131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

321. mál
[19:04]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er frumvarpið eðlilegt framhald af kjarasamningum sem gerðir hafa verið á vinnumarkaði. Um atriði þess hygg ég að verði nokkuð góð samstaða við meðhöndlun í félagsmálanefnd Alþingis. Trúnaðarmannakerfi verkalýðshreyfingarinnar er kerfi sem hefur reynst vel og full ástæða er til að byggja á þó að ég vilji ekki taka undir orð hæstv. ráðherra um að útiloka opinbert eftirlit í þessu efni. Það er auðvitað ástæða fyrir því að á vinnumarkaði var samið um þessi atriði nú síðast. Hún er sú að það sýndi sig berlega í framkvæmdunum fyrir austan, við Kárahnjúka, og ýmislegu raunar kannski í smærri stíl í þróun hér á vinnumarkaði síðustu ár að alþjóðavæðingin kallar á ákveðnar aðgerðir til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð og að við höfum hér á Íslandi verið vanbúin til þess. Ég gerði það að sérstöku umfjöllunarefni við utandagskrárumræðu um stöðu innflytjenda á dögunum og taldi að það hversu mikil almenn andstaða er orðin við fjölgun innflytjenda á vinnumarkaði á Íslandi ætti kannski ekki síst rót sína í eðlilegum áhyggjum fólks af því að þar væru á ferðinni félagsleg undirboð. Þess vegna er þeim mun mikilvægara að vinna að lagasetningu með þeim hætti sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur gert og leggur hér fram og okkur tekst vonandi að afgreiða fljótt og vel í þinginu.

Ég lýsi ánægju minni með hið framkomna frumvarp hæstv. ráðherra en vil hins vegar um leið inna hann eftir því sama og ég innti hann eftir við utandagskrárumræðuna. Við umfjöllun hér um starfsmannaleigur síðasta vetur sem voru þá mjög á dagskrá og ollu allnokkrum óróa á vinnumarkaði, svo að vægt sé til orða tekið, skipaði ráðherra nefnd til þess að fara sérstaklega yfir þau mál. Eru komnar niðurstöður úr því nefndarstarfi eða er þeirra að vænta úr því að við erum að ræða þetta efni hér í þinginu?