðrir taki ekki mið af þeim samningi, engir aðrir. Við verðum að standa vörð um samninginn að hann sé einstakur, hvort sem þjóðinni líkar betur eða verr að hækka kennara eina umfram aðra. Þá er ekkert annað að gera en að reyna að setja skjaldborg utan um samninginn og verja það sem hægt er að verja, búa til vígi. Þannig getum við verið ábyrg og ég kref stjórnarsandstöðuna svars. Ég kref þá um að segja umbúðalaust, skýrt og skorinort hver vilji þeirra er og hvað þeir muni gera. Ekki fara í einhvern flæming og útúrsnúninga út og suður, austan við sól og sunnan við mána með eitthvert kjaftæði eins og maður þekkir. (JBjarn: En skattalækkanirnar.) Bara ganga til verks — og hrópaði svo einhver um skattalækkanir: En hvað um skattalækkanirnar? (JBjarn: Já, hvað um skattalækkanirnar?) Hvernig er það, virðulegi forseti, ætli þessi hv. virðulegi þingmaður sé orðinn eins og biluð grammófónplata, hann hrópar alltaf það sama: Hvað með skattalækkanirnar? (JBjarn: Hvað með skattalækkanirnar?)

Við höfum farið í gegnum efnahagsmálin, ég gerði það í fyrri ræðu minni í dag og skal gera það aftur og aftur. Ég tel það liggja fyrir og sé algjörlega ljóst, bæði á Íslandi og í öllum öðrum Vestur-Evrópuríkjum, að því miður er eyðslustigið skattstigið. Það er alveg sama hvað við tökum mikla skatta í demóktratískum lýðveldum, eða þannig, að menn eyða því alltaf og því miður stundum miklu meiru. Þannig er þetta.

Ég vona, virðulegi forseti, að umræðan hafi orðið til þess að menn gangi hreint til verks, segi hug sinn allan og það megi treysta því hvar menn standa. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt fyrir launþegasamtökin í landinu að vita hver hin pólitíska forusta stjórnar og stjórnarandstöðu er, að þeir segi það upphátt, þori að koma fram og segja það. Það er lífsnauðsynlegt að samningurinn sem illu heilli var gerður við grunnskólakennara í gær verði einstakur. Það má engin önnur stétt eða starfshópur á Íslandi taka hann og gera hann að fyrirmynd. Við verðum að standa vörð um hann og ég treysti því að menn hafi þá ábyrgð að gera það.