131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:10]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður sagði var alrangt. Hann getur ekki fundið nokkur dæmi þess í Vestur-Evrópu að ekki hafi verið eytt jafnmiklu og aflað var.

Norðmenn hafa hins vegar búið sér til olíugróðasjóð sem er nú haldið fyrir utan Noreg, það er náttúrlega mikið lán fyrir þjóðina að hafa fundið olíuna. En ég get hrellt eða huggað hv. þingmann með því að hlutfallslega, miðað við fólksfjölda, er olíusjóður Norðmanna minni en lífeyrissjóðirnir á Íslandi þannig að Ísland stendur ef eitthvað er heldur betur að vígi en Norðmenn.

Núverandi ríkisstjórn er ekki með einhverja einstaka eyðslu. Það eina sem er einstakt í því er að aðeins hefur tekist að lækka skuldir hér, því miður ekki nógu mikið, þveröfugt við þróunina í Evrópu þar sem allar hinar stóru þjóðir Evrópu standa ráðþrota gagnvart því skuldafeni sem þær eru í.

Í Þýskalandi, Ítalíu og Frakklandi er 3,5%–4% af vergri landsframleiðslu rekstrarhallinn á ríkissjóðunum. Vita menn hver talan er af vergri landsframleiðslu ef hún er tekin yfir á Ísland? Þetta er yfir 30 þús. millj. kr. halli á hverju einasta ári á Íslandi, hlutfallslega. Íslenskur ríkissjóður stendur því mun betur en allflestir ríkissjóðir í Evrópu, nema Noregur. Þetta eru hin gleðilegu tíðindi sem eiga að gefa okkur ástæðu til að vera bjartsýn þó sannarlega sé rétt að hægt var að halda betur á. Þetta er (Gripið fram í.) samt niðurstaðan.