131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:16]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er reyndar rangt, og hv. þingmaður veit það, að það sem gerði útslagið 1988 hafi verið óraunhæfir kjarasamningar. Það var ónýt ríkisstjórn sem náði ekki saman um neinar aðgerðir í efnahagsmálum og sprakk í beinni útsendingu í sjónvarpinu í september 1988, búin að halda genginu föstu í eitt og hálft ár í 30% verðbólgu. Það er kostulegt að heyra mann sem kemur úr sjávarútveginum ætla að reyna að færa ábyrgðina á því sem þá gerðist yfir á herðar launamanna og kjarasamninga í landinu. Þeir voru sannarlega ekki meginorsök þess hvernig menn keyrðu út af 1988.

Varðandi það að við verðum að koma hér upp eins og við séum í prófi hjá hv. þingmanni og svara spurningum sem hann setur þannig upp að menn verði að svara því já eða nei hvort þessir samningar eigi að vera algjörlega einstakir og aðrir megi ekki fá sambærilegar kauphækkanir er það ekki í okkar valdi. Ættum við kannski að fara að taka sjálfstæðan samningsrétt af öðrum hópum í samfélaginu með lögum? Það gerum við ekki. Við erum ekki talsmenn slíks. (EOK: Hver er skoðun ykkar?)

Nú er það svo, hv. þingmaður, að sumum spurningum er ekki hægt að svara með jái eða neii, og þeim má ekki svara á þann hátt, t.d. spurningunni: Ertu hættur að stela? Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, ef svarið er já ertu að viðurkenna að þú hafir gert það, ef svarið er nei ertu enn að viðurkenna sekt. (SKK: Fyrirgefðu, ég ...) Það er bara ekki þannig að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson stjórni því með hvaða hætti við tjáum skoðanir okkar hér á þingi.

Það skal samt vera alveg skýrt að eigi ég fyrir hönd míns flokks að velja á milli já og nei svara ég nei. Við ætlum ekki að standa að því að taka réttinn af öðrum hópum í þessu samfélagi til að berjast fyrir sanngjörnum kjarabótum sér til handa, það skal vera alveg á hreinu. Meðan fyrirkomulagið er það að menn hafi hér almennt frjálsan samnings- og verkfallsrétt og megi beita samtakamætti sínum til að knýja á um kjarabætur styðjum við það.

Það er að sjálfsögðu betra en ekki að kennarar og sveitarfélögin náðu þó samningum frekar en að þurfa að gangast undir þann þvingunardóm sem ríkisstjórnin ætlaði þeim með lögum (Forseti hringir.) og vonandi leiðir það gott af sér.