131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[19:08]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er mér ánægjuefni að mæla hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Í júlí sl. skipaði ég nefnd til að endurskoða lögin um LÍN í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Eins og menn þekkja er í stefnuyfirlýsingu lögð áhersla á að LÍN gegni áfram því meginhlutverki að tryggja öllum tækifæri til náms. Jafnframt segir þar að endurskoða beri lög um sjóðinn og huga að því að lækka endurgreiðslubyrði námslána. Í endurskoðunarnefndinni áttu sæti hv. þm. Gunnar Birgisson, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Auður Finnbogadóttir nemi, Dagný Jónsdóttir alþingismaður, Heiður Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra námsmanna erlendis, Leifur Eysteinsson, viðskiptafræðingur í fjármálaráðuneytinu, og Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir var starfsmaður nefndarinnar og Steingrímur Ari Arason, framkvæmdastjóri LÍN, sat jafnframt fundi nefndarinnar sem ráðgjafi. Nefndin hélt samtals átta fundi. Á fund nefndarinnar kom Halldóra Friðjónsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna (BHM), og kynnti hugmyndir og sjónarmið BHM um framtíðarskipan námslánakerfisins.

Í starfi sínu byggði nefndin á útgefnu efni um málefni LÍN og upplýsingum sem hún aflaði sérstaklega hjá LÍN, ríkisskattstjóra og fjármálaráðuneyti. Af útgefnu efni sem stuðst var við ber sérstaklega að nefna „Skýrslu starfshóps til að yfirfara þörf á árlegu ríkisframlagi til LÍN“. Starfshópurinn starfaði á vegum stjórnar LÍN og lauk skýrslunni í júní 2004.

Ég vil geta þess hér að í þeim tillögum sem bárust frá nefndinni var sérstaklega bent á að núverandi lög um lánasjóðinn hafa almennt reynst góður grundvöllur fyrir starfsemi sjóðsins. Nefndin leggur því til að meginatriði laganna haldist óbreytt en jafnframt verði hugað að breytingum á einstökum ákvæðum þeirra.

Meginniðurstöður meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar og frumvarp þetta byggja á eftirfarandi:

– Árlegt endurgreiðsluhlutfall námslána verði lækkað úr 4,75% í 3,75%.

– Fjármagnstekjum verði bætt við tekjustofn til ákvörðunar árlegri tekjutengdri afborgun.

– Tekjugrundvöllur einhleypra lánþega verði útsvarsstofn og fjármagnstekjur samkvæmt skattalögum.

– Lánþegum með eldri námslán verði gefinn kostur á skuldbreytingu, þ.e. að endurgreiða af lánum sínu í samræmi við nýja endurgreiðsluskilmála.

– Að kröfu stjórnar LÍN getur málskotsnefnd frestað réttaráhrifum úrskurðar og stjórnin borið málið undir dómstóla.

– Skýrt verði kveðið á um frest lánþega til að sækja um endurútreikning eða undanþágu frá árlegri afborgun. Komi í ljós að lánþegi hafi innt af hendi of háa afborgun fái hann ofgreiddu fjárhæðina endurgreidda með almennum útlánsvöxtum í stað almennra innlánsvaxta af sparisjóðsbókum.

– LÍN hætti að veita svokölluð markaðskjaralán.

Eins og fram kemur í almennum athugasemdum þessa frumvarps eru gildandi lög um lánasjóðinn nr. 21 frá 1992 og hafa fjórum sinnum verið gerðar á þeim breytingar, árið 1997, 1998, 2002 og síðast nú í vor. Að stofni til eru lögin frá árunum 1976 og 1982 og þótt þau hafi reynst vel hafa þau stöðugt verið til endurskoðunar. Ég er sammála endurskoðunarnefndinni um það að mikilvægt sé að svo verði áfram og jafnframt að stjórnvöld nýti það svigrúm sem lögin veita og vinni stöðugt að því að bæta þjónustu LÍN eins og gert hefur verið á undanförnum árum undir öruggri forustu hv. þm. Gunnars I. Birgissonar. Gott dæmi um slíkt er nýlegt samkomulag um að bankaábyrgð geti komið í stað tilnefningar ábyrgðarmanns en það var auðvitað mikið ánægjuefni að undir forustu stjórnar LÍN hefur verið gert samkomulag við Landsbanka Íslands um námslánaábyrgðir. Í stað þess að tilnefna ábyrgðarmenn geta námsmenn núna samið um bankaábyrgð á námslán sín hjá fyrrnefndum banka. Ábyrgð Landsbankans getur með öðrum orðum komið í stað sjálfskuldarábyrgðar einstaklings sem fram að þessu hefur verið nánast undantekningarlaust skilyrði námslána hjá LÍN. Eins og ég gat um áður er um mjög stóran áfanga að ræða fyrir lánasjóðinn og námsmenn.

Ég legg sérstaklega áherslu á að lækkun endurgreiðsluhlutfallsins og breikkun tekjustofnsins sem endurgreiðslan tekur mið af er stórt hagsmunamál lánþega. Almennt lækkar árleg greiðslubyrði og má ætla að sú ráðstöfun komi sér sérstaklega vel fyrir greiðendur fyrstu árin að loknu námi. Er afar þýðingarmikið að þetta verði dregið fram því að við vitum öll að oftast er það ungt fólk sem er að festa kaup á sínum fyrstu húseignum, íbúðum, og byrðarnar eru afar þungar. Þetta er kærkomin kjarabót fyrir þennan hóp sérstaklega fyrir utan auðvitað fyrirhugaðar skattalækkanir sem koma að sjálfsögðu til með að hjálpa þessum hóp líka, einkum varðandi endurgreiðslur á þessum lánum sem og öðrum, að sjálfsögðu.

Þó að breikkun stofnsins og tillit til fjármagnstekna geti hækkað árlega greiðslubyrði og þannig stytt endurgreiðslutíma námsláns er ég sammála endurskoðunarnefndinni um að breikkun þessi sé eftirsóknarverð. Hún dregur úr kostnaði ríkissjóðs við lækkun endurgreiðsluhlutfallsins og það skiptir minna máli en áður hvernig greiðendur haga tekjuöflun sinni. Það má líka segja að með þessari leið sé verið að undirstrika enn og aftur að Lánasjóður íslenskra námsmanna er félagslegur jöfnunarsjóður og það hefur verið réttlætt með því að þeir sem hafa hærri tekjur greiði hlutfallslega hraðar inn í sjóðinn. Með þessu er verið að draga fram fram fleiri tekjustofna eins og fjármagnstekjuskatturinn er.

Í samræmi við niðurstöður meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar er æskilegt að lækkun árlegrar greiðslubyrði geti náð til þeirra sem tekið hafa lán á grundvelli laganna frá 1992. Þeim verði í ákveðinn tíma gefinn kostur á að skuldbreyta eldri lánum, enda verði þau tryggð með sambærilegum hætti og áður. Frumvarpið byggir á því að helmingur þeirra sem tekið hafa námslán eftir 1992 , þ.e. svonefnd R-lán, nýti sér þennan rétt. Greiðendur þeirra eru um 15.000 talsins og áætlað er að tæplega 10.000 manns fái námslán skólaárið 2004–2005.

Þá tek ég sérstaklega fram að skuldbreytingin mun standa mönnum til boða þeim að kostnaðarlausu þar eð ekki er ætlunin að þeir sem nýta sér þennan rétt til skuldbreytingar greiði sérstakt skuldbreytingargjald.

Í frumvarpinu er fylgt þeirri tillögu endurskoðunarnefndarinnar og þeirri ákvörðun stjórnar sjóðsins að hætta að nýta heimild til að veita svokölluð markaðskjaralán frá og með næsta skólaári. Því verði fylgt eftir með afnámi lagaheimildarinnar. Ég mun einnig taka til sérstakrar skoðunar ábendingar nefndarinnar um að athugun fari fram á kostum og göllum þess að gera frekari greinarmun en nú er gerður á lánaþætti og styrkjaþætti námsaðstoðarinnar.

Óvissa um kostnað ríkissjóðs vegna frumvarps þessa tengist fyrst og fremst breikkun tekjustofnsins, þ.e. þeirri tillögu að miða afborganir ekki aðeins við útsvarsstofn greiðenda heldur einnig fjármagnstekjur. Þannig var niðurstaða kostnaðarmats að breikkun stofnsins jafngilti 3–7% hækkun á núverandi tekjuviðmiði. Helstu óvissuþættirnir tengjast því að fjármagnstekjur eru mjög háðar aldri framteljenda og hækka með aldri þeirra. Stór hluti fjármagnstekna skilar sér þannig að öðru óbreyttu tiltölulega seint í formi hærri afborgana til sjóðsins. Til viðbótar þessu eru fjármagnstekjur háðari efnahagsástandi en þær tekjur sem mynda útsvarsstofninn og dreifast almennt ójafnt á framteljendur, þ.e. tiltölulega fáir eru hverju sinni með stóran hluta heildarteknanna.

Það má í rauninni segja að með þessari leið sé ríkissjóður að taka á sig þá áhættu sem getur fylgt því að efnahagsástandið geti verið misjafnt og haft misjöfn áhrif m.a. á fjármagnstekjur. Ríkissjóður tekur þannig á sig þá áhættu.

Varðandi einstakar greinar frumvarpsins bendi ég sérstaklega á að í 1. gr. þess er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein sem kveði á um að málskotsnefnd geti að kröfu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frestað réttaráhrifum úrskurðar, telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en tíu dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar vera bundin því skilyrði að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestun og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga frestsins. Ákvæði þetta er í samræmi við þá skoðun meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar að æskilegt sé að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafi heimild til að bera úrskurði málskotsnefndar undir dómstóla. Til þess þarf sérstaka lagaheimild þar sem ákvörðunum stjórnarinnar er skotið til málskotsnefndar og stjórnin þar með lægra sett stjórnvald gagnvart málskotsnefndinni. Í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar er það málskotsnefndin sjálf sem hefur vald til að fresta réttaráhrifum úrskurðar þegar þannig stendur á og er það í samræmi við sambærileg úrræði sem finna má í upplýsingalögum, nr. 50/1996, með síðari breytingum, og lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Við mat á því hvort heimild þessi verði veitt ber málskotsnefndinni að taka mið af því hvort úrskurðurinn geti haft fordæmisgildi, hann hafi í för með sér veruleg fjárútlát fyrir sjóðinn eða að lögfræðilegur vafi sé um niðurstöðuna. Út frá því er gengið að stjórnin nýti þessa heimild einungis í undantekningartilvikum, enda er þetta undantekning frá meginreglu í stjórnsýslurétti.

Þá þykir rétt að kveða á um að þegar mál er höfðað vegna úrskurðar málskotsnefndar sé henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála, sem til meðferðar eru hjá nefndinni, þar til dómur gengur. Er þá átt við endanlegan dóm hvort sem um er að ræða héraðsdóm sem ekki verður áfrýjað eða dóm Hæstaréttar.

Í 2. gr. frumvarpsins er að finna þá breytingu að árleg viðbótargreiðsla samkvæmt ákvæðinu lækki úr 4,75% í 3,75%. Er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og tillögur meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar. Þá miðast viðbótargreiðslan samkvæmt frumvarpi þessu við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins í stað útsvarsstofns samkvæmt gildandi lögum, en hugtakið tekjustofn er nánar skilgreint í 3. gr. frumvarpsins.

Ákvæði b-liðar kveður á um að skuldari, sem sækir um undanþágu samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laganna, skuli leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar sem stjórnin telur skipta máli. Umsóknin skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar. Dæmi eru um að óskir um endurútreikning eða undanþágu frá afborgunum berist sjóðnum mörgum mánuðum eftir gjalddaga. Þessi mál eru oft mjög erfið úrlausnar þar sem lán í vanskilum leiða oft til kostnaðarsamra innheimtuaðgerða. Aukin festa í meðferð þessara mála á því að vera allra hagur. Hér er þó ekki gengið lengra en að kalla eftir því að þeir sem hafa hug á endurútreikningi eða undanþágu láti sjóðinn vita áður en lán í vanskilum eru send í lögmannsinnheimtu.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að 1. mgr. 10. gr. laganna kveði á um að fjármagnstekjum verði bætt við tekjustofn til ákvörðunar árlegri tekjutengdri afborgun. Tekjugrundvöllur einhleypra lánþega verði því útsvarsstofn og fjármagnstekjur samkvæmt skattalögum. Tekjugrundvöllur lánþega í sambúð taki mið af útsvarsstofni og 50% samanlagðra fjármagnstekna greiðenda og sambúðaraðila þeirra. Ekki skiptir máli hvort tekjurnar eru af séreign samkvæmt kaupmála eða hjúskapareign.

Með því að bæta fjármagnstekjum við tekjustofn til ákvörðunar tekjutengdri afborgun námslána er farin sambærileg leið og í dag er farin hjá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt lögum um almannatryggingar og ákvæðum lífeyristrygginga. Þar er almenna reglan sú að tekjutengdur lífeyrir taki mið af útsvarsstofni og 50% fjármagnstekna.

Þá er lögð til orðalagsbreyting á núverandi 1. mgr. 10. gr. laganna, sem verður 2. mgr. sömu greinar. Orðalagsbreytingin tekur mið af því að hugtakið tekjustofn verður tekið upp í lögin, verði frumvarp þetta lögfest. Lagt er til að ný málsgrein komi í stað 2. og 3. mgr. 10. gr. laganna. Fyrsti málsliður málsgreinarinnar verði efnislega samhljóða 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna, en gerð verði sú breyting að orðið skattstofn komi í stað orðsins útsvarsstofns í samræmi við breytingartillögur hér að framan. Ekki er um efnisbreytingu að ræða heldur er efnisskipan á orðalagi breytt til samræmis við breytingar á öðrum stöðum. Þannig er talað um tekjustofn, samanber skilgreininguna í 1. mgr., í staðinn fyrir útsvarsstofn, viðbótargreiðslu í staðinn fyrir hámarksgreiðslu og lánþega í stað skuldara og skattþega.

Seinni málsliður 2. mgr. 10. gr. laganna, sem fjallar um endurgreiðslurétt lánþega vegna ofáætlaðs eða oftalins útsvarsstofns, falli brott og í stað hans er lagt til í 4. gr. frumvarpsins að tvær nýjar málsgreinar bætist við 11. gr. laganna um sama efni.

Til að eiga rétt á endurútreikningi er gerð sú krafa að lánþegi leggi inn umsókn um útreikninginn inna tveggja mánaða frá gjalddaga og er þetta nýtt ákvæði.

Hin efnisbreytingin lýtur að þeim vöxtum sem greiða ber hafi lánþegi verið krafinn um hærri afborgun en honum ber samkvæmt endurútreikningi. Í stað vaxta af venjulegum sparisjóðsinnstæðum er gert ráð fyrir almennum vöxtum óverðtryggðra bankalána. Þetta er umtalsverð réttarbót sem rétt er að geta um. Sem dæmi má nefna að í ágúst, september og október 2004 voru vextir á almennum sparisjóðsbókum 0,4% á sama tíma og almennir vextir óverðtryggðra bankalána voru 8,5% samkvæmt yfirliti Seðlabankans.

Í samræmi við tillögur endurskoðunarnefndarinnar um að LÍN skuli hætta að veita svokölluð markaðskjaralán er lagt til að 3. mgr. 12. gr. laganna falli brott í 5. gr. frumvarpsins.

Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að ef lánþegi samkvæmt þessu frumvarpi er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt eldri lögum um sjóðinn skuli miða við að hann endurgreiði þau fyrst. Á næsta almanaksári eftir að endurgreiðslu samkvæmt eldri lögum lýkur eða á að vera lokið skal lánþegi hefja endurgreiðslu samkvæmt frumvarpi þessu, verði það að lögum. Þær greiðslur frestast því þar til lán samkvæmt eldri lögum eiga að vera að fullu greidd.

Vegna þeirra breytinga sem frumvarp þetta mun hafa á rétt námsmanna og lánþega LÍN, verði það að lögum, er að finna ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu sem annars vegar kveður á um að þeir sem sótt hafa um námslán samkvæmt lögum frá 1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, fyrir gildistöku frumvarps þessa skuli til loka skólaársins 2004–2005 eiga rétt á námslánum samkvæmt þeim lögum.

Hins vegar er að finna bráðabirgðaákvæði þess efnis að þeir sem skulda eða hafa sótt um námslán samkvæmt lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, eigi rétt á að breyta því láni í námslán samkvæmt frumvarpi þessu, verði það að lögum. Skilyrði slíkrar skuldbreytingar er að umsókn um hana hafi borist sjóðnum fyrir 1. nóvember 2005, að umsækjandinn sé ekki í vanskilum við sjóðinn og að lánið sé tryggt með sambærilegum hætti og áður.

Virðulegi forseti. Ég vil í lok framsöguræðu minnar benda á tölulegar staðreyndir um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem rétt er að menn hafi í huga í umræðunni um frumvarpið.

Í fyrsta lagi gerir áætlun lánasjóðsins fyrir næsta ár, fyrir árið 2005, ráð fyrir tæplega 10 þúsund lánþegum og að ný útlán verði 7,1 milljarður kr.

Í öðru lagi er fjárveiting úr ríkissjóði samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 3.750 millj. kr. En samkvæmt útreikningum Ríkisendurskoðunar þarf árlegt framlag til viðbótar rekstrarkostnaði sjóðsins að samsvara um 50% nýrra útlána til að standa undir afföllum og kostnaði við vaxtaniðurgreiðslu sjóðsins.

Í þriðja lagi námu útistandandi námslán um 66 milljörðum kr. í lok síðasta árs og heildarfjöldi lánþega er tæplega 35 þúsund.

Í fjórða lagi. Þrátt fyrir viðmið við fjármagnstekjur til viðbótar útsvarsstofni er áætlað að lækkun endurgreiðsluhlutfalls tekjutengdu afborgunarinnar úr 4,75% í 3,75% leiði til 265–340 millj. kr. kostnaðarauka fyrir ríkissjóð á þessu ári. En það er rétt að leiðrétta þá tölu sem fram kemur í kostnaðarútreikningnum sem fylgir frumvarpinu. Í lok útreikningsins er nefnd talan 235 millj. kr. en á að vera 265 millj. kr., eins og fram kemur framar í úttektinni. Kostnaðurinn af lækkun endurgreiðslunnar leiðir því til 265–340 millj. kr. kostnaðarauka fyrir ríkissjóð á ári. Þetta þýðir að framlag ríkissjóðs hækkar um 3,7–4.8% eða úr um 49% af útlánum í um 53%.

Hæstv. forseti. Ég tel að frumvarpið feli í sér mikla réttarbót fyrir námsmenn og lánþega Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Með því er náð markmiðum ríkisstjórnarinnar um að lækka endurgreiðslubyrði námslána.

Í lokin vil ég sérstaklega færa þakkir þeim nefndarmönnum sem komu að vinnu endurskoðunarnefndar, sérstaklega af því að tveir þeirra eru hér staddir. Ég tel að endurskoðunarnefndin hafi staðið sig með prýði og skilað raunhæfum tillögum sem fyrst og fremst eru til hagsbóta fyrir íslenska námsmenn.

Ég hef rakið efni frumvarpsins í megindráttum og jafnframt einstakar greinar þess. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til menntamálanefndar og 2. umr.