131. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2004.

Tilefni þingfundar.

[14:02]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þau gerast svona drjúg, laugardagsverkin, að hér skuli vera svo brýnt mál á ferð að kalla þurfi til sérstaks þingfundar til að þjóna duttlungum hæstv. fjármálaráðherra eða hæstv. ríkisstjórnar. Við höfum verið með starfandi þing í haust og þing á eftir að starfa fram í desember. Ég leyfi mér því að ítreka spurninguna til hæstv. forseta:

Hvaða nauðir rekur svo til að hér þurfi að kalla saman þingfund á laugardegi, kalla saman fjölda fólks til vinnu á laugardegi til að útbýta þingmáli sem að stórum hluta, þegar grannt er skoðað, kemur ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári og þarnæsta ári, ef það kemur þá nokkurn tíma til framkvæmda? Maður veltir fyrir sér: Er að verða einhver heimsendir hjá ríkisstjórninni? Það væri þá rétt að ríkisstjórnin eða fulltrúar hennar segðu okkur bara að heimsendir væri yfirvofandi og þess vegna þyrfti að grípa til þeirra neyðarúrræða undir nónbil á laugardegi að kveðja saman þing. Hvað er á seyði, herra forseti?