131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:21]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ef ég vildi leggja mitt af mörkum til að hvetja launafólk til að reisa háar kröfur í komandi samningum mundi ég óska eftir því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson yrði fenginn á hvern fund sem fyrsti ræðumaður. Ég velti fyrir mér hvað eiginlega vaki fyrir ríkisstjórninni. Ef menn vilja lægja öldur senda menn á vettvang einstaklinga sem eru færir um slíkt og reyna að lægja öldur. Ef menn vilja slökkva elda er nú illa ráðið að senda brennuvarg á vettvang. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson minnti mig á mann í slíku hlutverki.

Ég verð að játa að ég verð hugsi þegar ég hlusta á hv. þingmann tala, þingmann sem fyrr á tíð lagði sitt af mörkum í tengslum við merka þjóðarsáttarsamninga, upp úr 1990, til að þeir mættu nást. Ég geri ekki lítið úr því mikla hlutverki sem hann lék á þeim tíma. Það var af allt öðrum toga en sá málflutningur sem er hafður uppi núna.

Í sjálfu sér er fróðlegt að heyra hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, helsta talsmann Sjálfstæðisflokksins í kjaramálum, opna sig gagnvart íslensku láglauna- og millitekjufólki og heyra á hvern hátt hann talar til þess, þegar hann varar það við að koma upp á dekk og þegar hann segir að það sé helsta viðfangsefni Alþingis og ráðamanna í samfélaginu að koma í veg fyrir þá ógæfu að millitekjuhópar og láglaunafólk krefjist kjarabóta því að þá sé voðinn vís.

Hv. þingmaður beinir þeirri spurningu til mín sem alþingismanns og sem formanns BSRB hvaða kröfur verði reistar þar. Er litið á samning Kennarasambandsins sem einstakan samning? Ég hef sagt það að kennarar reistu kröfur sínar á sínum forsendum, og innan BSRB háttar þannig til núna að félögin semja hvert um sig á eigin forsendum án þess að tilraun hafi verið gerð til að samræma kröfurnar. Sum félögin kunna að reisa hærri kröfur en koma fram í þeim samningum sem verið er að ganga frá núna, önnur kunna að reisa lægri kröfur. Þannig er það í samfélaginu að kjaraumhverfið tekur stöðugt breytingum og við höfum því aðeins rétt á að krefjast þess að allir hlíti sömu kjarastefnu að áður hafi verið leitað eftir slíkri samræmingu. Þá fyrst geta menn leyft sér að tala á þann hátt sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerði. Þetta hefur ekki verið gert.

Ef óskir mínar næðu fram að ganga eru margir hópar sem þyrftu að fá verulegar kjarabætur núna, aðrir hópar síður. Þetta eru bara staðreyndir málsins. Ég held að það þjóni engum tilgangi að tala á þennan ógnandi hátt til fólks sem er að ganga að samningaborði, hafa í hótunum við það, hrópa á það, gera lítið úr því og réttmætum kröfum sem það setur fram. Hvers konar tal er þetta? Þetta er óábyrgt tal. Ég veit að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson vill vera ábyrgur þegar kemur að fjármálum ríkis og sveitarfélaga en ég fullyrði að þetta er óábyrg afstaða og mjög vanhugsuð.

Því sem hv. þingmaður sagði um Kjaradóm er ég ósammála. Ég held að kjaradómskerfið gagnist ágætlega þeim sem eru í efri hluta launakerfisins, síður stórum hópum, fjölmennum stéttum. Reynslan segir okkur þetta. Hv. þingmaður vísaði að vísu til fjölmennrar stéttar, lögreglumanna, sem hefur náð ágætum samningum enda var það þannig að þegar lögreglumenn afsöluðu sér verkfallsrétti á sínum tíma fóru þeir undir þá almennu reglu að fylgja vísitölu launa í opinbera geiranum. Þar voru tilteknir viðmiðunarhópar. Síðan fóru þeir í síðustu samningum út úr þeirri fasttengingu. Ég vona að þeim vegni vel í framhaldinu, vissulega vona ég það. Ég hef hins vegar ekki trú á þessu fyrirkomulagi og reynslan frá fyrri tíð kennir okkur að kjaradómsleiðin var góð fyrir efsta hluta embættismannakerfisins — við þekkjum það í þessum sal hér, þingmenn sem höfum notið forréttinda. Ég hefði haldið að menn töluðu af aðeins meiri hógværð, ekki síst þegar kemur að lífeyrisréttindum sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerði sérstaklega að umræðuefni, tók bakföll og býsnaðist yfir lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Ég man ekki betur en að hv. þingmaður hafi samþykkt lífeyrisfrumvarpið um eigin lífeyrisréttindi, um lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra, forréttindi. (EOK: Minnkaði um 1%.) Það minnkaði ekki neitt. (EOK: Jú.) Lífeyrisréttindin minnkuðu ekki hjá neinum manni í þessum sal vegna þess að það er valkvætt. Menn gátu valið þann kostinn sem var betri fyrir þá, hver einasti þingmaður hér inni. Lífeyrisréttindin minnkuðu ekki hjá neinum manni sem samþykkti þessi lög. Það var verið að stórauka lífeyrisréttindi hjá ráðherrum og sérstaklega þeim sem gegna embætti forsætisráðherra. Ég held að menn eigi að fara varlega í þessum sal þegar þeir ráðast að lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna.

Hv. þingmaður býsnast yfir því að menn komi ekki hér upp hver á fætur öðrum til að ræða þá hættu sem hér er á ferðum. Hann vísar þar í launakröfur láglaunafólks og millitekjuhópa. Ég ætla aðeins að koma að þessum hættum.

Fyrst ætla ég að nefna annað. Úr því að hann er með þennan sífellda samanburð í kjaraumhverfinu almennt á milli opinbera geirans annars vegar og almenna geirans hins vegar þá er ég þeirrar skoðunar mjög eindregið að ég vil stuðla að sem mestum jöfnuði í samfélaginu öllu og gildir mig þá einu í hvað samtökum menn eru.

En við verðum að gá að einu. Innan Alþýðusambandsins annars vegar og BSRB hins vegar, ef við tökum dæmi, er mjög svipuð kjarauppbygging. Launadreifingin er að mörgu leyti mjög svipuð. En sá er munurinn á ýmsum hópum að í opinbera kerfinu er að uppistöðu til samið um hámarkskjör, launakerfið eða taxtakerfið gildir, a.m.k. hjá fjölmennustu hópunum. Hjá stóru breiðu hópunum, sjúkraliðum, kennurum og ýmsum öðrum, strætisvagnastjórum, er samið um hámarkskjör. Þetta eru kjörin sem halda.

Víða á markaði á sér hins vegar stað mikið launaskrið. Það er samið um lágmarkssamninga og síðan gildir launaskrið. Það þýðir ekki að launataxtarnir skipti ekki máli. Þeir skipta einmitt mjög miklu máli, ekki síst fyrir lægst launaða fólkið, fjölmenna hópa, fólk sem vinnur í stórverslunum svo dæmi sé tekið, í verksmiðjum og er á þessum lágmarkstöxtum og nýtur einskis launaskriðs. Taxtakerfið skiptir því verulegu máli. Ég er aðeins að vekja athygli á hinu að millitekjuhóparnir búa við mismunandi aðstæður að þessu leyti eftir því hver vinnuveitandinn er. Þetta er bara hlutur sem þarf að skoða af raunsæi.

En aðeins að hættunum, hvort hættur kunni að vera á ferðinni í efnahagslífinu. Já, ég held það. En þær hættur stafa ekki af kröfum láglaunafólks eða millitekjuhópa sem eru að reyna að rétta hlut sinn. Þær eru runnar undan rifjum stjórnvalda og hafa reyndar verið reifaðar hér í dag og undanfarna daga og ég ætla ekki að verja mörgum orðum í þá umræðu. Við þekkjum það. Það er hættan á ofþenslu og þar er það fyrst og fremst stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar. Þetta er alveg óumdeilt. Það deilir ekki nokkur maður um þetta. Verið er að pumpa tugum milljarða inn í efnahagskerfið og menn tala um nauðsyn þess að reyna að kæla niður á móti.

Síðan hefur annar þáttur verið nefndur. Það er skattstefna ríkisstjórnarinnar, að létta sköttunum af sem þá kallar á meiri neyslu og eftirspurn og þenslu. Þetta er annað sem hagfræðingar vara við.

Þriðja atriðið er gegndarlaus lántaka erlendis frá. Voru það ekki 300 milljarðar sem bankarnir tóku inn erlendis frá í fyrra? Síðan er verið að pumpa þessu út í hagkerfið. Þetta eru hætturnar.

Við eigum að tala um þetta af ábyrgð í stað þess að beina spjótum okkar að láglaunafólki og millitekjuhópum og koma hér og skamma það fólk og taka alþingismenn upp í tíma, í fyrirspurnum, um það hvort þeir ætli að voga sér að styðja póstmenn. Ætla þeir að voga sér að styðja strætisvagnastjóra? Ætla þeir að voga sér að styðja sjúkraliða? Ætla þeir að voga sér styðja hinn almenna skrifstofumann sem vill rétta sinn hlut? Ætla þeir að voga sér?

Ég gæti að sjálfsögðu haldið hér langa ræðu um kjaramálin. Ég tel hins vegar hafa komið fram í máli mínu helstu þættirnir sem ég vildi vekja máls á í stuttri ræðu. En ég ítreka það að ég hef spurt sjálfan mig: Hvað vakir fyrir stjórnarmeðlimum að fá þingmenn hingað í ræðupúltið? Horfi ég þar sérstaklega til hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, manns sem reynir að egna fólk á þann hátt sem hann gerir. Í rauninni finnst mér það ekki slæmt. Í rauninni finnst mér það gott þegar menn eru heiðarlegir og opna sig, opna hug sinn eins og hv. þingmaður hefur gert.