131. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2004.

Tilefni þingfundar.

[14:04]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er ekkert sérstakt á seyði það ég þekki til annað en að hér er verið að reyna að greiða fyrir þingstörfum eins og hv. 1. þm. Reykv. s. orðaði það í sambandi við það þegar boðað er til útbýtingarfunda í þinginu. Ég gengst að sjálfsögðu fúslega við því að ég óskaði eftir að þessi fundur yrði haldinn og þakka forseta fyrir að hafa orðið við því. Ástæðan er sú að einungis eru þrjár vikur eftir af áætluðu þinghaldi til jóla.

Það frumvarp sem hér hefur verið útbýtt er með stærstu málum þessa haustþings. Ég skoðaði starfsáætlun næstu viku og sá í hendi mér að heppilegast mundi vera að þetta mál kæmist á dagskrá, ef forseta litist þannig á, nk. þriðjudag. Þá var um tvennt að ræða, annaðhvort að legga frumvarpið fram á mánudegi og biðja um afbrigði á þriðjudegi sem er kannski ekkert sérstaklega þægilegt að biðja stjórnarandstöðuna um — hér er mál sem hún er sennilega að miklu leyti andvíg — eða þá að óska eftir útbýtingarfundi til þess að tímafrestum yrði fullnægt. Það varð niðurstaða mín eftir að hafa spjallað lítillega við formenn stjórnarandstöðuflokkanna þó að þeir séu á engan hátt ábyrgir fyrir því sem hér er að gerast í dag.

Ég hélt satt að segja að það væri öllum til hagsbóta að mál sem þetta kæmist sem fyrst fyrir almenningssjónir. Það er flokksráðsfundur hjá einum stjórnarandstöðuflokkanna um helgina. Er ekki gott fyrir þingmenn sem þar eru að hafa þetta mál undir höndum til að geta fjallað um það þar? Er ekki gott fyrir sem flesta að geta notað helgina ef þeir telja sig þurfa þess til að undirbúa umræðu sem vonandi getur farið hér fram á þriðjudag og verður áreiðanlega efnismikil og löng?