131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:14]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði vænst þess að formaður þess stjórnmálaflokks sem heitir Vinstri grænir kæmi og gerði eins og ég bað hann og segði skýrt og skorinort hver afstaða stjórnmálaflokks hans væri til samningsins. Ætlar hann og flokkur hans að styðja að þetta sé einstakur samningur sem megi ekki vera leiðandi fyrir aðra kjarasamninga á Íslandi? Ætlar hann að svara því, ætlar hann að svara því já eða nei? Samfylkingin hefur svarað því, hún sagði: Já, þetta er einstakur samningur sem má ekki verða forusta eða leiðsögn fyrir aðra kjarasamninga.

Ég bið hv. þingmann og bað hann um að koma og segja þetta hátt og skýrt. Ég bað líka hv. 9. þm. Reykv. s., formann BSRB, að koma og upplýsa þjóðina hver afstaða hans væri. Hann kemur kannski upp á eftir, ég veit það ekki, ég hef ekki heyrt neitt frá honum enn. Ég bíð spenntur.

Það er mjög nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvort við eigum möguleika á að stoppa þetta eða hvort við ætlum að framkvæma keðjusprengingar. Við þekkjum keðjusprengingar úr Íslandssögunni, að hafa leyft hina verstu stöðu fyrir alla í þjóðfélaginu þegar hver samningurinn sprengir annan. Það er ekki langt að leita. Það var síðast 1988 sem við sprengdum landið í loft upp einmitt vegna svona aðstæðna. (Gripið fram í.) 1988 sprengdum við efnahagslífið í loft upp vegna þess að hver hópurinn fylgdi öðrum og krafðist þess að fá hærri laun. (Forseti hringir.) Þetta hefur margsinnis gerst á Íslandi. Við þurfum að fá svar við því hver hin pólitíska afstaða þessara stjórnmálaflokka sé.