131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Viðræður utanríksráðherra Íslands og Bandaríkjanna.

[15:16]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég áttaði mig ekki á því að ástæða og efni hefðu verið til þess hjá hv. þm. að nefna sérstaklega til sögunnar að ég væri ekki þekktur fyrir varfærið orðalag, ég held að ég sé algjörlega í meðallagi hvað það varðar í þinghúsinu, a.m.k. eru allmargir menn að mínu mati óvarkárari í fullyrðingum sínum og staðhæfingum en ég yfirleitt. Ég er tilbúinn að taka þann mannjöfnuð hvenær sem er.

En varðandi það sem fjölmiðlar kunna að hafa sagt um þann fund sem ég átti með utanríkisráðherra Bandaríkjanna hef ég ekki stúderað það, en fundurinn var mjög eðlilegt framhald af þeim fundi sem ég átti á sínum tíma með forseta Bandaríkjanna. Þá var ákveðið að færa málið á nýjan leik í farveg á vettvangi utanríkisráðuneytanna en það hafði verið á vettvangi forsætisráðherra og forseta Bandaríkjanna. Auðvitað var ástæðan sú að þarna höfðu orðið ákveðin kaflaskil. Tekin hafði verið ákvörðun og hún tilkynnt Íslendingum fyrir einu og hálfu ári um tilteknar aðgerðir gagnvart varnarliðinu. Þeim ákvörðunum hafði verið breytt af forseta Bandaríkjanna vegna afskipta íslenskra yfirvalda.

Fundurinn með Powell var mjög jákvæður, afar góður og mikilvægur fundur, og gekk mjög í rétta átt. Niðurstaða hans var sú að nú hæfust embættismannaviðræður á þeim grundvelli sem við höfum rætt, að loftvarnir væru hér tryggðar en jafnframt að ákvarðað yrði með hvaða hætti eðlilegt þætti að íslensk stjórnvöld kæmu inn í rekstrarþætti Keflavíkurflugvallar vegna breytts umfangs borgaralegrar starfsemi á flugvellinum.

Ég sé reyndar að menn hafa misskilið þetta eitthvað og sumir skrifað af miklu þekkingarleysi um efnið, þeir hafa ekki áttað sig á því að málið er komið í heilbrigðari farveg.